laugardagur, mars 31, 2007

Afmælispistill



Ég verð að segja fyrir minn part að þá er alltaf jafngaman að eiga afmæli og sú tilfinning að aldurinn sé að færast yfir er ákaflega lítið truflandi. 36 ára afmælisdagurinn minn byrjaði með því að Birna Líf kom klukkan kortér í 7 um morguninn, hristi mömmu sína og sagði: ,,á ekki pabbi afmæli í dag?". Jú jú sagði Svava við því. ,,Komdu þá fram úr að útbúa morgunmat mamma" sagði sú stutta þá. Hálftíma síðar var svo náð í mig og á borðinu var dýrindismorgunmatur með himneskri djöflatertu að auki. Eftir þennan ljúfa morgunmat tygjuðu þau Svava, Birna Líf og Árni Kristinn í háskólann og leikskólann en ég var eftir heima. Veðrið var eins og best var á kosið, 25 gráður og sól þannig að ég skellti mér út að hlaupa langa hlaup vikunnar sem voru 2:15 klst sem var drjúg æfing í þessum hita.

Um kvöldið eldaði Svava svo frábæra Ribeye nautasteik að það var eins og maður væri kominn á Argentínu steikhús nema útsýnið út um eldhúsgluggann okkar var miklu betra.

í morgun komu svo Þorbjörg og Heiðar í heimsókn og við kíktum á markaðinn, fengum okkur organic bananaís, lékum okkur svolítið á leikvellinum og skutluðum síðan Svövu og Þorbjörgu 18 km út úr Lyttelton og þær eru að hlaupa til baka þegar þessi pistill er skrifaður. Æfingarnar þyngjast smám saman eftir því sem að nær dregur maraþoninu og erum við núna að hlaupa um 6 klst á viku.

Bílakaupin og gosbrunnurinn

Okkur langaði rétt aðeins að deila með ykkur þeirri skemmtilegu lífsreynslu að kaupa bíl á alvöruuppboði. Við fórum morguninn fyrir uppboðið og skoðuðum alla þá bíla og prufukeyrðum sem okkur leist vel á. Uppboðið var fyrir svokallaða ,,budget cars" sem þýðir að þeir voru allir fyrir neðan 6000 dollara (300þús kr ca)
Við ákváðum að það væru þrír sem kæmu til greina: Masda Demio, lítil Toyota og svo Nissan March. Allt sparneytnir smábílar sem eru innfluttir notaðir frá Japan. Það var ágætt að keyra þá alla og við ákváðum að mæta um kvöldið og sjá hvað sæti. Verðbilið sem þeir voru á var gefið upp frá 3700-5700 dolllarar. Við settum okkur þak í 4200 dollurum og ákváðum að bjóða ekki hærra en það. Svo mættum við um 18:00 með krakka sem voru orðnir þreyttir og nenntu ekki mikið að standa í svona vitleysu, vildu bara fara að fá kvöldmat. Fyrsti bíllinn sem við ætluðum að bjóða í var númer 19 þannig að við höfðum líka smátíma til að stúdera hvernig þetta færi fram........það var líka eins gott að við höfðum smátíma. Uppboðshaldarinn reyndist vera fær um að segja 500 orð á mínútu og helst að það þyrfti að spila það aftur á hálfum hraða til að ná því sem var að gerast. Það var alltaf byrjað tiltölulega ofarlega í verði fyrir hvern bíl og svo lækkuðu þeir verðið (niður að óþekktu marki) þar til farið var að bjóða í. Það var nokkrum sinnum sem þeir voru búnir að ná lágmarki án þess að neinn gerði sér grein fyrir og þá var sá bíll einfaldlega ekki seldur þetta sinnið og enginn fékk tækifæri til að bjóða. Það var því frekar stressandi að ná að tímasetja fyrsta boðið sitt þar sem þeirra lágmark var án þess að missa samt af bílnum.
Svo kom að fyrsta bílnum sem við ætluðum að bjóða í. Þeir byrjuðu að setja verðið í 4700 dollurum og lækkuðu sig í smáskömmtum þar til þeir voru komnir í 3500 og taldi ég að lágmarkinu væri náð þar og var fyrstur til að bjóða. Það bauð svo einhver náungi á móti mér en ég fékk hann á endanum á 4000 dollara (190 þús kr) sem við teljum vera kostakjör. Masda Demio 1997, 5 dyra, sjálfskiptur og sparneytinn innanbæjarbíll sem var aðeins búið að keyra 61 þús km.
Jæja þetta var nú sú saga. Önnur saga er sú að Svava fór með krakkana niður í bæ einn góðviðrisdaginn til að kaupa ís. Birna Líf var að leika sér að labba uppi á kantinum á einum gosbrunninum. Það fór ekki betur en svo að hún rann til og datt á bólakaf í gosbrunninn með tilheyrandi látum......hún jafnaði sig samt fljótt og var aðallega spennt að segja mér frá hrakningum sínum seinna um daginn.

fimmtudagur, mars 29, 2007

frúin hlær í betri bíl, frá.......



Skólastelpan

sæl öll

Það er ekki ofsögum sagt að Birna Líf sé að springa úr spenningi þessa dagana. Hún fékk bréf frá Ilam skóla þar sem umsókn hennar um skólavist var samþykkt. Hún situr löngum stundum og les bréfið (eða þannig) og veltir fyrir sér hvað hún þarf að hafa með sér í skólann og hvort við þurfum ekki að fara að kaupa handa henni skólabúning. Hún á að koma í tvær heimsóknir í skólann í maí og byrjar svo formlega í skólanum 5. júní þegar hún á afmæli. Þetta er afskaplega ánægjulegt þar sem Ilam skóli og barnheimilið sem þau Birna Líf og Árni Kristinn eru á eru við hliðina á háskólanum.
Svava er að drukkna í vinnu þessa dagana og er að rifja upp óendanlega mikla stærðfræði og algebru fyrir kúrsana sem hún er í . Gaman að takast á við ný verkefni þar, en krakkarnir eru svona að átta sig á að mamma er ekki alltaf til staðar fyrir þau út af skólanum og þurfa á mikilli athygli að halda þessa dagana.
Hilmar er búinn að taka byssuleyfið hérna úti og í gærkvöldi kom maður í heimsókn til að ganga úr skugga að ég væri ekki of persónuleikaraskaður til að meðhöndla skotvopn. Svava var spurð í þaula út í hvern mann ég hefði að geyma, hvort ég hefði nokkuð fengið alvarleg höfuðhögg og svo framvegis. Mjög áhugavert kerfi.
Við erum búin að setja inn fullt af nýjum myndum, sbr. linkinn hér til hliðar, á myndasíðuna okkar.

sunnudagur, mars 18, 2007

My daddy



Krakkarnir eru búnir að vera veikir með ælupest í síðustu viku og voru því mestmegnis heima við. Þau eru búin að jafna sig vel aftur og una sér afskaplega vel í nýja húsinu okkar og njóta þess að leika sér fáklædd úti í garði og á pallinum í góða veðrinu sem hér hefur verið sl. vikur. Það hefur oft á tíðum eiginlega verið of heitt....upp í 35 gráður yfir daginn. Birna Líf er farin að ókyrrast á leikskólanum og segist vilja fara að byrja í skóla....hún vill vera skólastelpa og skilur ekki hvað hún þarf að bíða lengi eftir þessu. Við eigum að fá svar í næstu viku hvort hún komist inn í Ilam skóla sem er við hliðina á háskólanum og barnaheimilinu.

Árni Kristinn er ánægður á leikskólanum og er svona farinn að babla aðeins meira. Það er þó ýmist á ensku eða íslensku og er t.d. mjög vinsælt hjá honum núna að segja ,,my daddy" þegar hann sér mig og það er náttúrulega alger bræðingur fyrir stoltan pabba. Þeim systkininum semur oftast nær fjarska vel saman en það getur valdið vandræðum þegar þau vilja bæði leika sér að sama hlutnum og þá er tekist hressilega á. Birna Líf er samt ofsalega þolinmóð gagnvart litlu jarðýtunni og passar alltaf upp á að hann sé ekki skilinn útundan.

Veiði......skoðunarferðin



Partur af trikkinu við að fá Birnu og Kidda út í þetta sinn var að lofa Kidda veiðiferð. Kiddi tók því með sér öll gögn sem til þurfti að fá ferðamannaskotleyfi á Nýja Sjálandi. Við fórum því fljótlega í að redda því....fórum á löggustöðina og hittum þar fyrir náunga sem var afskaplega mikið um munað að láta Kidda fá skotvopnaleyfi. Þetta var sennilega í fyrsta sinn sem hann afgreiðis slíkt gögn frá Íslandi en það var varla að hann liti á þau, bara stimplað. Til að ganga úr skugga að ekki væri um stórhættulegan fjöldamorðingja að ræða þurfti Kiddi að svara 10 fjölvalsspurningum áður en leyfið væri afgreitt. Við vorum búnir að stautast í gegnum fyrstu 2 þegar hann hafði ekki þolinmæði í meira, reif af honum spurningablaðið og sagði að þetta væri alveg örugglega allt í lagi. Næsta skref var að útvega veiðileyfi og sjaldan höfum við hitt starfsfólk sem var jafnumhugað um að við kæmumst á veiðar og veiddum helst sem mest. Við ákváðum því að keyra suður að Lake Ohau þjóðgarðinum þar sem veiðivon var á Himalaya fjallageitur og Red Deer. Með okkur var Ingó sem á bæði haglara og riffil og er búinn að fara áður á veiði hér á Nýja Sjálandi. Við komum á gististað rétt fyrir miðnætti, fengum okkur örlítið viskí og beint í bólið þar sem við þurftum að vakna klukkan 5:30 um morguninn. Við keyrðum inn í dalmynni þar sem heitir North og South temple basin. Upp af dölunum gnæfðu tignarlegir tindar upp í 2500 metra hæð, með snjóbráð í toppunum. Fljótlega komum við auga á 3 red deer sem við hugðumst ná, en því miður fengu þau sennilega veður af okkur áður en við komumst í skotfæri og voru horfin inn í skóginn þegar við komum yfir lítinn háls. Við héldum því áfram upp en sáum ekki fleiri dýr en nutum þess að borða hádegismat í 1500 metra hæð með stórkostlegt útsýni til allra átta. Eftir að hafa gengið niður keyrðum við svo til Mt. Cook village og fengum okkur kaffibolla og kleinu (eða þannig) með frábært útsýni yfir Mt. Cook. Eftir það héldum við heim og komum aftur til Lyttelton seint um kvöldið á laugardegi.

Við vorum ekki alveg tilbúnir að gefast upp á veiðinni og fórum eldsnemma á mánudagsmorgni niður að Lake Ellesmere að sitja fyrir Kanadagæsum.....falleg sólarupprás, engar gæsir en náðum einni paradísarönd sem bragðaðist frábærlega A-La-Birna seinna í vikunni. Því miður snérist Kajakinn minn upp á toppnum á leiðinni til baka í sömu andrá og við fórum fram hjá umferðarskilti sem barðist utan í hann.......hann er því í viðgerð núna, blessað greyið.

Tímabær pistill



Lífið er að falla í nýtt jafnvægi....talsvert hefur breyst á síðastliðnum mánuði. Fyrir utan að flytja inn í nýja húsið okkar þá er Svava núna byrjuð á fullu í skólanum og er á milljón að reyna að rifja upp og læra nýja algebru. Birna og Kiddi voru hjá okkur í 2 vikur á voru krakkarnir á meðan í fríi á leikskólanum við mikla kátínu. Birnu Líf og Árna Kristni þótti fátt skemmtilegra en að ryðjast inn í herbergið þeirra snemma á morgnana og vekja þau með látum og hoppa upp í rúm til þeirra við gagnkvæma ánægju ömmu og afa. Lífinu var tekið með mikilli ró í þessari heimsókn þeirra....farið í göngutúra um umhverfið, húsið endurskipulagt, góður matur og góð vín. Sunnudaginn eftir að þau komu þá var hér mikil götuhátíð þar sem aðalgötunni var lokað og upp voru settir sölustallar, vínsmökkun, fjöllistamenn, hljómsveitir o.s.frv. Veðrið var upp á hið besta og nutum við öll dagsins út í ystu æsar. Allt of fljótt var svo komið að brottför þeirra en sem betur fer erum við öll að fara í heimsókn til Íslands eftir örfáa mánuði og börnin geta farið að hlakka til þess að láta ömmur, afa og annað skyldfólk spilla sér tímabundið!