laugardagur, janúar 14, 2006
skírn, köfun og fjallgöngur
Jæja þá eru mjög skemmtileg jól og áramót liðin. Það er búið að vera frábært að hafa mömmu, pabba og Sibba hér í heimsókn og við höfum haft margt að sýsla. Á jóladag var Árni Kristinn skírður í jóladagsmessu Lúthersku kirkjunnar hér í Christchurch. Skírnin var stór partur af messunni og þeir Jesús og Árni Kristinn nefndir til skiptis í ræðu prestsins. Annars var þetta mjög skemmtileg athöfn og afslöppuð í meira lagi. Presturinn var í hawai skyrtu og stuttbuxum og spilaði á gítar við athöfnina og söng jólalög. Í lok athafnarinnar var svo sungið hann í afmæli í dag fyrir Jesú og borðuð afmælisterta. Eftir athöfnina héldum við svo skírnarveislu með hefðbundnu íslensku hlaðborði. Skírnartertan bökuð af ,,mér".
Annan í jólum héldum við svo út úr bænum á afskekkta strönd og hittum þar flesta hina Íslendingana sem eru búsettir hér í Christchurch. Þar var kafað eftir Paua skeljum sem kallast Sæeyru á Íslandi og þykja hinn mesti veislumatur og Japanir borga morðfjár fyrir stykkið. Við náðum tíu skeljum úr greipum ægis. Eftir það var haldið til Akaroa sem er fallegur lítill bær með mjög frönskum blæ. Þar gistum við um nóttina og héldum svo til baka heim og grilluðum vöðvann úr Paua skeljunum um kvöldið. Vöðvinn var þvílíkt massífur og þurfti Svanur að eyða góðum tíma í að berja þær með kökukeflinu þannig að við ættum séns að vinna á þeim.
Annan janúar fórum við aftur í ferðalag, nú til staðar sem heitir Kaikoura sem er frægur fyrir hvalaskoðun (bannað að minnast á hvalveiðar), seli, risahumra og mikið fuglalíf. Þar vorum við í 2 nætur á bakpokagistiheimili með eldunaraðstoðu og tilheyrandi. Annan daginn sem við vorum þar var ákveðið að skella sér í fjallgöngu og að sjálfsögðu Árni Kristinn og Birna Líf með í för. Við fórum upp í 1100 metra með barnavagninn og Birna Líf gekk drjúgann part af ferðinni á milli þess að vera á háhest, enda margt að finna á leiðinni upp. Það virtist sem Skyrgámur greyið hafi misst heilmikið af nammi á leiðinni heim og Birna Líf var dugleg að finna það og gefa öllum í hópnum að gæða sér á því. Í upphafi göngunnar voru fleiri garpar að gera sig klára til að sigra fjallið.....með göngustafi, legghlífar og tilheyrandi. Það var ekki laust við að það væri hálfvandræðalegt fyrir þau þegar við tókum út barnavagninn og lögðum af stað á eftir þeim upp stíginn.
Jæja nú tekur við bið eftir næstu gestum, sem eru mamma Hilmars og systir hennar. Hilmar er farinn að vinna aftur og Birna Líf byrjuð á leikskólanum og lífið hefur sinn vanagang.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)