Okkur langaði rétt aðeins að deila með ykkur þeirri skemmtilegu lífsreynslu að kaupa bíl á alvöruuppboði. Við fórum morguninn fyrir uppboðið og skoðuðum alla þá bíla og prufukeyrðum sem okkur leist vel á. Uppboðið var fyrir svokallaða ,,budget cars" sem þýðir að þeir voru allir fyrir neðan 6000 dollara (300þús kr ca)
Við ákváðum að það væru þrír sem kæmu til greina: Masda Demio, lítil Toyota og svo Nissan March. Allt sparneytnir smábílar sem eru innfluttir notaðir frá Japan. Það var ágætt að keyra þá alla og við ákváðum að mæta um kvöldið og sjá hvað sæti. Verðbilið sem þeir voru á var gefið upp frá 3700-5700 dolllarar. Við settum okkur þak í 4200 dollurum og ákváðum að bjóða ekki hærra en það. Svo mættum við um 18:00 með krakka sem voru orðnir þreyttir og nenntu ekki mikið að standa í svona vitleysu, vildu bara fara að fá kvöldmat. Fyrsti bíllinn sem við ætluðum að bjóða í var númer 19 þannig að við höfðum líka smátíma til að stúdera hvernig þetta færi fram........það var líka eins gott að við höfðum smátíma. Uppboðshaldarinn reyndist vera fær um að segja 500 orð á mínútu og helst að það þyrfti að spila það aftur á hálfum hraða til að ná því sem var að gerast. Það var alltaf byrjað tiltölulega ofarlega í verði fyrir hvern bíl og svo lækkuðu þeir verðið (niður að óþekktu marki) þar til farið var að bjóða í. Það var nokkrum sinnum sem þeir voru búnir að ná lágmarki án þess að neinn gerði sér grein fyrir og þá var sá bíll einfaldlega ekki seldur þetta sinnið og enginn fékk tækifæri til að bjóða. Það var því frekar stressandi að ná að tímasetja fyrsta boðið sitt þar sem þeirra lágmark var án þess að missa samt af bílnum.
Svo kom að fyrsta bílnum sem við ætluðum að bjóða í. Þeir byrjuðu að setja verðið í 4700 dollurum og lækkuðu sig í smáskömmtum þar til þeir voru komnir í 3500 og taldi ég að lágmarkinu væri náð þar og var fyrstur til að bjóða. Það bauð svo einhver náungi á móti mér en ég fékk hann á endanum á 4000 dollara (190 þús kr) sem við teljum vera kostakjör. Masda Demio 1997, 5 dyra, sjálfskiptur og sparneytinn innanbæjarbíll sem var aðeins búið að keyra 61 þús km.
Jæja þetta var nú sú saga. Önnur saga er sú að Svava fór með krakkana niður í bæ einn góðviðrisdaginn til að kaupa ís. Birna Líf var að leika sér að labba uppi á kantinum á einum gosbrunninum. Það fór ekki betur en svo að hún rann til og datt á bólakaf í gosbrunninn með tilheyrandi látum......hún jafnaði sig samt fljótt og var aðallega spennt að segja mér frá hrakningum sínum seinna um daginn.
laugardagur, mars 31, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli