laugardagur, maí 23, 2009

Kominn tilbaka til Lyttelton



Jæja, eftir viðburðarríka ferð til Íslands erum við kominn aftur til Lyttelton. Það voru ekki nema 35 gráður daginn sem við lentum, hefði svo sem mátt vera aðeins nær 20 gráðum, svona til að leyfa okkur að aðlagast. Ferðin til Íslands var frábær, gaman að hitta alla vini og ættingja sem við höfum ekki séð í langan tíma. Við náðum að gera ansi margt, þótt það hafi farið lítið fyrir þeim lærdómi sem hafði verið planaður, en það er bara réttur tími til að bretta upp ermarnar og fara að læra á fullu. Sérfræðiprófið mitt er 17. feb og svo fer Svava nú á fullt að klára Mastersritgerðinni sína. Læt fylgja með fallega mynd af sólsetri daginn eftir að við komum til baka og jólamynd sem var tekinn af okkur í Ballantynes rétt fyrir brottför til Íslands.

Áramótagleði





Áramótagleðin var haldin heima hjá Birnu og Kidda og var fjölmennt í veislunni. Þetta voru fyrstu áramótin sem Árni Kristinn sér flugelda, og þau fyrstu frá því Birna Líf var 2ja ára. Birna Líf var alveg hugfanginn af herlegheitunum, en Árna Kristni stóð ekki alveg á sama, sérstaklega ekki um stærstu og háværustu sprengjurnar. Okkur Svövu þótti þetta náttúrulega alveg frábært enda ekki verið í svona áramótastemmningu í mörg ár. Svanur átti líka stórleik með risabombunum frá Flubbunum, enda ekki von á öðru. Það er allavega enginn hætta á öðru en bumbubúinn hjá Ásdísi hafi tekið eftir hljóðbylgjunum frá sprengiríi pabbans. Ég mátti til með að láta eina mynd af Birnu og Ásdísi fylgja með, hún er bara e-ð svo kómísk þessi mynd.

Jólaboð





Það hefur ekki verið eins mikið að gera hjá okkur í jólaboðunum frá því við fluttum til Nýja Sjálands. Við fórum í heljarinnar skötuveislu á Þorláksmessu hjá Ásdísi og Svani í nýja húsinu þeirra og þetta er alveg örugglega besta leiðin til að komast í alvörujólastemmningu. Það jafnast ekkert á á við góða skötulykt. Upphaflega stóð nú til að sjóða skötuna í bílskúrnum en vegna tæknilegra örðugleika voru pottarnir færðir upp á span helluborðið til að klára gjörninginn. Á aðfangadag fórum við í messu í Langholtskirkju og svo aðfangadagsmatur al a Birna, en það er sennilega hvergi hægt að fá betri rjúpur eldaðar en þar. Svo vorum við að opna pakka fram eftir kvöldi, þ.e.a.s. aðallega krakkarnir. Á jóladag fórum við svo í risaveislu hjá Steina í Grindavík og fengum þar hangiketið, svínahamborgarahrygg og tilheyrandi góðgæti. Veisla 2 á jóladag var svo hjá Siggu þar sem frábær gæsasteik bættist á listann og svo annan í jólum fórum við í veislu til Svavars og Kristbjargar. Það er óhætt að segja að eftir það hafi verið kominn tími til að leggjast á meltuna.

Ýmislegt í boði á Íslandi




Það var frábært að geta notað tækifærið og dustað rykið af gönguskíðunum okkar Svövu. Það var nógu mikill snjór til að geta farið hringinn í kringum voginn og það var ótrúlega gaman. Við fórum snemma að morgni og á meðan við vorum að fara hringinn var sólin að koma upp með tilheyrandi fegurð. Æðislegt! Annað sem ég var dreginn út í var að fara í sjósund með Svani og félögum hans í Nauthólsvíkinni. Það hljómaði allt mjög vel svo sem í gegnum skype-ið, en þegar dagurinn rann upp þá var rammíslenskt suðvestan slagviðri.....en það var ekki hægt að bakka út úr þessu. Ég var búinn að boða Egga bróðir í sundið líka, Daníel og Fertram og eins og sannir víkingar þá mættu þeir náttúrulega allir. Að auki komu líka Mikki og Rosie, sem lét sig hafa það líka. Ég og Eggi fórum reyndar út að hlaupa í slagviðrinu, svona rétt til að hita upp fyrir sundið og Eggi var sannfærður um að ég væri geðveikur. Sjórinn var einnar gráðu heitur og þvílíkt sjokk að stinga sér til sunds...en þegar maður kom upp úr, beinkaldur, þá var suðvestan slagviðrið eins og hlýr og ljúfur hnjúkaþeyr. Sem betur fór var þó búið að renna í heita pottinn og sjósundklúbburinn hans Svans var í jólasundi og komu því færandi hendi með koníaksstaup í pottinn. Frábær upplifun og ég veit að Eggi bróðir er núna orðinn forfallinn sjósundkappi eftir þessa fyrstu eldskírn.

