fimmtudagur, desember 29, 2005

Hremmingar með snuð Árna Kristins



Við fórum í dýragarðinn í Christchurch í dag sem er alltaf feykigaman. Þetta er í raun ekki hefðbundinn dýragarður heldur svokallaður wild life park þar sem dýrin fá mun meira pláss en í gamla sædýrasafninu. Birna Líf hjálpaði til við að gefa gíröffunum og var voðalega spennt yfir ljónunum að sjálfsögðu.
Þegar við vorum að borða hádegismatinn okkar voru nokkrar aðgangsharðar endur að berjast um brauðmolana sem féllu af borðinu. Það vildi hins vegar ekki betur til en svo að Árni Kristinn spýtti út úr sér snuðinu og það var ein öndin fljót á sér að taka það í gogginn og svo var hún að japla á því með Hilmar hlaupandi á eftir henni. Með fyndnari atriðum sem ég hef séð í dýragarði!
Annars viljum við hér á Nýja Sjálandi óska ykkur öllum gleðilegra jóla og gæfuríks nýs árs og við hlökkum til að hitta ykkur öll þegar við komum í heimsókn upp á klakann í september á næsta ári ;)

Humar í forrétt


laugardagur, desember 24, 2005

Skata og jólatré

Jólaundirbúningurinn hér hinum megin á jarðarkringlunni hefur gengið með nokkuð hefðbundnu sniði að því undanskildu að helstu hráefnin eru alls ekki fáanleg. Við vorum hins vegar ekki á því að láta það stoppa okkur í því að halda upp á hefðbundin jól. Hilmar keypti því skötu fyrir rúmum mánuði sem hefur verið geymd í ísskápnum í vel einangruðu plastíláti. Fyrir viku síðan var hún svo söltuð og svo útvötnuð í þrjá daga. Í dag var svo haldin alvöru skötuveislu þar sem tíu Íslendingar gæddu sér á vel kæstri skötu.
Eftir skötuveisluna var eins og venjulega skotist í búðir til að ganga frá lausum endum og í kvöld var svo jólatréð skreytt og allir fengu jólaglögg eftir danskri uppskrift.
Við óskum öllum gleðilegra jóla og lofum að vera dugleg að ,,blogga" á nýju ári......he he.

mánudagur, desember 12, 2005

Hangikjöt og nýsteikt laufabrauð

Laufabrauð og hangikjöt

Þó svo að við séum að halda upp á jól í mjög svo ólíku umhverfi og hitastigi en venjulega reynum við að halda í þær jólahefðir sem við erum vön. Þannig að um helgin héldum við laufabrauðsútskurð og jólaglögg. Við fengum í lið með okkur amerískt par sem er vinafólk Ásdísar og Svans. Þau komu með eggnog sem er drykkur sem búin er til úr eggjum, rjóma, sykri og út í er sett viskí, rosalega gott. Við keyptum svo reykt lambakjöt sem við suðum og buðum upp á rauðbeður,baunir og kartöflur með uppstúf. Þetta var alveg frábært og það eina sem vantaði var jólaölið. Laufabrauðsútskurðurinn gekk rosalega vel og ameríkanarnir komu með mjög skemmtilegar útgáfur að útskurði.

sunnudagur, desember 04, 2005

Systkynin saman

Jólinn farin að nálgast


jæja nú er farið að líða að því að mamma og pabbi komi út til okkar, og við Ásdís erum farnar að skipuleggja. Búnar að búa til lista yfir það sem á að baka, versla og svo auðvitað skipuleggja tiltekt. Nú það sem bakað verður er:
vondukökurnar
piparkökur
hálfmánar
vanilluhringir (ef við nennum :)
En að er svolítið öðruvísi að skiptuleggja jólin í sól og 30 stiga hita, maður vill miklu frekar liggja í sólbaði, grilla og sötra bjór. Annars hef ég lítið að segja í bili.

mánudagur, nóvember 28, 2005

Á jólatónleikunum



Á kaffi húsinu

Mánuður frá síðasta bloggi og enginn lögleg afsökun :(

Jæja við erum búin að vera að bardúsa ýmislegt síðan ég bloggaði síðast. Við Hilmar skelltum okkur til Auckland á tónleika með Pavaroti og gistum hjá vinafólki okkar þar. Við tókum krakkana með og fengum þýska barnapíu sem stóð sig með prýði. Tónleikarnir voru alveg prýðilegir og ekki hægt að segja annað en að karlinn geti sungið sæmilega, en hann var ekki eins góður og ég hafði vonað. Sópran söngkonan sem var með honum, og víst eitthvað skild honum, var hins vegar alveg frábær og á örugglega eftir að vera áberandi í óperuheiminum.

Og nú svolítið um hrakfarir okkar Hilmars. Eins og þetta er nú allt afslappað og yndilslegt hérna úti höfum við Hilmar þurft að hafa samband við tryggingafélagið okkar tvisvar sinnum núna og eru þeir þegar farnir að sjá eftir því að hafa tryggt okkur. Nú í fyrsta lagi var hjólinu hans Hilmars stolið fyrir framan spítalann og þegar hann kom af kvöldvakt eitt sinn var hans hjól horfið en gamalt og slitið skilið eftir, hugulsamt af þjófinum að skilja samt eftir farakost :) og hvað haldiði mér er lifsins ómögulegt að muna eftir veskinu mínu og það hefur bara versnað síðan ég byrjaði með Árna Kristinn á brjósti. Ég s.s gleymdi veskinu mínu á kaffihúsi og það var auðvitað horfið þegar ég kom aftur. En það sem verst var, var að í veskinu var digital-myndavélin okkar með ca 100 myndum og ekkert bak-up til....ég er nú frekar svekkt yfir þessu. En ég fékk svipað veski í afmælisgjöf frá Hilmari og vonandi fáum við eitthvað úr tryggingunum.

Já maður er orðin 31 og aldrei verið unglegri... á afmælisdaginn minn fórum við um morgunin öll sömul á fallegt kaffihús og um kvöldið var haldið á jólatónleika í Hagley-garðinum (einskonar central park hérna). Þar mætum við með glæsilegt nesti, stóla og teppi og hlustuðum á jólalög í yndislega fallegu veðri. Í nesti var tælenskur matur, frönsk súkkulaðikaka, jarðaber með súkkulaði sósu, ostar og vinber, bjór, rauðvín og hvítvín og auðvitað var skálað í kampavíni og sungið fyrir mig. Þetta var alveg yndislegur dagur. Hér eru nokkrar myndir sem Ásdís tók (engar frá okkur því miður )

fimmtudagur, október 27, 2005


Arni Kristinn 1. manadar gamall Posted by Picasa

Veðrið hefur leikið við okkur undanfarna daga. Sól og hiti í kringum 20 gráður upp á hvern dag. Við höfum verið dugleg að fara á ströndina og hafa það gott síðustu dagana sem Hilmar er í feðraorlof. Árni Kristinn vex og dafnar og er nú orðin 4,4 kg samkæmt síðustu mælingum. Birna Lif er mjög dugleg að passa hann og ekki annað að sjá en Árni Kristinn sé mjög hrifin af stóru systur sinni.

þriðjudagur, október 11, 2005


Asdis og Svanur ad passa Posted by Picasa

All blacks fedgar Posted by Picasa

Litli engillinn Posted by Picasa

Lifið og tilveran


jæja nú eru rúmar 3 vikur liðnar síðan Árni Kristinn kom í heiminn. Hilmar á 3 vikur eftir í fæðingarorlofi og nýtur hverrar mínútu með drengnum sínum. Um síðustu helgi fórum við í klifurhúsið Roxx með Birnu Líf og Árna Kristinn. Það var rosalega gaman að glíma við vegginn. Birna Lif var mjög dugleg og klifraði svolítið sjálf, en Árni Kristinn svaf í gegnum þetta allt saman.

