mánudagur, september 14, 2009

Emergency Emergency

Bara svona rétt tvær gamansögur í pistlahafinu í dag.

Í febrúar sl þá var sumarhátíð í Lyttelton og krakkarnir heimsóttu meðal annars St. John tjaldið og fengu tilsögn í hjartahnoði. Það var svo ekkert frekar rætt um þetta en það var augljóst um 2 mánuðum síðar að Birnu Líf hefur fundist þetta eftirminnilegt.

Svava var inni á baði að sinna Árna Kristni sem var í baði. Hún heyrir þá allt í einu mjög hátt í Birnu Líf....Emergency, Emergency. Svava kallar til baka hvað er að en fær bara til baka...Emergency, emergency, þannig að hún hleypur inn í stofu til Birnu Lífar. Þar er Birna Líf með hitapokann (sem er í loðskinni) og er búinn að setja hann í sófann. Hún segir við Svövu að hún sé með sjúkling í hjartastoppi og það þurfi að hnoða og fer svo að hamast á hitapokanum á stofusófanum. Ég var á kvöldvakt á spítalanum og kom seint heim. Næsta morgun þegar ég vakna þá er Birna Líf búin að fá Árna Kristinn til liðs við sig og ég vakna við það að þau eru bæði kominn upp í rúm og eru að bisast við að hjartahnoða mig...enn eitt emergency þann daginn.

Við höfum jafnan hent gaman að því hvað Árni Kristinn er sólginn í kjöt. Ég hafði eldað nautakjöt eitt kvöldið og kallaði á krakkana að maturinn væri tilbúinn. Ég var rétt búinn að brytja kjötið á diskana og ætlaði að fara að setja meðlæti á diskana þeirra líka en þá var Árni Kristinn búinn að skófla í sig öllu kjötinu. Ég spurði hann hvort hann vildi ekki bíða eftir meðlætinu áður en hann borðaði kjötið....þá leit hann á mig og sagði ,,reyndu bara aftur pabbi"

Nokkrar myndir frá ferð til Gore Bay
Við fórum í ferðalag til Gore Bay með Carolyn og Einari á meðan Svava var á haus að klára verkefnið sitt og fylgja nokkrar myndir með úr þeirra ferð. Eitt að því sem kom upp á þegar Árni Kristinn var að hlaupa í fjörumálinu var að það kom inn hressileg alda og þegar útsogið kom þá missti hann fótanna og rúllaði í fjóra fimm hringi í sandinum og var ansi brugðið. Ég var nú við hliðina á honum þegar þetta kom fyrir og tók hann strax upp og hann jafnaði sig strax of hljóp aftur af stað með hárið smekkfullt af sandi.

Byrjun Júlí
Það var ákveðið að Svava og krakkarnir notuðu tækifærið á meðan ég er í Dunedin og Svava er að bíða eftir niðurstöðu úr Meistararitgerðinni sinni og færu í sumarfrí til Íslands. Fyrir brottför var náttúrulega nóg að gera við að pakka og gera allt klárt á sama tíma og Birna Líf var að byrja í skólanum í Lyttelton og Árni Kristinn er að hætta á leikskólanum hjá háskólanum og þarf að finna nýjan eftir að hann kemur til baka frá Íslandi í lok ágúst.
Birna Líf tók þátt í Matariki hátíð í skólanum sem er nýjársfagnaður Maori og var hún í svokölluðum Kapa Haka hóp sem söng og dansaði á skemmtuninni. Meðfylgjandi er mynd af henni í hefðbundnum Kapa Haka fötum sem hún tók sig vel út í. Árni Kristinn var að klára Beebopper tónlistarnámskeiðið sitt og er nú útskrifaður og fer að læra á píanó á næstu önn sem hann er mjög spenntur fyrir. Rétt fyrir brottför til Íslands var svo 4ra ára afmæli hjá Hugo, besta vin Árna Kristins og voru allir klæddir eins og sjórængjar. Svo var öllu pakkað niður fyrir Íslandsferðina og við fengum Magnús, Þórhildi og Krakkana í heimsókn og höfðum kjötsúpu um kvöldið og fórum með þau í göngutúr um Lyttelton og var rosagaman að fá þau í heimsókn, en þau voru á leið í smávetrarfrí til Ástralíu.