Íslandsferð





Það er ekki lítið sem Birna Líf og Árni Kristinn voru búin að bíða eftir því að fara í flugvélina til Íslands í jólafrí. Það var byrjað að telja niður strax eftir afmæli Birnu Lífar í júní, og var það gert samviskusamlega á hverjum morgni fram að brottför. Ferðalagið gekk býsna vel, enda dásamlegt að fljúga með Singapore Air. Við vorum búin að bóka okkur herbergi á flugvallarhótelinu í Singapore, og gátum því lagt okkur og farið í bað etc með krakkana sem er ótrúlega endurnærandi. Það var yndislegt að koma heim, þar sem það hafði snjóað hressilega og því góð snjóbreiða yfir öllu sem krakkarnir voru rosaspenntir yfir. Birna, Kiddi, Sibbi, Ásdís og Svanur koma að taka á móti okkur og voru að vonum miklir fagnaðarfundir. Árni Kristinn var búinn að vera að leggja á borðið fyrir Sibba á Nýja Sjálandi í rúmt hálft ár eftir að Sibbi fór og var glaður að sjá hann. Það var búið að útbúa rosaflott krakkaherbergi hjá Birnu og Kidda og krakkarnir vildu bara fara strax að leika sér, þótt klukkan væri 2 að nóttu. Næsta dag kom svo fólkið okkar úr Grindó að heimsækja okkur og var að vonum gaman að sjá einn nýjan frænda í fyrsta sinn, hann Ísak Andra. Ég læt fylgja með nokkrar myndir af krökkunum og smá bardúsi úr snjónum. Ég mátti líka til með að hafa eina mynd úr jólahöllinni hennar ömmu í Grindó fylgja með.

föstudagur, maí 15, 2009

Jólatónleikar




Þá er komið að fyrstu sameiginlegu jólatónleikunum hjá Birnu Líf og Árna Kristni í tónlistarskólanum. Birna Líf er núna búin að vera að læra tónlist og píanó í þrjú og hálft ár og gengur rosalega vel. Árni Kristinn er að verða búinn að vera í hálft ár bráðum í ,,beebopper" að læra að syngja og leika sér og er líka ofsalega ánægður. Það var ekki að sökum að spyrja að Birna Líf gat ekki beðið eftir að komast upp á svið til að spila á píanóið. Hún hreinlega iðaði í skinninu. Árni Kristinn er hins vegar ekki alveg jafn gefinn fyrir að syngja og dansa uppi á sviði en fór nú samt upp eftir svolitlar fortölur. Söng aðeins en var nú aðallega að fylgjast með vinkonu sinni sem grét bara allan tímann sem þeirra atriði var í gangi. Eftir tónleikana var svo sameiginlegur matur og fórum við þá út í garð að fá okkur ,,picnic" og er myndin af Birnu Líf og Árna Kristni með tónlistarkennaranum þeirra, henni Ms Nicky, tekin þar. Þegar allir voru orðnir saddir þá kom jólasveinninn og útdeilid gjöfum. Hann átti í smáerfiðleikum með að bera fram nöfnin þeirra Birnu Lífar og Árna Kristins, en þau eru nú orðin vön því.

Afmæli Svövu




Enn eitt sumarafmæli Svövu. Henni finnst þetta afskaplega góð tilbreyting að eiga afmæli að sumarlagi til tilbreytingar eftir að eiga alltaf afmæli um miðjan vetur í prófum. Við héldum upp á afmælið með smáveislu í góða veðrinu úti á palli eins og myndirnar sýna. Árni Kristin og Birna Líf voru mjög hjálpleg við að baka afmælisköku fyrir mömmu sína og ekki síður hjálpleg að sleikja súkkulaðið af áhöldunum.

Árni Kristinn tekur til hendinni



Hæ hæ

long time no blog.........nú verður aldeilis ráðinn bragarbót á því og á næstu vikum verður dælt inn pistlum þannig að annað eins hefur ekki sést á þessari bloggsíðu. Við vitum upp á okkur sökina, en til afsökunar þá virðist vera ansi tímafrekt að læra fyrir sérfræðingspróf, skrifa masterritgerð og sinna tveimur börnum...þá verður bloggið bara því miður útundan, en ekki lengur.

Ég ætlaði að byrja þetta með 2 myndum af Árna Kristni. Við vorum að sýsla einn daginn þegar Birna Líf var í heimsókn hjá vinkonu sinni og við vorum að taka til. Árni Kristinn vildi endilega ryksuga fyrir mig og svo æfði hann sig á píanóið á eftir eins og myndirnar sína. Hann stóð sig ljómandi vel og lenti ekki í því óhappi að ryksjúga nærbuxurnar sínar í ryksugana eins og
Birna Líf gerði á sínum tíma, með miklum harmkvælum.