Æfingar:
Jæja það er svo sem alltaf frá nógu að segja enda reynum við að hafa sem mest við að vera hérna úti, ég tala nú ekki um það þegar veðurguðirnir leika svona við okkur. Við Svava erum byrjuð að æfa fyrir næstu keppni af fullum krafti og annað okkar þarf að vakna eldsnemma að morgni til að hlaupa og svo fer þá hitt okkar þegar Hilmar er búinn að vinna og getur leikið við börnin. Í dag hljóp Svava fyrst 11.7 km heiman frá okkur til Governors Bay og ég fór þangað á bílnum með krakkana og hljóp svo til baka sem er afskaplega hentugt fyrirkomulag. Svava greyið meiddi sig reyndar svolítið í fyrsta hjólatúrnum á nýja og fína hjólinu sínu. Hún datt í einni brekkunni fram fyrir sig og stýrið skall undir bringspalirnar og var hún ansi aum þar á eftir en er nú farin að jafna sig á því blessunin.
Krakkarnir:
Birna Líf og Árni Kristinn una hag sínum afskaplega vel hér í blíðunni og hafa verið mikið úti að leika sér. Árni Kristinn er svona farinn að hafa aðeins meira vit og getur því tekið þátt í leikritum Birnu Lífar þrátt fyrir að láta oft heldur illa að stjórn. Birna Líf er ósköp dugleg að leika við hann og þegar þau eru saman aftur í bílnum þá heyrum við Svava ekki mikið hvort í öðru fyrir hlátrasköllum úr aftursætinu. Árni Kristinn er sennilega alveg sannfærður um að betri félagsskap en Birnu Líf sé ekki hægt að finna og hermir hann statt og stöðugt eftir öllu sem hún gerir.
Birna Líf er mjög ánægð á leikskólanum og vill helst fá að fara þangað svolítið meira, en hún fer bara tvo daga í viku núna. Hún er byrjuð að læra á píanó aftur og er mjög ánægð með það. Síðan erum við búin að fara með hana tvisvar á skauta sem henni finnst alveg frábært, enda hátt stillt rokktónlist með diskóljósum alveg að hennar stíl, og hún dansar af miklum krafti í takt við tónlistina á skautunum. Hún er nú ekki alveg til í að sleppa okkur ennþá en er þó komið með jafnvægið og getur staðið sjálf.
Árni Kristinn þvertekur ennþá fyrir það að byrja að labba. Honum finnst samt ekkert mál að hlaupa með okkur með því að halda í aðra höndina.....hann vill sennilega byrja beint að hlaupa. Annars er hann að verða svolítill skærulið eins og sést á meðfylgjandi mynd. Hann er farinn að príla upp á allt sem hann kemst nálægt og var nánast búinn að steypa sér alklæddur ofan í baðið hjá Birnu Líf í gær.
Fyrstu gestir sumarsins:
Það er því bara allt gott að frétta af okkur hérna úti um þessar mundir. Það fer líka að styttast í fyrstu gesti sumarsins, Daníel vinur minn kemur hingað í lok nóvember með fjölskylduna sína og svo kemur Þór Fannar vinur minn með sína fjölskyldu í desember og verða þau hjá okkur í mánuð þannig að við höfum nóg að hlakka til.
sunnudagur, október 15, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli