sunnudagur, október 03, 2010

Þorrablót




Laugardaginn 25 sept héldum við veglegt Þorrablót. Allir Íslendingarnir í Christchurch lögðu sig fram í að útbúa sem mest af þorramat. Það sem var á boðstólum var m.a. Svið, rúgbrauð, síld, skata, hákarl, harðfiskur, blóðmör, lifrarpylsa, hangilæri, flatkökur með hangikjöti, uppstúfur, rófustappa, kæfa, kleinur, ástarpungar, graflax og svo að sjálfsögðu allt brennivínið sem var til á lager hjá hverjum og einum. Ein hjúkkan á Bráðamóttökunni, Nikki, bauðst til að hýsa herlegheitin og húsið hennar var alveg tilvalið fyrir veisluna. Stærsta herbergið var tæmt og við settum upp borð og bekki svo hægt væri að koma 50 boðsgestum fyrir um kvöldið.
Veislan byrjaði nokkuð fjörlega, en um áttaleytið um kvöldið, þegar fólk var byrjað að týnast inn komu 2 ansi snarpir jarðskjálftar (þeir voru í kringum 4 og greinilegt að maður finnur mun meira fyrir þeim á sléttunni en í Lyttelton) svona til að hrista fólk aðeins saman. Borðhaldið hófst um 9 leytið um kveldið og flestir Kiwiarnir létu sig nú hafa að smakka flest. Enginn komst undan því að fá hákarl og brennivín en sennilega sniðgengu margir sviðahausana.
Allir höfðu klætt sig upp í víkingabúninga og söngheftin sem Ásdís útbjó fyrir fyrsta þorrablótið sem var haldið 2006 voru dregin fram og hver söng með sínu nefi og Hera leiddi sönginn og spilaði undir á gítar. Þegar við vorum búin að syngja, drekka og borða vel þá var skorað á fólk af öðru þjóðerni að toppa íslenska sönginn. Stuttu eftir það heyrðist hávært spil af sekkjapípum og Roddy Campbell (einn af læknunum á BMT) gekk inn og spilaði skoskt þjóðlag af mikilli snilld. Hann leyfði svo öllum af prófa pípurnar líka og gekk mönnum misvel að koma út svo mikið sem einum tóni. Það var helst að Heiðar gæti spilað svolítið. Við yfirgáfum svo teitið um miðnætti en fréttum að eftir að við fórum hafi víkingapartýið breyst í potta- og sundpartý fram eftir nóttu og allir skemmtu sér gríðarvel.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta hljómar stóvel :)
Það verður þó aldrei svo að maður þurfi að fara til Nýja Sjálands til að komast á alvöru Þorrablót ??

Ásdís