Hænufréttir
Risahænan okkar hún Toto er þvílíkt að jafna sig. Hún er farin að skrölta um allt á spelkunni sinni og meira að segja farin að rölta sér aðeins út úr búrinu. Hún virðist hægt og rólega vera að ná sjálfstraustinu aftur og sennilega ekki langt að bíða þess að hún fari að gogga í hinar hænurnar aftur. Hins vegar má geta þess að hinar hænurnar tvær hafa heldur bætt á sig á meðan Toto hefur lagt af í hremmingunum. Spelkan á að fara af á morgun og þá verður fróðlegt að sjá útkomuna.
Hestbak:
Við fórum í sunnudagsbíltúr á laugardaginn og komum við á búgarði þar sem Birna Líf og Heiðar brugðu sér á hestbak sem var mjög skemmtilegt. Árni Kristinn var ekki alveg sáttur við skepnurnar til að byrja með en í lokin fékkst hann þó aðeins til að klappa einum hestinum. Hann var hins vegar ekki eins sáttur við einn hundinn sem tók upp á því að hnusa af tánni á honum, honum til mikillar hrellingar. Birna Líf lét hins vegar eins og hún ætti búgarðinn með öllu sem honum fylgdi. Hún vildi helst vera lengur á hestbaki og var ekkert hrædd þrátt fyrir að vera í þriggja mannhæða/Birnu Lífar-hæð.
Æfingar
Við erum að reyna að halda okkar striki í æfingunum. Ég, Svava og Shannon skipum eitt lið en Mikki og Ingó eru í hinu liðinu. Leggirnir skiptast í eftirfarandi:
Dagur 1: Svava hleypur 10.5 km fjallahlaup með 1000 metra hækkun. Hilmar rær 13.5 km í sjókajak og Shannon hjólar 18 km fjallahjólalegg með 1000 metra hækkun.
Dagur 2: Shannon hleypur 12.5 km, Svava hjólar 18 km á fjallahjóli með um 800 m hækkun og svo kajakar Hilmar í mark í Akaroa 12,25 km.
Svava fór í gær með Ingó að hjóla fjallahjólalegginn sem er á 2. degi og tók það heldur betur á en án nokkurra alvarlegra skakkafalla. Hún datt einu sinni og hruflaði sig aðeins á vinstri hlið líkamans (eins og hún leggur sig) en Birna Líf tannlæknaði hana í morgun með einum plástri sem betur fer. Ég fór svo á sjókajak í dag með leiðbeinanda sem þarf að skrifa upp á vottorð um að ég geti róið í roki og rigningu. Dagurinn í dag var því valinn þar sem ölduhæð var um einn metri og ef ég gæti komist spönn frá rassi við þessar aðstæður væri ég fær í flestan (allan) sjó. Ég puðaði því við að komast út eina 50 metra á hálftíma og tók svo brimið til baka á einni....en fékk uppáskrifað að ég væri ok fyrir keppnina.
Jæja verð að hætta, skrifa víst alltof langa pistla
mánudagur, október 30, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
-5 gráður hér, djöfull ekki vildi ég vera þarna úti hjá ykkur.. neineinei
Annars finnst mér þetta alls ekki of langir pistlar og alls ekki of margar myndir :)
Knús til BL og ÁK frá ÁK frænku
Skrifa ummæli