laugardagur, nóvember 27, 2010
Lítil Stelpa fædd
Klukkan 14:23 þann 27. nóvember 2010 fæddist lítil stelpa. Hún vóg 3765 grömm og var 51 cm að lengd. Fæðingin gekk áfallalaust og hún kom heim 3 tíma gömul. Þær eru báðar hetjur hún og Svava. Krakkarnir voru í pössun hjá Maríu en eru mjög spennt að fá að hitta hana.
Í morgun þegar við vöktum krakkana til að láta þau vita að við værum að fara á spítalann þá var mjög gaman að fylgjast með þeim. Birna Líf var með augun rétt hálfopin en þegar hún heyrði fréttirnar þá hélt ég að að augnlokin myndu rifna af og hún skaust fram úr rúminu alveg að farast úr spenningi. Ég tók svo Árna Kristinn fram úr rúminu og hann byrjaði að segja.....push, push, push lágt í byrjun og svo hærra og hærra og á endanum öskraði hann push og svo baby is here, alveg eins og í bók sem hann hefur lesið.
Eftir að stelpan fæddist svo hringdi ég í Maríu og fékk að tala við Birnu Líf sem var yfir sig spennt en var ekki hissa á því að þetta væri stelpa, enda hafi hana dreymt það fyrir. Árni Kristinn sagðist alveg vita að það væri fædd stelpa en hann hefði nóg að gera og hvort ég gæti ekki hætt að trufla hann.
En þetta var yndislegur dagur og litla stúlkan, Sólný Inga, stendur sig eins og hetja og við erum himinlifandi að vera kominn heim með litlu prinsessuna.
föstudagur, nóvember 26, 2010
Meðganga
Það er allt tilbúið hérna hjá okkur fyrir barnið en það fer greinilega ljómandi vel um það hjá mömmu sinni og neitar ennþá að koma út. Við fylgjum náttúrulega öllum góðum ráðleggingum til að reyna að koma hlutunum af stað, m.a. hoppa á trampólíni og fara í fjallgöngur daglega eins og má sjá á myndunum en það hefur ekki virkað hingað til. Í dag á Svava afmæli og við vöktum hana með afmælissöngnum og vorum með súkkulaðiköku, vöfflur og fleira finerí með því. Krakkarnir voru mjög spenntir og hjálpuðu við að baka kökuna. Það gekk heldur illa að stjórna þeim og ég rétt snéri mér við til að ná í þeytarann og þá voru þau búin að brjóta eggin ofan í hveitið og byrjuð að drullumalla því saman brosandi út að eyrum. Á endanum varð samt til hin gómsætasta súkkulaðiterta. Í morgun stóð Árni Kristinn sig líka mjög vel að þeyta sykurinn...saman við sykurinn og út um allt, en á endanum urðu nú líka til vöfflur. Við vorum að vonast eftir tvöföldum afmælisdegi....það eru enn eftir 15 tímar þannig að við sjáum hvað setur.
Nokkrar nóvember myndir
Það er búið að vera alveg indælt veður í nóvember hjá okkur og nóg um að vera í skólanum hjá krökkunum og svo er líka Halloween nýbúið hérna og við gengum að sjálfsögðu í hús að sníkja nammi. Við vorum frekar snemma á ferðinni þannig að krakkarnir voru ekki lengi að fylla pokana sína....þetta var svo mikið að það á eftir að duga sem laugardagsnammi út árið sennilega! Krakkarnir eru uppátækjasöm að vanda og það nýjasta hjá Birnu Líf er að mála Árna Kristinn, um daginn málaði hún hann eins og Avatar Ang, úr einum uppáhaldsteiknimyndaþættinum þeirra og svo í gær þegar þau voru úti á palli að mála þá skreytti hún hann aftur þegar pappírinn var uppurinn.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)