Nú er Árni Kristinn rúmlega 1 og hálfs árs gamall og farinn að taka sér ýmislegt fyrir hendur. Honum líkar mjög vel á leikskólanum og sendir öllum fóstrunum fingurkoss þegar hann kveður þær í lok dagsins. Það er almennt talað um að hann sé mikill matmaður og ekki laust við að gæti mikillar óþreyju hjá honum við matarborðið þegar verið er að setja á diskinn hjá honum og er hann þá eins og ekta Ítali baðandi út öllum öngum til að koma okkur í skilning um að það liggi á þessu. Svo tekur hann til við að skófla þessu upp í sig og þegar við ætlum að fara að stinga fyrsta bitanum upp í okkur þá kemur diskurinn fljúgandi í átt til okkar.....ég vil fá ábót takk. Svo þegar hann er aðeins að mettast þá tekur hann upp á því að fara að skála við okkur svona 20-30 sinnum það sem eftir lifir borðhalds. Hann lyftir þá glasinu upp og setur það ofan kollinn á sér og segir ,,kál" og Birna Líf er alltaf til í að skála við hann.
Hann er alltaf að tala meira og meira og er það ýmist á ensku eða íslensku sem orðin koma út úr honum. Honum finnst fátt skemmtilegra en að fara á leikvöllinn og við þurfum að fylgja honum fast eftir þar sem hann er ægilegur ofurhugi, enda vill hann alltaf fara á eftir systir sinni í öll tækin og virðist álíta að fyrst hún geti eitthvað, þá get ég það líka!
Eitt af því skemmtilegasta sem hann veit er að gefa hænunum, þegar ég spyr hvort hann vilji gefa ga-ga þá endasendist hann eftir stígvélunum sínum og við löbbum svo með matarafgangana okkar út í búr og hann er alltaf jafnægilega spenntur að sjá fiðurféið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli