fimmtudagur, september 29, 2005
Vorframkvæmdir
Til að nýta feðraorlofið sem allra best hefur ýmsum framkvæmdum verið hrint í gang, þar á meðal gerð pizzaofns í garðinum. Hilmar og Svanur hafa unnið ötulum höndum að því að búa til ,,earth oven" úr þeim efnivið sem er hendi næst. Vinur Ásdísar frá Þýskalandi er mikill spekingur í gerð slíkra ofna og gaf þeim góð ráð um gerð ofnsins. Svanur fór og ,,fékk" grjót í einu úthverfa Christchurch og var hlaðinn grunnur með því og fylltur að innan með jarðveg. Þar ofan á var sett eitt lag af hellusteinum. Næsta skref í gerð ofnsins er að móta innanmál hans og er það gert með sand sem nálgast var í á einni í nágrenni borgarinnar. Eftir það var mokuð djúp hola í garðinum til að ná leir og hann blandaður með sandinum og hlaðið utan á sandkúluna í tveimur lögum. Þegar þetta verður búið að þorna í nokkra daga er sandinum svo mokað innan úr og þurrkun hraðað með því að kynda smá bál inni í ofninum. Ef allt gengur að óskað verður svo hægt að baka pizzur og brauð í ofninum innan skamms tíma. Þeir hafa haft óskaplega gaman af þessu enda er þetta rétt eins og að drullumalla í leikskólanum og hefur Birna Líf getað gefið þeim góð ráð öðru hvoru.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli