miðvikudagur, desember 27, 2006

Jólabörnin


Gleðileg jól


Við viljum óska öllum vinum og vandamönnum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Við munum reyna að vera dugleg eftir sem áður að blogga á nýja árinu enda margt spennandi í vændum. Við flytjum inn í nýja húsið í febrúar, Svava byrjar í mastersnámi í biomedical engineering í háskólanum og margar spennandi fjölíþróttakeppnir eru í deiglunni...svona þegar Svava er búin að jafna sig í hendinni. Við stefnum að því að heimsækja klakann í júlí ef ég fæ frí í vinnunni og hittum þá vonandi sem flesta.


Jólin eru búin að vera dásamleg hérna hjá okkur. Við vorum með skötuveislu fyrir alla íslendinganna í Christchurch á Þorláksmessu og var hún mjög vel heppnuð. Við sáum um skötuna, hangikjöt, brennivín, jólaöl, harðfisk og laufabrauð. María og Bergur komu með heimabakað flatbrauð og Emma, Hera og Hirtirnir komu með rúgbrauð og heimagerðan eftirrétt.


Á aðfangadag vorum við með einn gest í mat...Ingó sem er í mastersnámi í verkfræði. Við vorum með risahumar í forrétt (ekki jafnstór og líflegur og sá sem við höfðum í fyrra). Í aðalrétt vorum við með dádýrshrygg sem Ingó og vinur hann veiddu og Ingó sá um að útbúa ris-ala-mand í eftirrétt.


Á jóladag fórum við svo í hangikjötsveislu til Maríu og Bergs og náðum að borða yfir okkur enn einn daginn í röð. Í gær, annan í jólum tókum við það svo bara rólega og fórum og spókuðum okkur í dýragarðinum með nesti og tilheyrandi.


Enn og aftur þá viljum við óska ykkur öllum gleðilegra jóla. Við höfum opnað myndasíðu með myndum og myndbandsbútum á www.svavahilmar.phanfare.com

fimmtudagur, desember 21, 2006

Útsýnið úr nýja húsinu


Í deiglunni

Sæl öll, ég er loks búinn að jafna mig eftir sjóvolkið þegar ég tapaði myndavélinni og því kominn tími á pistil. Krakkarnir eru komnir í jólafrí frá leikskólanum og ég er svo lukkulegur að fá vikufrí yfir jólin sem er meiri munaður en ég man nokkurn tímann eftir. Það er náttúrulega nóg að gera í jólaundirbúningnum hjá okkur og í gær vorum við að baka 3 síðustu smákökusortirnar fyrir jólin. Svava greyið var nú ekki heppnari en það að brjóta glasið sem hún var að nota til að skera út hringi í deigið fyrir hálfmánana og skarst glasið í vísifingur hægri handar hjá henni þannig að gera þurfti við taugina út í fingur. Henni líður bara ágætlega eftir aðgerðina en verður víst í spelku yfir jólin.
Af öðrum stórfréttum þá erum við búin að kaupa hús hér í Lyttelton, sjávarþorpinu sem við búum í. Þetta er 100 ára gamalt einbýlishús með fínum garði. Það er meira segja hæsnakofi sem hentar okkur alveg fullkomlega. Ég hef reyndar verið að heyra óskir um kanínur líka...en það verður bara að koma í ljós eftir að við flytjum inn. Ég veit ekki alveg hvar við eigum þá að koma fyrir geitinni og aligæsunum.

þriðjudagur, desember 19, 2006

Tekið til og þrifið fyrir jólin




Geta myndavélar synt?



Jæja við vitum að ekkert hafur gerst á blogginu .....algjörlega óafsakanlegt. En málið er að myndavélin stakk sér til sunds þegar hún fór með Hilmari á kæjakinn um daginn og hefur ekki tekið myndir síðan. Við erum nýbúin að kaupa aðra og hér koma nokkrar myndir frá jólaundirbúningnum okkar.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Tuatara Myndir




Myndir




Fleiri myndir



Nú erum við aftur byrjuð að æfa fyrir næstu keppni af fullum krafti. Næsta keppni stendur yfir í þrjá daga og verður farið frá MT Cook til Christchurch. Þetta verður gríðalega skemmtilegt og við farin að hlakka mikið til. Ég veit að Kristbjörg frænka er með þríþrautar-dellu þessa dagana og er að gæla við að koma til okkar að keppa (ekki satt ;) En okkur vantar einn í liðið okkar og áhugasamir geta haft samband.. En hér eru fleiri myndir frá keppninni.

