föstudagur, júní 27, 2008
Gamlar myndir
Ég var að fara í gegnum myndir á minniskubbnum og fann þessar tvær af Birnu Líf og Árna Kristni og gat ekki anna en sett þær hér inn á bloggið......er í hrikalegum ham í dag, margra mánaða skammtur af bloggi. Ég get farið í frí fram að jólum núna ;=)
Skrifstofan
Lyttelton street party
3ju vikuna í júní á hverju ári er haldið ,,Lyttelton Festival of Lights"
Þá skreytir fólk heimili sín með jólaljósunum, stóra grenitréið fyrir utan kirkjuna er skreytt með jólaljósum og á hverju kveldi eru viðburðir á veitinga- og skemmtistöðum Lyttelton. Lokakvöldið er grímuskrúðganga og svö götupartý með stöllum (m.a. jólaglögg til sölu), götulistafólki og hljómsveitarpalli sem lýkur svo með heljarinnar flugeldasýningu (kannski ekki á íslenskum mælikvarða).
Við buðum því í Pizzaveislu heim til okkar til að halda kveðjuveislu fyrir Sibba í leiðinni, enda styttist óðfluga í að hann fari að skella sér aftur á skerið. Það var því fjölmennt hjá okkur og eftir að hafa bakað 20-30 pizzur í ofninum skelltum við okkur öll niður í bæ. Birna Líf og Árni Kristinn skemmtu sér alveg stórkostlega við að dansa og hlusta á tónlistina í bænum. Þau voru svo alveg agndofa yfir flugeldasýningunni sem fylgdi á eftir, sannkölluð partýljón bæði tvö.
Vetur genginn í garð
Veturinn minnti óneitanlega á sig núna í byrjun júní með óvanalegi snemmkominni snjókomu á láglendi. Krakkarnir voru ekki lítið spenntir, en Árni Kristinn er ennþá mjög hissa á því hvað honum verður kalt á höndunum eftir að meðhöndla snjó! Það er e.t.v vona á góðum skíðavetri hér í vetur. Við ætlum að fara í vikuferð til Wanaka og Queenstown í byrjun júlí og komumst þá vonandi öll svolítið á skíði. Lopapeysurnar sem við fengum öll í jólagjöf eru því að koma að veeeerulega góðum notum um þessar mundir og eins og venjulega fer ótrúlegur tími og fyrirhöfn í að halda húsinu heitu með kamínu, hitapumpu, einangrandi gluggatjöldum og ofnum.....ef það kólnar mikið meira þurfum við að kippa búfénaðinum inn líka (kanínum og hænum) til að halda á okkur hita.
Birna Líf 6 ára
Birna Líf varð 6 ára þann 5ta júní síðastliðinn. Hún fékk fullt af pökkum (Árni Kristinn fékk líka) á afmælisdaginn sinn sem var á fimmtudegi og svo héldum við afmælisveislu á stað sem heitir Lollypop Playland eins og Birna Líf var búin að biðja um sl. hálft ár eða svo. Þessi staður er með þó nokkur herbergi fyrir veislur og svo miðsvæðis er risastórt leiksvæði þar sem krakkarnir klifra og leika sér í fjölbreyttum leiktækjum. Það er skemmst frá því að segja að veislan var þvílíkt skemmtileg og þegar kom að lokum veislunnar vildi enginn fara....bara leika áfram. Þetta árið pantaði Birna Líf sundlaugarköku sem Svava bakaði og við skreyttum svo saman. Það besta að okkur Svövu mati var þó að eftir veisluna þá bara fer maður og einhver annar sér um að taka til eftri allt fjörið, alveg hreint ágætt. Birna Líf fékk heilmikið af fínum gjöfum og var yfir sig ánægð með daginn.
Týnt gæludýr
miðvikudagur, júní 04, 2008
Hálfmaraþonið
Að venju tókum við þátt í maraþonhlaupinu hér í Christchurch fyrstu helgina í júní. Það eru núna 2 ár síðan ég, Svava og Ásdís tókum þátt í hálfmaraþoninu og við Svava fengum í okkur ,,multisport" bakteríuna leiddi svo til Coast to Coast þáttökunar í ár.
Það er sennilega ómögulegt að búa með okkur án þess að hreinlega neyðast til að taka þátt í herlegheitunum en við töldum okkur þó vera mjög höfðingleg að leyfa Sibba að velja hvort hann hlypi hálf eða heilmaraþon!!
Það sem Sigurbjörn var langánægðastu með var heil vika af ,,carbo loading" þar sem hann var óspart hvattur til að fá sér meira að borða á hverju kvöldi....ekki það að hann hafi þurft mikla hvatningu. Á sunnudaginn hlupum við svo hálfmaraþonið, en Svava var fjarri góðu gamni í ár þar sem hún fór með krakkana í afmælisveislu til vinkonu Birnu Lífar. Í staðinn ætlar Svava að hlaupa hálfmaraþon í Dunedin í september.
Það gekk nokkuð vel í hlaupinu og hljóp ég á 2:03 og Sibbi stóð sig frábærlega og hljóp sitt fyrsta hálfmaraþon á 2:11.
þriðjudagur, júní 03, 2008
Dýragarðsferð
Ég fór með Birnu Líf og Árna Kristinn í dýragarðinn fyrir skemmstu og það er alltaf jafngaman fyrir okkur öll. Árna Kristni finnst alltaf mest gaman að fara í lestarferð þarna og skoða ljónin. Birna Líf er hins vegar spenntust fyrir því að fara að klifra á leikvellinum og gefa gíröffunum, kindunum og kálfunum að borða, en Árni Kristinn er svolítið smeykur við að nálgast kálfana of mikið.
Allir velkomnir í Pizzapartý
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)