fimmtudagur, september 29, 2005


Systkynin saman � ruminu hennar Birnu Lif Posted by Picasa

Vorframkvæmdir


Til að nýta feðraorlofið sem allra best hefur ýmsum framkvæmdum verið hrint í gang, þar á meðal gerð pizzaofns í garðinum. Hilmar og Svanur hafa unnið ötulum höndum að því að búa til ,,earth oven" úr þeim efnivið sem er hendi næst. Vinur Ásdísar frá Þýskalandi er mikill spekingur í gerð slíkra ofna og gaf þeim góð ráð um gerð ofnsins. Svanur fór og ,,fékk" grjót í einu úthverfa Christchurch og var hlaðinn grunnur með því og fylltur að innan með jarðveg. Þar ofan á var sett eitt lag af hellusteinum. Næsta skref í gerð ofnsins er að móta innanmál hans og er það gert með sand sem nálgast var í á einni í nágrenni borgarinnar. Eftir það var mokuð djúp hola í garðinum til að ná leir og hann blandaður með sandinum og hlaðið utan á sandkúluna í tveimur lögum. Þegar þetta verður búið að þorna í nokkra daga er sandinum svo mokað innan úr og þurrkun hraðað með því að kynda smá bál inni í ofninum. Ef allt gengur að óskað verður svo hægt að baka pizzur og brauð í ofninum innan skamms tíma. Þeir hafa haft óskaplega gaman af þessu enda er þetta rétt eins og að drullumalla í leikskólanum og hefur Birna Líf getað gefið þeim góð ráð öðru hvoru.

fimmtudagur, september 22, 2005

Drengurinn er nefndur


Við höfum verið að velta fyrir okkur nafni á drenginn eins og eðlilegt er. Og höfum komist að niðurstöðu. Þar sem hann verður ekki skírður fyrr en um jólin (þegar amma hans og afi koma ásamt Sigurbirni frænda) höfum við ákveðið að opinbera nafn hans...Hann heitir sem sagt Árni Kristinn Hilmarsson. Þessi nöfn eru eins og glöggir lesendur eflaust sjá, nöfn afa hans. Árni er í höfuðið á pabba Hilmars og Kristinn í höfuðið á pabba mínum. Okkur finnst þetta passa alveg ljómandi vel við gutta, sem er auðvitað strax farin að ansa nafninu sínu.

Her er hann i galla fra ommu og afa a Logo Posted by Picasa

mánudagur, september 19, 2005

19. september - snjóstormurinn


hæ hæ
Allt gott að frétta af okkur á botni heimsins. Birna Líf er ljómandi glöð með viðbótina þó hún taki greinilega eftir því að athygli okkar beinist ekki eingöngu að henni. Hún er alltaf að syngja fyrir litla bróðir sinn og klappa honum svona frekar harkalega. En hann lætur það ekkert á sig fá.
Í dag hafði verið spáð miklum snjóstormi og varla talað um annað í fréttunum. Við biðum því með mikilli eftirvæntingu eftir óveðrinu. Í morgun vöknuðum við svo við falleg snjókomu sem féll lóðrétt niður. Snjórinn var frekar blautur og greinar trjánna sligaðar af þunganum, og slabb á götunum. Hilmar fór með Birnu Líf á leikskólann í morgun,uppdressaða í snjógalla þannig að hún gæti leikið úti. En á hádegi var svo hringt af leikskólanum og okkur tilkynnt að honum væri lokað vegna veðurs! Okkur þótti þetta mjög findið. Hilmari var sagt að svona slæmur snjóstormur kæmi ekki nema á 5-10 ára fresti. Eftir hádegi kom svo Ásdís heim þar sem frekari kennsla í háskólanum var felld niður þann daginn. Fyrir vikið gátu Hilmar og Birna Líf farið út í garð að leika sér. Þau bjuggu þessa líka flotta snjókarlana sem sjást á myndinni. Þetta erum við fjölskyldan.

Óveðrið mikla

sunnudagur, september 18, 2005


Birna Lif heldur stolt a litla brodir Posted by Picasa

Daginn fyrir faedingu allt reynt, og virkadi Posted by Picasa

laugardagur, september 17, 2005

17 september - viðbót við fjölskylduna


Í gær ákváðum við að drífa okkur út úr bænum í þeirri von um að það virkaði sem hvatning fyrir bumbubúann að koma í heiminn. Við fylltum því bílinn af dóti og skelltum okkur í sumarbústað til Akaroa sem er í 1.5 klst akstri frá Christchurch. Það var afskaplega fallegt veður og á leiksvæðinu þar var stórt og flott trampólín.....sem Svövu fannst tilvalið að fara að hoppa á.
Það er sennilega e-ð sem hægt er að mæla með þar sem hún vakti mig klukkan 4 um nóttina og þá kominn með hríðir. Við pökkuðum því niður og vöktum svo Ásdísi og Svan og bárum aumingja Birnu Líf út í bíl klukkan 6 að nóttu. Klukkan hálftíu var kominn mikill kraftur í hríðirnar og við hringdum í ljósmóðurina okkar og mæltum okkar mót við hana á spítalanum klukkan 10. Klukkan 11:02 eignuðumst við svo myndarlegan pilt, 52 cm og 3810 grömm. Allt gekk vel og við fórum svo heim um tvöleytið eftir hádegi.

föstudagur, september 09, 2005

39 vikur enn er allt rólegt


Hæ hæ
Enn lætur bumbubúinn bíða eftir sér þrátt fyrir að allt sé tilbúið fyrir komu hans. Birna Líf fór með pabba sínum að kaupa lítinn bangsa handa bumbubúanum sem Birna Líf ætlar að fara með á spítalann til að gefa honum. Mér finnst vera orðið tímabært að fara að drífa þetta af og hef verið að fara í langa göngutúra daglega undanfarið til að reyna að hvetja hann til dáða. Annars er allt gott að frétta af okkur, Birna Líf er afskaplega glöð og kát þessa dagana og orðinn ,,verulega” spennt að verða stóra systir. En sem fyrr þá vill hún alls ekki bróðir.....bara litla barn eða systur!
Það er farið að vora hérna og blóm springa út á öllum trjám og hitastigið á góðri uppleið. Hilmar og Birna Líf eru farin að taka til hendinni í garðinum og rökuðu saman öllum laufunum og svo plöntuðu þau kartöflum í matjurtagarðinum okkar. Birna Líf segir að hún hafi sett kartöflurnar niður svo þeim væri ekki stolið og að um jólin munum við grafa upp ,,kartöflufjársjóð”

laugardagur, ágúst 27, 2005

37 vikur, 2-4 eftir


Jæja þá er loks farið að síga á seinni hlutann á þessari meðgöngu. Hilmar gengur með farsímann á sér öllum stundum og er tilbúin að stökkva af stað þegar kallið kemur. Birna Líf er búin að fá góða útskýringu á því hvernig þetta gengur fyrir sig. Fyrst fer mamma á spítalann að sækja litla barnið og kemur svo heim...hún skilur bara ekki hvers vegna við erum alltaf að bíða með að fara á spítalann. En ég er nú farin að ganga alveg eins og mörgæs og tel bara niður dagana.

mánudagur, ágúst 22, 2005


Leitad ad selum Posted by Picasa

Veidimadurinn mikli Posted by Picasa

Að veiða seli eða ekki ?


Við skelltum okkur í ferðalag til Kaikura um daginn. Þetta er afskaplega fallegur bær í ca 2-3 tíma akstri frá Christchurch, með reglulegum stoppum J. Þessi bær er aðallega þekkur fyrir hvalaskoðunarferðir og selanýlendum sem er í göngufæri frá bænum. Þetta hafði verði lítið friðsælt sjávarþorp þar til að einhverjum datt í hug að bjóða upp á hvalaskoðunarferðir ein jólin. Síðan hefur þetta þorp breyst úr fiskveiðiþorpi í hvalaskoðunarmiðstöð. Við gátum því miður ekki farið í hvalaskoðunarferðir þar sem Birna Lif þurfti að vera a.m.k 5 ára gömul, þannig að við létum okkur nægja að heilsa upp á selina. Þetta er Ný Sjálenskir loðselir sem liggja þarna í hrönnum og nenna sig ekkert að hreifa þó svo að maður standi nánast ofan á þeim. Birna Lif var mikið hrifin og vildi endilega fara sem næst þeim. En svo braust út úr henni íslenska veiðieðlið og hún tók upp stein og sagði ,, komdu pabbi ég ætla að veiða þá, ég ætla að veiða þá með steinunum”. Hilmar nánast táraðist af stolti yfir þessum orðum dóttur sinnar og sagði myndi taka hana með sér á veiðar eftir fermingu. Ég þakkaði bara mínum sæla fyrir að enginn þarna í kring um okkur skildi íslensku þar sem þessir selir eru auðvitað friðaðir og miklu meiri glæpur að veiða þá en að drepa mann.