mánudagur, desember 04, 2006

Hilmar kemur í mark og keppninni þar með lokið












Fyrri keppnisdagurinn



Myndir Tuatara



Keppnin Tuatara og fleira

Tuatara Keppnin Jæja þá er fyrstu ,,multisport" keppninni okkar lokið. Hún er kannski ekki söguleg fyrir verðlaunasæti eða neitt slíkt, en við teljum samtað við höfum sýnt frækna frammistöðu með því að lenda þó ekki í síðasta sæti og öll náðum við mun betri tíma heldur en við bjuggumst við!Við skemmtum okkur alveg stórvel og Birna Líf og Árni Kristinn létu sér vel lynda að vera dregin um alla Banks peninsula um heila helgi, held baraað þau hafi haft gaman af. Nokkrum dögum fyrir keppnina hafði skipuleggjandi keppnarinnar samband við okkur og spurði hvort okkur væri ekki samaþótt að tekin væru viðtöl við okkur og myndir til kynningar á keppninni í framtíðinni. Okkur þótti það nú meira en sjálfsagt og daginn fyrirkeppnina kom myndatökuliðið að spjalla við okkur um fyrirkomulagið og kom þá í ljós að um var að ræða atvinnumenn frá Ný-Sjálenska sjónvarpinu.Þau eru að gera klukkustundar heimildarmynd um ,,multisport" á Nýja Sjálandi og helmingurinn af því verður um Tuatara keppnina með áherslu á liðið okkar! Sennilega vakti nafngiftin á liðinu ,,Eskimoes and Kiwi" athygli þeirra. Það var því úr að þau mættu svo klukkan 7 um morguninná keppnisdag til að fylgjast með okkar og taka viðtöl. Í gegnum alla keppnina vorum við svo hundelt á bílum, bátum og þyrlum og sennilega varþetta aðalástæðan fyrir því hvað við stóðum okkur vel. Afraksturinn verður svo sýndur í sjónvarpinu hér á Nýja Sjálandi í lok janúar og fáumvið eintök af þessu á DVD og lofum að senda ykkar heim til að skoða.Keppnin var ótrúlega vel skipulögð og skemmtileg. Kajakparturinn á degi 1 var mjög spennandi vegna slæms brims og sjóroks. Fyrir vikið endaðifjöldinn allur af ræðurum í sjónum og var ég sjálfur með sjóriðu um kvöldið. Að kvöldi fyrsta dags voru svo allir þáttakendurnir í tjöldum við Little River og var lifandi tónlist og geggjaður grillmatur í boði mótshaldara. Þetta var eiginlega eins og á besta landsmóti þar sem ungmennafélagsandinn sveimaði yfir vötnum.Dagur 1: Svava hljóp fjallahlaupið á 2:15, Hilmar Kajakaði á 2:01 og Shannon fjallahjólaði á 2:05Dagur 2: Shannon hljóp á 0:57, Svava fjallahjólaði á 2:15 og Hilmar Kajakaði á 1:45María og Heiðar voru í stuðningsmannaliðinu okkar og hjálpuðu með Árna Kristinn og Birnu Líf og að auki var María obinber ljósmyndari okkar á mótinu og hefðum við aldrei getað gert þetta án þeirra og viljum þakka þeim kærlega fyrir okkur

laugardagur, nóvember 18, 2006

Búin að borða


Árni Kristinn var að borða um daginn upp úr djúpumdisk og þegar hann var búin fannst honum eina vitið að skella disknum á höfuðið og var afskaplega ánægður með þennan nýja hatt









Leikskóli og labb


Jæja, þá er Árni Kristinn byrjaður á leikskóla. Hann er á sama leikskóla og systir sín og þau virðast bæði vera ákaflega ánægð þar. Sama dag og Árni Kristinn byrjaði á leikskólanum ákvað hann líka að byrja að ganga og það með stæl þannig að núna á fimmta degi vill hann helst hlaupa....og á það því til að skella beint fram fyrir sig í ærslaganginum. Birna Líf vill líka hjálpa mikið til þegar hann er að labba (enda telur hún að heiðurinn sé fyrst og fremst hennar) með tilheyrandi áhrifum á jafnvægið hjá honum. Hann hefur sennilega ákveðið að fyrst hin smábörnin geta gengið þá geti hann það sko líka.

Halta hænan okkar er öll að koma til. Hún er laus við spelkuna og farin að dóla sér niður alla þrjá pallana fyrir ofan hús niður til okkar til að minna okkur á að það eigi nú að fóðra þær reglulega. Emma, Hera og Hirtirnir þeirra komu í kaffi til okkar í síðustu viku og vildu þá endilega fá að sjá þessa frægu hænu og að þeirra viti þá fannst þeim göngulag hennar minna sig á ,,hermannagang" með fótinn svolítið stífan fram og beint út í loftið.......hún fór þó ekki í pottinn.

Æfingarnar ganga vel hjá okkur og er keppnin næstu helgi. Svava gaf mér kajakinn sem er á einni af myndunum fyrir neðan sem fyrirfram afmælisgjöf (ekki nema 5 mánuði fyrir tímann) og reyni ég að vera duglegur að róa á honum. Birna Líf er mjög spennt fyrir þessu og talar mikið um að ég verði að hlaupa hraðar, svo ég geti orðið fyrstur....svona eins og hún

föstudagur, nóvember 03, 2006

Einbeittur á svipinn við myndlistina

Að lita og teikna


Birna Lif tók að sér að kenna bróður sínum að lita og teikna í dag. Það gekk furðu vel Árni Kristinn borðaði mun minna af vaxlitunum í þetta skiptið og teiknaði sína fyrstu mynd. Birna Líf var rosalega stolt af bróður sínum og kallaði á mig (Svövu) ,,mamma mamma hann er búin að teikna sjáðu hvað hann er duglegur" og mátti varla á milli sjá hvor var stoltari af myndinni, hún eða Árni Kristinn.





Hrekkjavöku kanínan

Á Hrekkjarvöku


Birna Líf kom mjög spennt heim af leikskólanum fyrir tveimur dögum og sagði okkur að í dag væri drauga og vondu kalla kvöld. Hún ákvað að klæða sig í víkinga-drauga-sjóræningja búning og festi á sig kanínu sem var að sjálfsögðu vond. Síðan komu krakkar og hringdu bjöllunni, klædd í skrímslabúning Birnu Lif til mikillar ánægju. Árni Kristinn var hins vegar ekki eins ánægður með þessi skrímsli á tröppunum og fór bara að sofa.

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Ýmislegt brallað á leikskólanum

Birna Líf á afskaplega góða vinkonu á leikskólanum sem heitir Sophie og bralla þær ýmislegt saman. Núna á mánudaginn voru þær í hárgreiðsluleik og Sophie vildi endilega klippa Birnu Líf (eftir að hafa klippt sjálfa sig fyrst) og stytti hún því aðra fléttuna hennar Birnu Lífar um eina 5cm. Þetta olli vitanlega miklu fjaðrafoki á leikskólanum og var haldinn fundur með öllum börnunum þar sem ákveðið var að fleiri fengju ekki jólaklippinguna sína á leikskólanum. Birna Líf var svo sem ósköp sæl með þetta allt saman og Svava klippti hana hér heima um kvöldið með góðum árangri.

Annars tók Árni Kristinn 4 skref áðan og virðist sem hann sé alveg að fara að gleyma sér nóg til að fara að labba. Annars stóð hann úti á miðju stofugólfi fyrr í dag og hoppaði jafnfætis með ágætis jafnvægi.

mánudagur, október 30, 2006

Hænufréttir, hestbak og æfingar

Hænufréttir
Risahænan okkar hún Toto er þvílíkt að jafna sig. Hún er farin að skrölta um allt á spelkunni sinni og meira að segja farin að rölta sér aðeins út úr búrinu. Hún virðist hægt og rólega vera að ná sjálfstraustinu aftur og sennilega ekki langt að bíða þess að hún fari að gogga í hinar hænurnar aftur. Hins vegar má geta þess að hinar hænurnar tvær hafa heldur bætt á sig á meðan Toto hefur lagt af í hremmingunum. Spelkan á að fara af á morgun og þá verður fróðlegt að sjá útkomuna.

Hestbak:
Við fórum í sunnudagsbíltúr á laugardaginn og komum við á búgarði þar sem Birna Líf og Heiðar brugðu sér á hestbak sem var mjög skemmtilegt. Árni Kristinn var ekki alveg sáttur við skepnurnar til að byrja með en í lokin fékkst hann þó aðeins til að klappa einum hestinum. Hann var hins vegar ekki eins sáttur við einn hundinn sem tók upp á því að hnusa af tánni á honum, honum til mikillar hrellingar. Birna Líf lét hins vegar eins og hún ætti búgarðinn með öllu sem honum fylgdi. Hún vildi helst vera lengur á hestbaki og var ekkert hrædd þrátt fyrir að vera í þriggja mannhæða/Birnu Lífar-hæð.

Æfingar
Við erum að reyna að halda okkar striki í æfingunum. Ég, Svava og Shannon skipum eitt lið en Mikki og Ingó eru í hinu liðinu. Leggirnir skiptast í eftirfarandi:

Dagur 1: Svava hleypur 10.5 km fjallahlaup með 1000 metra hækkun. Hilmar rær 13.5 km í sjókajak og Shannon hjólar 18 km fjallahjólalegg með 1000 metra hækkun.

Dagur 2: Shannon hleypur 12.5 km, Svava hjólar 18 km á fjallahjóli með um 800 m hækkun og svo kajakar Hilmar í mark í Akaroa 12,25 km.

Svava fór í gær með Ingó að hjóla fjallahjólalegginn sem er á 2. degi og tók það heldur betur á en án nokkurra alvarlegra skakkafalla. Hún datt einu sinni og hruflaði sig aðeins á vinstri hlið líkamans (eins og hún leggur sig) en Birna Líf tannlæknaði hana í morgun með einum plástri sem betur fer. Ég fór svo á sjókajak í dag með leiðbeinanda sem þarf að skrifa upp á vottorð um að ég geti róið í roki og rigningu. Dagurinn í dag var því valinn þar sem ölduhæð var um einn metri og ef ég gæti komist spönn frá rassi við þessar aðstæður væri ég fær í flestan (allan) sjó. Ég puðaði því við að komast út eina 50 metra á hálftíma og tók svo brimið til baka á einni....en fékk uppáskrifað að ég væri ok fyrir keppnina.

Jæja verð að hætta, skrifa víst alltof langa pistla

þriðjudagur, október 24, 2006

Á ströndinni


Æft fyrir fjölþrautarkeppnina og fréttir af hænunni

Það var alveg frábært veður um helgina. Við skelltum okkur á ströndina á laugardaginn með nesti og fengum Berg, Maríu, Heiðar og Mikka til að hitta okkur í lítilli vík rétt fyrir utan Lyttelton. Við leigðum kajak og Hilmar notaði tækifærið og réri um fjörðinn. Það var frábært veður sól og 27 stig.

Daginn eftir var komið að mér að æfa (Svövu). Ég fór ásamt Ingó með ferju yfir til Diamond harbor og við hjóluðum síðan aftur til Lyttelton. Þetta tók ca 1 1/2 tíma. Þetta var erfitt í fyrstu þar sem ég hafði ekkert farið á hjólið síðan ég datt fyrsta daginn. Eftir smá lagfæringar á pedölunum gekk þetta miklu betur en ég hafði þorað að vona. Nú þegar búið er að losa upp á smellunum á pedölunum á hjólinu, get ég óhikað mælt með að hjóla í smelluskóm.

Nú af hænunni er allt gott að frétta hún er farin að stíga í og verpti fyrir okkur í gær, sem hlýtur að vera bata merki. Ég er samt ekki viss um að ég leggi í að borða eggið frá blessaðri hænunni, er ekki hugsanlegt að það innihaldi ether ? Maður veit ekki með hænur sem hafa verið svæfðar, ég ætla a.m.k ekki að taka sénsinn og hendi fyrsta egginum frá henni.

fimmtudagur, október 19, 2006

Hrakfarir risahænunnar

hæ hæ

Fyrir þá sem ekki vita þá fylgdu núverandi leiguhúsnæði ýmsar kvaðir.....ein þeirra var að sjá um 3 hænur eigendanna á meðan þeir eru í burtu. Okkur var reyndar sagt að ef við fengjum yfirþyrmandi leið á þeim þá mættum við alveg setja þær í pottinn. Nú, eins og fyrr segir þá eru hænurnar þrjár, tvær í eðlilegri stærð og svo eitt risaflykki sem er á stærð við kalkún.

Birna Líf hefur tekið að sér yfirumsjón með hænunum og gefur þeim daglega og tekur eggin frá þeim. Á mánudagskvöldið þegar við fórum að kíkja á hænurnar þá hafði stóra hænan e-rn veginn náð að festa vinstri fótinn í vírnetinu í nokkurri hæð og hékk þar bjargarlaus. Ég náði að losa hana eftir góða stund ( reyndi fyrst með Árna Kristinn í fanginu en honum leist ekkert á það ) og setti hana á jörðina og hún dró fótinn bara á eftir sér.

Næsta dag hringdi ég heim úr vinnunni og spurði Svövu hvernig sjúklingurinn hefði það og Svava sagði mér að því miður væri hænan örugglega fótbrotinn og hún kæmist vart spönn frá rassi. Ég bauðst þá til að binda enda á þjáningar greysins eftir vinnu en Svava vildi ekki heyra á það minnst. Við hlytum að geta spelkað hana eða lappað upp á hana með e-u móti. Á endanum ákváðum við að ég myndi reyna að komast að því hvernig væri best að ,,róa" hana stundarkorn á meðan við kæmum á hana spelkunni. Ég ræddi málið við svæfingalækninn sem ég var að vinna með en hann hafði aðeins svæft hunda og ketti en aldrei hænur. Hann átti hins vegar gamla flösku af Ether sem mér væri frjálst að fá...ásamt öðru sem ég gæti fundið á skrifstofunni hans, sem er eins og safn, alveg troðfullt af úr sér gengnum gripum. Á netinu komst ég að því að Ether svæfing væri mjög hentug fyrir hænur og þær jafnvel sæktust í slíkan sælusvefn.

Við útbjuggum því afskaplega frumlegan svæfingakassa fyrir hænuna sem dugði þó ekki betur en svo að hún varð bara rétt aðeins dösuð. Við gripum því til þess ráðs að gera þetta á þann máta sem það var notað við svæfingar á mönnum fyrir hundrað árum eða svo og létum etherinn dropa ofan í grisju fyrir vitum hænunnar. Hún sofnaði þá værum svefni á meðan Svava setti spelku og umbúðir á. Sjúklingurinn var svo færður aftur upp í búr og færður matur í ,,rúmið" og virðist núna 2 dögum síðar heldur vera að braggast og aðeins farinn að stíga í spelkuna.......svo er bara að bíða og sjá.

Það má kannski nefna það að svæfingalæknunum á spítalanum finnst þetta svo spennandi að ég er spurður á hverjum morgni fregna af sjúklingnum. Einnig hafa menn mismunandi skoðanir á málunum og telja jafnvel að aflimun hefði verið skynsamlegri kostur í stöðunni. Verið getur að ég neyðist til að halda fyrirlestur um herlegheitin.

Einn svæfingalæknirinn sagði þá mér ágæta sögu af dýralækni sem hafði svæft kanarífugl. Eigandinn kom með hann til að fjarlægja ofvöxt á goggnum. Dýralæknirinn svæfði fuglinn með ethervættri grisju og greip svo rafmagnshitara til að brenna burtu ofvöxtinn. Það vildi þá ekki betur til en að hár hvellur gall við og aumingja dýralæknirinn stóð með nokkrar fjaðrir í hendinni og neyddist vandræðalega til að útskýra fyrir eigandandum hvað gerst hefði þar sem hann hafði engann kanarífugl í sömu litum til að láta í staðinn.

Með kveðju frá dýraklínikinni í Lyttelton.

þriðjudagur, október 17, 2006

Leikið út í garði


Kanntu brauð að baka ?


Birna Líf tekur sitt hlutverk sem stóra systir, mjög alvarlega. Hér er hún að kenna litla bróðir sínum að baka köku, en á meðan eldaði hún grænmetissúpu. Árni Kristinn var mjög áhugasamur og smakkaði kökuna meira að segja til :)

Árni Kristinn að príla


Nú hefur hann áttað sig á því að hægt er að komast þar sem áður var ókleift, með því að draga á eftir sér plaststólinn sem hann stendur á. Svo stillir hann honum upp við græjurnar eða bara hvar sem er og kemst nú í allt sem ekki má. Hann sjálfur er afskaplega ánægður með þessa uppgötvun. Hið sama verður ekki sagt um foreldra hans.

sunnudagur, október 15, 2006

Látum ekki deigan síga

Æfingar:
Jæja það er svo sem alltaf frá nógu að segja enda reynum við að hafa sem mest við að vera hérna úti, ég tala nú ekki um það þegar veðurguðirnir leika svona við okkur. Við Svava erum byrjuð að æfa fyrir næstu keppni af fullum krafti og annað okkar þarf að vakna eldsnemma að morgni til að hlaupa og svo fer þá hitt okkar þegar Hilmar er búinn að vinna og getur leikið við börnin. Í dag hljóp Svava fyrst 11.7 km heiman frá okkur til Governors Bay og ég fór þangað á bílnum með krakkana og hljóp svo til baka sem er afskaplega hentugt fyrirkomulag. Svava greyið meiddi sig reyndar svolítið í fyrsta hjólatúrnum á nýja og fína hjólinu sínu. Hún datt í einni brekkunni fram fyrir sig og stýrið skall undir bringspalirnar og var hún ansi aum þar á eftir en er nú farin að jafna sig á því blessunin.

Krakkarnir:
Birna Líf og Árni Kristinn una hag sínum afskaplega vel hér í blíðunni og hafa verið mikið úti að leika sér. Árni Kristinn er svona farinn að hafa aðeins meira vit og getur því tekið þátt í leikritum Birnu Lífar þrátt fyrir að láta oft heldur illa að stjórn. Birna Líf er ósköp dugleg að leika við hann og þegar þau eru saman aftur í bílnum þá heyrum við Svava ekki mikið hvort í öðru fyrir hlátrasköllum úr aftursætinu. Árni Kristinn er sennilega alveg sannfærður um að betri félagsskap en Birnu Líf sé ekki hægt að finna og hermir hann statt og stöðugt eftir öllu sem hún gerir.

Birna Líf er mjög ánægð á leikskólanum og vill helst fá að fara þangað svolítið meira, en hún fer bara tvo daga í viku núna. Hún er byrjuð að læra á píanó aftur og er mjög ánægð með það. Síðan erum við búin að fara með hana tvisvar á skauta sem henni finnst alveg frábært, enda hátt stillt rokktónlist með diskóljósum alveg að hennar stíl, og hún dansar af miklum krafti í takt við tónlistina á skautunum. Hún er nú ekki alveg til í að sleppa okkur ennþá en er þó komið með jafnvægið og getur staðið sjálf.

Árni Kristinn þvertekur ennþá fyrir það að byrja að labba. Honum finnst samt ekkert mál að hlaupa með okkur með því að halda í aðra höndina.....hann vill sennilega byrja beint að hlaupa. Annars er hann að verða svolítill skærulið eins og sést á meðfylgjandi mynd. Hann er farinn að príla upp á allt sem hann kemst nálægt og var nánast búinn að steypa sér alklæddur ofan í baðið hjá Birnu Líf í gær.

Fyrstu gestir sumarsins:
Það er því bara allt gott að frétta af okkur hérna úti um þessar mundir. Það fer líka að styttast í fyrstu gesti sumarsins, Daníel vinur minn kemur hingað í lok nóvember með fjölskylduna sína og svo kemur Þór Fannar vinur minn með sína fjölskyldu í desember og verða þau hjá okkur í mánuð þannig að við höfum nóg að hlakka til.

fimmtudagur, október 12, 2006

Ég berst á fáki fráum.....


Varð hreinlega að skella inn þessari mynd af Svövu í fullkominni sælu á nýja glæsilega fjallahjólinu sínu. Hún fékk það í afmælisgjöf (aðeins fyrir tímann reyndar) til að æfa sig fyrir keppnina í nóvember.

miðvikudagur, október 11, 2006

þriðjudagur, október 10, 2006

Vetrarlok

Það verður algert sjokk fyrir vini og vandamenn þegar þeir loksins líta á bloggið okkar aftur, allir löngu búnir að gefast upp á þessupistlaleysi. Viti menn þá bara rignir pistlunum inn á síðuna.
Síðustu helgi ákvaðum við að skella okkur í smáferðalag. Við pökkuðum því öllu okkar hafurtaski í skottið á bílnum, skelltum okkar á sveitamarkaðinn hér í Lyttelton til að kaupa okkur nýbakað brauð, lífrænt ræktað grænmeti og svo ægilega fína grísalundir af grísum sem erualdir upp í ,,stressfríu" umhverfi.Eftir það keyrðum við í bústað sem við leigðum í um 2 tíma fjarlægð frá Christchurch við strönd sem heitir Manuka Bay og gistum eina nótt þar í góðu yfirlæti og Birna Líf týndi meðal annars sítrónur af sítrónutrénu í garðinum. Á laugardeginum fórum við í göngutúr niður á ströndina þar sem Birna Líf og Svava týndu skeljar og fallega steina. Árni Kristinn lagði sig bara í vagninum og var ekki spenntari fyrir herlegheitunum en það.....reyndar hafði hann af mikilli þrjósku neitað að sofa á svefntímanum sínum í bílnum á leiðinni þannig að það var ekki að furða að hann hann drægi ýsur að lokum á ströndinni. Þegar Svava var að draga kerruna upp úr fjöruborðinu þegar það fór að flæða að þá var hún næstumbúin að detta um selshræ. Sem betur fer var hún að draga kerruna, annars hefði kerran strandað á hræinu. Á sunnudeginum fórum við svo á aðra fallega strönd þar sem heitir Gore Bay og er stutt þar frá. Þar er mikil strandmenning og þykja sérlega góðar öldur fyrir brimbrettiog svo er fallegt að kafa þar ýmist eftir Paua skeljum eða risahumrum.Við ókum svo aftur til Lyttelton til að drífa okkur í garðvinnuna enda það löngu orðið tímabært að segja illgresinu stríð á hendur. Ég og Birna Líf rifum upp úr matjurtagarðinum og Svava fór í að arfahreinsa daginn eftir.Um kvöldið höfðum við boðað til fundar á eskimóa-miðstöðinni heima hjá okkur. Við höfðum sent tölvupóst á vini og kunningja hér ytra þarsem við óskuðum eftir þáttakendum í fjölíþróttakeppni (multisport) sem er í lok nóvember og við Svava ætlum að taka þátt í. Það er skemmst fráþví að segja að auk okkar mættu tveir ofurhugar, þeir Mikael (í sérnámi í læknisfræði) og Ingólfur ( í verkfræði) og voru tvö lið sett saman.Ég og Svava verðum í öðru liðinu að sjálfsögðu og þeir í hinu. Þetta er 2ja daga keppni sem samanstendur af 6 leggjum, tveimur kajak, tveimur hlaupaog tveimur fjallahjólaleggjum. Slóðin á keppnina er http://tuatara.bloodygoodevents.co.nz/index.cfm
Við þurfum því heldur betur að fara að bretta upp ermarnar og taka á því. Látum ykkur vita síðar hvernig gengur. Við lofum líka að helga næsta pistil eingöngu börnunum okkar.....enda finnst flestum þeir pistlar mun skemmtilegri.
með kveðju úr vori og ærburði

Ekki eins löt og þið hélduð!

