fimmtudagur, september 06, 2007

Íslandsferð





"Þetta geri ég aldrei aftur" ;Svava Júlí 2006 um að ferðast alein með 2 börn frá Nýja Sjálandi til Íslands.
"þetta geri ég aldrei aftur" ; Svava í Júlí 2007 um að ferðast alein með 2 börn frá Nýja Sjálandi til íslands.
Já hún lét sig hafa það að fara aftur ein með börnin alla leið til Íslands. Það mun samt hafa verið þægilegra í þetta sinn þar sem þau gátu öll teygt úr sér og farið í bað á transit hótelinu í Singapore....en samt..úfff. Þau komust nú samt öll heilu og höldnu til Íslands og ég kom svo 2 vikum á eftir þeim. Það er skemmst frá því að segja að við vorum alveg afspyrnu heppin með veður, sól og blíða upp á hvern einasta dag. Birna Líf og Árni Kristinn nutu þess alveg í botn og fannst ekki amalegt að eyða öllum þessum tímum í sundlauginni í garðinum hjá Afa og Ömmu í blíðviðrinu. Við reyndum líka að fara eins mikið í Grindavík og hægt var og fengu frændsystkinin öll góðan tíma til að kynnast upp á nýtt og leika sér saman. Krökkunum fór mikið fram í íslenskunni og augljóst að Birna Líf greip ýmislegt á lofti hjá ömmu nöfnu og ekki óalgengt að heyra hana segja "almáttugur minn" eða "jæja gæskan". Árni Kristinn virtist grípa töluvert mikið af nýjum orðum en það sem er merkilegt samt er að þegar hann kom til baka á leikskólann hér úti þá var hann farinn að segja mun fleiri orð á ensku líka.
Rúsínan í pylsuendanum á Íslandsferðinni var svo brúðkaupið hjá Óska og Ragga sem ég og Birna Líf fórum í. Það var yndislegt að geta verið viðstaddur þennan stóra dag hjá litlu systur minn og mági mínum honum Ragga, en Raggi hafði áður unnið sér inn giftingarréttinn með glímukeppni við okkur bræður á Arnarhóli á steggjadeginum hans.
Að lokum langar okkur að þakka öllum kærlega fyrir frábærar móttökur á meðan á heimsókn okkar stóð og við hlökkum til að hitta ykkur sem fyrst aftur.

Engin ummæli: