Sæl öll, ég er loks búinn að jafna mig eftir sjóvolkið þegar ég tapaði myndavélinni og því kominn tími á pistil. Krakkarnir eru komnir í jólafrí frá leikskólanum og ég er svo lukkulegur að fá vikufrí yfir jólin sem er meiri munaður en ég man nokkurn tímann eftir. Það er náttúrulega nóg að gera í jólaundirbúningnum hjá okkur og í gær vorum við að baka 3 síðustu smákökusortirnar fyrir jólin. Svava greyið var nú ekki heppnari en það að brjóta glasið sem hún var að nota til að skera út hringi í deigið fyrir hálfmánana og skarst glasið í vísifingur hægri handar hjá henni þannig að gera þurfti við taugina út í fingur. Henni líður bara ágætlega eftir aðgerðina en verður víst í spelku yfir jólin.
Af öðrum stórfréttum þá erum við búin að kaupa hús hér í Lyttelton, sjávarþorpinu sem við búum í. Þetta er 100 ára gamalt einbýlishús með fínum garði. Það er meira segja hæsnakofi sem hentar okkur alveg fullkomlega. Ég hef reyndar verið að heyra óskir um kanínur líka...en það verður bara að koma í ljós eftir að við flytjum inn. Ég veit ekki alveg hvar við eigum þá að koma fyrir geitinni og aligæsunum.
fimmtudagur, desember 21, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
smákökubakstur getur greinilega verið hættuleg iðja!
Útsýnið úr nýja húsinu er glæsilegt! :)
Skrifa ummæli