Ha ha, fann hér gamlan pistil, saminn í júní sem e-a hluta vegna komst ekki á netið en birtist hér óritskoðaður í heild sinni
Síðastliðnar vikur hafa rignt yfir okkur kvörtunum vegna ódugnaðar okkar við að færa inn nýja pistla. Sökin er alfarið Hilmars, allavegana opinberlega. Ég (Hilmar) var búinn að lofa að skrifa næsta pistil en síðan hefur lítið gerst. Það lítur kannski út á blogginu að ekki hafi runnið af okkur frá því á Þorrablótinu og það að hlaupapistilinn hafi stimplast inn tvisvar staðfesti þaðbara. Ég ætla að reyna að bæta aðeins úr pistlaleysinu með smásamantekt yfir það sem hefur drifið á okkar daga síðan í mars þráttfyrir að ég viti að það vilji bara allir fá að sjá myndir af Birnu Líf og Árna Kristni.
Í byrjun apríl fór ég til Sydney og þreytti prófin sem ég var búinn að vera að undirbúa mig fyrir af krafti og náði þeim öllum sem betur fer og á því eftir 3.5 ár áður en ég klára sérfræðiprófin í bráðalækningum. Á föstudeginum eftir prófin komu Svava og ÁrniKristinn til mín, en Birna Líf varð eftir í pössun hjá uppáhaldsmóðursystur sinni, henni Ásdísi. Ég hafði í fáfræði minni fundið ægilega fínt hótel (eða þannig) í Kings Cross hverfinu sem er býsna miðsvæðis í Sydney og stutt í miðbæinn, góða veitingastaði etc. Við höfðum samt ekki gert ráð fyrir því að útsýnið úr hótelherbergisglugganum yrði eins og fjölbreytt og raun bar vitni. Þegar degit ók að halla fóru fíkniefnaneytendur og vændiskonur á stjá og úr varð oft fjölbreytt sjónarspil sem Svava hafði mikinn áhuga á....hún stóð við gluggann bendandi...hei sjáðu þessa, hún er að kaupa dóp..hei þarna eru fleiri sölumenn etc. Áður en þessar bendingarhöfðu vakið of mikla eftirtekt hafði mér þó tekist að draga hana frá glugganum og draga tjöldin fyrir.Annars fór mjög vel um okkur í Sydney og okkur tókst að skoða ýmislegt s.s. óperuna, brúna, gamla bæinn og njóta frábærraveitingastaða í Sydney. Það þarf hins vegar gott betur en þessa helgi til að ná að skoða Sydney almennilega, frábær borg.
Eftir að heim var komið tók við undirbúningur við að pakka niður öllu dótinu okkar þar sem við þurftum að flytja okkur um set ummiðjan maí. Það er ótrúlegt hvað safnast mikið af alls konar drasli á svona stuttum tíma...við sem komum hér um bil allslaus tilNýja Sjálands fyrir rúmlega einu og hálfu ári. Við höfum sem sagt flutt í íbúð til styttri tíma á meðan við erum á milli lengrileiguhúsnæða. Nú búum við í lúxusíbúð í miðbænum, 2ja mínutna gangur fyrir mig á spítalann og náttúrulega allir veitingastaðir og kaffihús miðbæjarins á næsta leyti. Einnig er hérna þessi fína hitapumpa þannig að byrjun vetrarins fer ekki eins illa í okkurog í kulda-kumbaldanum sem við vorum að flytja úr. Það er ekki fyrr en núna að við gerum okkur grein fyrir hvað það fór ótrúlegamikill tími í að halda því húsnæði heitu....endalausar ferðir að ná í eldivið (misblautan) og í raun bara eitt heitt herbergi.
Árni Kristinn hefur vaxið og dafnað. Er nú orðinn tæp 10 kíló, byrjaði að segja mamma og pabbi í síðustu viku, farinn að skríðaog virðist ætla að verða jafnákveðinn og Birna Líf systir hans. Þeim kemur ógurlega vel saman og Birna Líf er óskaplega góð alltaf við hann.
Eins og fram hefur komið áður þá vorum við öll að æfa okkur fyrir hálfmaraþon sem loks fór fram síðustu helgi. Við náðum öllað komast í mark sem var aðalmarkmiðið. Við höfum þó öll einsett okkur að bæta tímann og Svava ætlar að taka þátt í Reykjavíkur-hálfmaraþoninu í Ágúst n.k.
Á mánudaginn var varð Birna Líf fjögurra ára og lítur nú á sig sem stóra stelpu loksins. Nú segist hún ekki lengur vera hrædd við drauga og aðrar forynjur heldur reki þær miskunnarlaust á dyr þegar þær villast inn í herbergið hennar að næturlagi. Það komu allar vinkonur hennar úr leikskólanum og skemmtu sér mjög vel. Svava og Ég (aðallega Svava) höfðum útbúið fyrir hana sveppaafmælisköku sem vakti mikla lukku. Annars vildi Birna Líf helst bjóða öllum sem hún hitti í afmælið sitt. Við vorum að versla ívikunni fyrir afmælið hennar og það var einhver kona sem hleypti okkur fram fyrir sig í röðinni. Birna Líf ákvað samstundis aðþetta væri ,,voðalega" góð kona og hún ætti líka að koma i afmælið hennar.