miðvikudagur, janúar 31, 2007

Beðið eftir húsinu okkar

Það er ýmislegt á döfinni hjá okkur þessa daganna.
Árni Kristinn er að læra ýmislegt gagnlegt á leikskólunum þessa daganna. Það sem ber helst að nefna er að 1) Ganga aftur á baka og 2) kasta sér í gólfið í frekju köstum, voða sætt. Það er greinilegt að menntunni er að skila sér til hans.

Þessa dagana erum við á kafi í húsatímaritum, skoða í húsgagnaverlanir og velja málingu fyrir nýja húsið okkar. Við erum öll orðin rosalega spennt.

Frá þjálfunarmálum er fyrst að segja að um þessar mundir er í hverri viku 5 km hlaupa keppni í Hagley-Park sem öllum er frjálst að taka þátt í og er mjög skemmtilegt. Við tókum þátt í síðustu viku með krakkanna í kerrum . Birnu Líf finnst þetta rosalega gaman og hitar upp með okkur. Hún vill endilega hlaupa með okkur og keppa eins og foreldrar sínir. Hún fékkst hins vegar loksins á að sitja í kerrunni og ég ýtti henni á undan mér. Að launum fékk hún svo grillaða pylsu, en það er boðið upp á pylsu fyrir alla þátttakendur.
Annars erum við að skoða Maraþon hlaupaprógröm. Erum að hlaupa eða hjóla ca 4- 5 sinnum í viku en þurfum að fara að finna okkur prógram sem við getum fylgt eftir.

Gestirnir okkar Þór Fannar, Suzanne og Willum Stefán eru núna farin til Sydney á leið sinni heim til Abu Dabí. Það var mjög gaman að hafa þau og hlökkum til að hitta þau einhvern daginn í Hollandi.

Myndavélin okkar er enn biluð. Setjum inn eitthvað að myndunum frá Suzanne og Þór Fannari.

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Myndavélaböðlarnir



Það er ekki einleikið með okkur og stafrænar myndavélar. Að vísu hefur Hilmar ekki fengið að taka vélina aftur með á kajak en Birnu Líf og Willum Stefán tókst sennilega að koma fyrir sandkorni á linsuna þegar ég var að taka mynd af þeim á ströndinni. Vélin er í viðgerð og beðið eftir varahlut frá Japan....úps. Við verðum bara að vona að máltækið ,,allt er þegar þrennt er" gangi eftir.....annars er þetta svo sem ekki alslæmt þar sem við fáum reglulegt upgrade á stafrænu myndavélunum okkar með þessu móti.

Birna Líf og Árni Kristinn eru byrjuð aftur á leikskólanum sem þýðir að viku seinna eru allir náttúrulega kvefaðir og með hálsbólgu. Veðrið er farið að batna loksins og í gær var 30 stiga hiti og mollulegt. Vegna óhappsins hennar Svövu í jólakökubakstrinum þá sleppum við ,,multisport" keppninni sem við ætluðum að taka þátt í um miðjan febrúar og förum bara að æfa okkur fyrir fullt maraþon í byrjun júní. Fórum í gær og létum mæla fæturnar í bak og fyrir með göngumælingum o.s.frv. og keyptum svo þægilegustu skó sem við bæði höfum nokkurn tímann verið í.

Nú eru leigjendurnir í húsinu okkar fluttir út og ættum við því að fá lyklana vonandi í lok þessarar viku eða byrjun næstu og getum því farið að dunda okkur við að flytja, mála og þess háttar þannig að allt verði klárt þegar að Kiddi og Birna koma til okkar um miðjan febrúar.

sunnudagur, janúar 14, 2007

Sumarfrí



Nei við erum ekki hætt að blogga.....en eins og aðrir bloggverjar förum við líka í sumarfrí. Við fengum gesti (Þór Fannar, Suzanne og Willum Stefán) á milli jóla og nýárs sem verða hjá okkur út janúar. Strax eftir áramót átti Hilmar 2 vikna sumarfrí og ákváðum við því að skella okkur í ferðalag um suðureyna. Ákveðið var að fylgja veðrinu sem var frekar erfitt þar sem hér hefur verið rigningarsamt í meira lagi undanfarið en skv. spánni átti að vera einna skárst á vestur-ströndinni og tókum við því stefnuna þangað. Við keyrðum að fallegu vatni sem heitir Lake Brunner og gistum þar í 2 nætur, dunduðum okkur við veiði (krakkarnir með spýtu niðri við vatn) og skiptumst á að fara út á kajaknum. Þaðan héldum við áfram niður á vesturströndina, stoppuðum við pönnukökuklettana (mikil vonbrigði fyrir krakkana þegar þeir áttuðu sig á að þeir væru í raun óætir!).

Næsti viðkomustaður var Murchison sem er inni í landi mitt á milli Nelson og vesturstrandarinnar. Aksturleiðin þangað var eftir Buller ánni sem á köflum var mjög tilkomumikil að sjá með gljúfrum og þvílíku. Við fórum í þotubáts ferð upp og niður ána og gengum yfir lengstu hengibrú á Nýja Sjálandi. Minnistæðast var þó að í ljós kom að við erum að ferðast með harðsvíruðum glæpamönnum. Þór og Suzanne fóru í hjólatúr þar en glögg lögreglukona á vakt tók eftir því að þau voru: Hjálmlaus. Þeim var hótað sektum en sluppu með skrekkin í þetta sinn og fengu ,,gönguleyfi", þ.e. þau máttu teyma fararskjótana heim.

Áfram var haldið í átt til Nelson og Abel Tasman þjóðgarðarins sem er annálaður fyrir smaragðsgrænan sjó og hreinar hvítar strendur. Fyrri nóttina gistum við hjá Dieter í treedimensions. Hann er þjóðverji sem rekur lífrænan búgarð með 700 mismunandi ávöxtum, býflugum, bambusskóg, lamadýrum etc. etc. Við nutum lífsins þar, röltum um svæðið og smökkuðum á exótískum ávöxtum. Aumingja Birna Líf lenti í því að vera að lykta af fallegu blómi sem því miður þyrst býfluga hafði tekið sér bólfestu í. Býflugan hélt að verið væri að ráðast á sig og svaraði fyrir sig með því að stinga Birnu Líf í kinnina. Hún bólgnaði svolítið upp en það var hjaðnað næsta dag. http://www.treedimensions.co.nz/

Seinni nóttina gistum við nær ströndinni og nutum dagsins á yndislegri strönd með nesti og kajak. Þaðan héldum við til Picton sem er Seyðisfjörður suðureynnar, en allar ferjusamgöngur yfir á norðureynna fara þar í gegn. Við gistum þar í 2 nætur, héldum upp á 4. ára afmæli Willums Stefáns, fórum í sædýrasafnið á staðnum þar sem m.a. var stór kolkrabbi, hákarlar, risahumrar og margt margt fleira. Eftir það var kominn tími til að halda heim enda þurfum við að fara að pakka bráðum til að flytja í nýja húsið.

Við erum búin að setja inn fullt af myndum úr ferðinni á www.svavahilmar.phanfare.com