Getur ristill verið skemmtilegur?

Ný Sjálendingar hafa löngum verið þekktir fyrir að taka sig og sína lítt alvarlega. Og hér er eitt dæmi um slíkt. Á stærsta sjúkrahúsi Christchurch sem er einnig stærst á suðureynni var ákveðið að taka höndum saman við félag sem hefur verið að berjast meðal annars gegn ristilkrabbameini. Krökkum í skólunum í kring hefur verið boðið á kynningar og fræðslu um ristilkrabbamein. Nema hvað, til þess að gera þetta aðlagandi fyrir 10-12 ára krakka var búin til risastór Ristill sem tók upp nánast allt plássið í anddyri spítalans. Þar gátu krakkarnir fylgst með þar sem sérfræðingur í meltingarfærasjúkdómum, koma skríðandi út um ristilinn. Honum var auðvitað fagnað ákaft og svo fengu allir að prófa og upplifa innviði ristilsins með viðeigandi hljóð- og lykt. Krakkarnir skemmtu sér konunglega og hugsa örugglega á annan hátt til þess úrgangs sem fólk er annars lítt hrifið af. Aðspurðir sögðu flestir að þetta hafi verið ,,öðruvísi" upplifun.
Já það er hægt að segja að sérfræðingnum hafi tekist hið ómögulega, þ.e að gera ristillinn að skemmtilegu og spennandi. Ég á því miður engar myndir af þessu uppátæki.

þriðjudagur, júlí 26, 2005


Vaggan tilbuin og profud  Posted by Picasa

Uti i gardi ad spula vogguna Posted by Picasa

Undirbúningur bumbubúa


Jæja þá er ég byrjuð að undirbúa komu bumbubúans. Ég tók mig til og keypti vöggu á fornsölu og þreif hana svo út í garði í dag. Síðan fór ég og keypti fallegt áklæði á hana og viti menn hún er bara alveg stór fín. Ég er líka búin að vera að sanka að mér einni og einni flík í hvítu, gulu eða grænu, en fatnaður í öðrum litum verður að bíða betri tíma. Ég hef verið beðin um bumbumyndir og hef verið að forðast það í lengstu lög en læt nú undan.

mánudagur, júlí 18, 2005

Sumar og bumbubúi

Nú er veturinn hálfnaður hjá okkur og daginn farið að lengja aftur. Annars er varla hægt að tala um vetur þar sem ekkert hefur snjóað og hitinn farið nokkrum sinnum niður fyrir frostmark á nóttunni. Það er hinsvegar oftast kalt inni í húsunum, því hér tíðkast ekki að einangra hús og menn kinda einfaldlega bara eitt herbergi í húsinu. Þó get ég ekki annað sagt, en að ég sé farin að hlakka til sumarsins. Innfæddir kiwiar segja að það byrji að hlýna verulega í lok águst og í september sé komið ágætasta vorveður. Bumbubúin á að koma í heiminn þann 17 september sem er príðis tímasetning. Ég hef þá ca 3-4 mánuði til þess að reyna að komast aftur í bikið mitt.

Hér getur að líta sónarmyndir (20 vikna) af litla krílinu sem er aldeilis farið að láta finna fyrir sér með spörkum og kýlingum. Við erum öll orðin voða spennt að hitta þennan fjörkálf. Birna Líf stendur samt fast á sínu og heldur því fram að þetta sé ekki stelpa eða strákur, heldur bara litið barn. Nú og ef hún þarf endilega að velja um bróður eða systur þá vill hún bara litla systur. Við höfum svona verið að reyna að koma því að að við getum illa stjórnað þessu og að kannski komi lítill bróðir. En hún gefur sig ekki og vill bara systur. Ásdís fann meira að segja barnabók sem fjallar einmitt um þetta vandamál og gaf Birnu Lif, en hún lætur samt ekki segjast. Það er greinilega eitthvað af Mýrarættarþrjósku í henni ;)