Júní 3 - Stefán Magnús í pössunVið vorum svo heppin að fá að passa Stefán Magnús í smátíma á meðan María og Bergur þurftu að fara til Wellington. Eftir smá mótmælagrát í bílnum...sennilega bara að mótmæla því að ég keyrði spegilinn af bílnum þegar ég bakkaði út heima hjá þeim þá féll allt í ljúfa löð og hann lék sér við Árna Kristinn og Birnu Líf og stóð sig alveg eins og hetja í fyrstu næturpössuninni, held hann hafi verið mjög spenntur að sofa inni hjá hinum krökkunum.

Júní 2 - Afmæli Birnu Lífar
Birna Líf varð sjö ára í ár....hún vildi endilega hafa veisluna í Cheeky Monkeys og fékk að bjóða öllum helstu vinkonum sínum. Þetta var mikið húllumhæ með hoppukastala, sjóræningjaskipi, fjársjóð, Carolyn kom sem trúður og svo endaði allt saman á diskóteki og limbókeppni. Líf og fjör og má segja að metnaðurinn við afmælistertuna hafi sennilega slegið út erfiðleikaskala fyrir ára. Turnarnir héldu sér þó allir á leiðina í veisluna þrátt fyrir að vera vel skakkari en sá frægi í Pisa

Júní - Hilmar fer að vinna í DunedinSíðustu 6 mánuðina af þjálfun minni í bráðalækningum þurfa því miður að fara fram í Dunedin sem er rúmum 400 km suður af Christchurch. Ég er nú svo heppinn að Mikki er líka að fara suður eftir og við getum skipt vöktum eins og okkur sýnist og ég ætti því að geta farið a.m.k. 2-3 í mánuði til Lyttelton þar sem við ætlum ekki að rífa krakkan úr skóla/leikskóla fyrir þennan stutta tíma. Við pökkuðum því hafurtaskinu mína (kajak, fjallahjól etc) og keyrðum öll niður eftir til að kíkja saman á híbýli mín hér niðurfrá. Þetta var ljómandi skemmtileg helgi, við heimsóttum meðal annars Aquarium í Portobello og nutum samvista með Magnúsi, Þórhildi og börnum. Birna Líf og Gerður María náðu alveg svakalega vel saman og Birna Líf spyr mjög reglulega hvenær hún hitti íslensku vinkonu sína aftur.

miðvikudagur, júlí 29, 2009

Loksins loksins aftur

Það er búið að vera mikið að gera hjá okkur síðustu mánuði og Svava er búin að vera alveg á kafi í að ljúka Masters-ritgerðinni sinni. Það er alveg ótrúlegt þrekvirki að koma þessum 150 blaðsíðum saman á lokasprettinum þegar leiðbeinendur vakna allt í einu af þyrnirósasvefni og hafa skyndilega skoðun á öllu með tilheyrandi kommentum og óskum um lokaútreikninga. Allt hafðist þetta þó á endanum og Svava þeyttist um háskólasvæðið fimmtudaginn 28 maí til að koma ritgerðinni til skila. Það gekk að sjálfsögðu ekki áfallalaust og þegar lokayfirferð var lokið þá prentaði háskólafjölritun ritgerðina út....en þá kom í ljós að þeir eru enn með gamla útgáfu af word þannig að ritgerðin hafði tekið óvæntum breytingum! Þá reyndum við að fá að tengja tölvuna hennar Svövu beint inn á netið en það gekk ekki þar sem þeir voru ekki búnir að setja upp Vista kerfið....þannig að á endanum þeyttumst við heim til Maríu og Bergs og prentuðum út þær litmyndir sem ekki höfðu prentast í skólanum og röðuðum þessu saman og fórum með það í bindingu. Þá komst Svava að því að hún þurfti að fá undirskrift frá aðalleiðbeinanda sínum til að samþykkja skilin og hún hljóp til hans á meðan það var verið að binda inn ritgerðina og náði honum á leið út úr skrifstofunni. Svo hljóp hún til baka að ná í ritgerðina úr bindingu og þurfti svo að fara með hana á skrifstofuna og skila inn þar rétt fyrir lokun. Eftir það fór hún út úr byggingunni, stóð á stéttinni og vissi ekkert hvað hún átti að gera!!!
Þannig að það má segja að maí 2009 hafi verið viðburðarríkur hjá okkur og var áföngunum fagnað með miklu og góðu partýi.

Loksins loksinsFyrstu helgina í maí þá sat ég loksins lokaprófið mitt í bráðalækningum. Þetta var löng og ströng helgi þar sem prófið er þríþætt og byrjar á laugardagsmorgni með löngu tilfelli. Eftir hádegi eru svo 6 styttri tilfelli og á sunnudagsmorgninum er lokahnykkurinn með 6 uppsettum dæmum eins og snákabitum o.s.frv. Þetta gekk sem betur fer allt upp og því mikill léttir að vera búinn að klára þetta. Nú þarf ég bara að ljúka 6 mánuðum á minni bráðamóttöku í Dunedin og ætti að fá sérfræðiviðurkenningu í Bráðalækningum hér ytra í desember n.k. Læt fylgja með mynd af mér og Mark Gilbert, félaga mínum, sem sat prófið með mér og svo mynd af mér í blómahafinu sem beið mín eftir komuna til Christchurch. Þetta var alveg frábær upplifun þegar ég fékk að vita eftir að ég lauk prófinu. Mér fannst þetta allt hafa gengið býsna vel og skellti mér niður í bæ í allskrýtnu skapi. Brosandi hringinn og mundandi Visa kortið hægri-vinstri. Það var meðal annars hljómsveit með tónleika í bænum og þeir voru svo frábærir að ég varð náttúrulega að kaupa diskinn þeirra líka. Um þrjúleytið þurfi ég svo að fara að ná í niðurstöðuna og þá kom stressið aftur af fullum krafti.....en allt gekk þetta nú vel. Ég flaug svo til baka til Christchurch með fyrsta fluginu daginn eftir og var fagnað vel af Svövu og krökkunum....enda krakkarnir alveg með það á hreinu að ég hafi ,,unnið"....þetta eru allt e-ar íþróttakeppnir

þriðjudagur, júlí 14, 2009

Páskaeggjaleit

Þetta árið fórum við í páskaeggjaleit í Quail Island sem er rétt fyrir utan Lyttelton. Við fórum snemma að morgni til að ná ferjunni og Einar og Carolyn fóru með okkur. Eyjan er álíka stór og Viðey og var áður fyrr holdsveikrahæli á eyjunni og núna er minjasafn þar um þann tíma. Það var búið að fela eða koma fyrir fullt af máluðum steinum sem átti að finna og skila inn í lokin fyrir páskaegg. Stóri vinningurinn var að finna gullmálaðan stein og fá risa gullpáskaegg í verðlaun. Krökkunum þótti þetta rosasport og voru dugleg að hlaupa fram og til baka að leita að þessum steinum sem voru faldir í litlum holum, í trjábolum eða bara meðfram göngustígnum. Við fundum öll nokkra steina og höfðum smátíma í lokin til að gæða okkur á nestinu sem við höfðum meðferðis. Krakkarnir voru að vonum ánægðir með öll litlu páskaeggin sem þau fengu í verðlaun og voru með súkkulaði út um allt brosandi andlitið í lok dagsins.

Orana Wildlife Park
Eitt af því skemmtilegra sem krakkarnir gera er að fara í heimsókn í dýragarðinn hér í Christchurch. Enda er Árni Kristinn ákveðinn í að verða gíraffi þegar hann verður stór. Það hefur komið sér vel, Birna Líf bendir honum á það við matarborðið að Gíraffar borði grænmeti (sem Árni Kristinn er ekkert of hrifin af) og það rennur niður án nokkurra vandamála. Uppáhaldið hjá Birnu Líf er að gefa gíröffunum en Árni Kristinn vill bara gefa þessum litlu. Honum líst ekkert á þessa stóru svörtu tungu sem vefur sig utan um greinina sem hann heldur á. Annars er Árni Kristinn svo áhugasamur um dýr að þegar hann fær að velja DVD að horfa á þá velur hann oft Attenborough þættina. Um daginn þegar verið var að horfa á einn þátt um kjötætur þá varð uppi fótur og fit. Ljónin höfðu veitt stóran waterbuck og voru að byrja að gæða sér á honum þegar Birna Líf varð alveg öskuill. Sagði að þetta væri alls ekki sanngjarnt. Ljónin hefðu ,,drepið dýrið" og voru að borða það. Dýrið hafði ekki gert þeim neitt. Svava reyndi fyrst að malda í móinn að ljónin væru bara að leika við dýrið en þau héldu nú ekki. ,,Þau eru sko víst að borða það, sjáðu bara það er allt í blóði". SVo var þetta náttúrulega yfirfært á mannfólkið. Að aumingja dýrin vilja gera allt fyrir okkur og svo bara étum við þau! Ekki beint einfalt að réttlæta svona fyrir 6 og 3ja ára krökkum.

Afmæli, fimleikamót og útilegaÉg átti víst afmæli enn eitt árið og er nú orðinn þrjátíu og átta ára. Það fer að styttast í eftirfarandi sannindi: ,,Inside every old person is a young person wondering what the f....happened". Svava bakaði að sjálfsögðu súkkulaðiköku handa mér og krakkarnir drógu mig á fætur og voru búin að teikna rosafínamynd handa mér.

Birna Líf tók svo þátt í fimleikamóti seinna í vikunni og um helgina ákváðum við að fara í útilegu úti í garði og tjölduðum stóra tjaldinu og borðuðum úti. Krakkarnir fengu svo að sjálfsögðu að sofna úti í svefnpokunum og þótti það mikið sport. Það hefur því miður ekki verið mikið um ferðalög hjá okkur upp á síðkastið enda bæði ég og Svava á lokasprettinum fyrir próf og Mastersritgerð.

Nokkrar skemmtilegar myndir í Mars

Hér eru nokkrar skemmtilegar myndir af Birnu Líf og Árna Kristni. Það er líka ein mynd af Birnu Líf með einni af bestu vinkonum sínum, henni Afza, en Birna Líf er byrjuð í ballet einu sinni í viku og gengur bara ljómandi vel. Svo er síðasta myndin af Árna Kristni þar sem ég hafði drifið hann í smáþrif með mér, en eins og glöggir sjá þá er hann sennilega ekki að soga mikið upp úr teppinu með ryksugunni.

Sumarhátíð í Lyttelton
Í lok febrúar er haldinn sumarhátíð í Lyttelton og er þá aðalgötunni lokað og hún fyllist af sölustöllum af alls kyns heimaunnum varningi, fötum, mat og svo er líka boðið upp á vínsmökkun og götulistamenn eins og eldgleypar leika listir sínar. Fyrir krakkana eru settir upp stórir hoppukastalar, en það fór ekki betur en að loftdælan hætti allt í einu að virka og það þurfti hver að troðast um annan þveran þegar kastalinn riðaði til falls...krökkunum fannst þetta bara gaman og svo var dælunni skellt í gang aftur og fjörið hélt áfram. Slökkviliðið og St. John sjúkraflutningaþjónustan voru líka að sýna slökkviliðsbíla og kenna hjartahnoð á dúkkum o.s.frv. Birnu Líf og Árna Kristni fannst þetta mjög áhugavert og Birna Líf hamaðist við að hnoða á meðan að Árni Kristinn greip svæfingagrímuna óumbeðin og skellti á andlit dúkkunnar og byrjaði að kreista öndunarbelginn. Þau tóku sig mjög vel út eins og sjá má á myndunum.

mánudagur, júní 01, 2009

Haustverk


Við tókum haustverkin mjög snemma í ár og pöntuðum eldiviðinn í lok febrúar, sem er yfirleitt hagstæðara en að bíða þar til allir panta eldivið í maí. Enda var febrúar ansi kaldur eftir hitabylgjuna í janúar.

Sérfræðipróf


Af okkur er það helst að frétta að Svava er að nálgast lokasprettinn í Mastersritgerðinni og ég hef verið á kafi í bókunum að undirbúa mig fyrir skriflega part sérfræðiprófsins þann 17. febrúar. Ég og einn annar strákur, Mark Gilbert, þreyttum prófið hér í Christchurch. Þessi hluti er aðalskelfirinn og yfirleitt um 40% fall í þessum hluta. Um helgar þá hef ég farið og leigt mér húsnæði utan Christchurch og læri 16 tíma á dag í nokkra daga í röð og Svava er heima með krakkana. Mér finnst þetta rosalega gagnlegt enda kemst ég yfir massamikið efni í þessum ferðum. Sem betur fer er þessum parti lokið og ég hef aðeins meiri tíma fyrir Svövu og krakkana. Það gekk bara ágætlega í prófinu en það tók 6 vikur að fá niðurstöðuna sem var betur fer jákvæð. Þann 2. og 3. maí var svo verklega prófið í Brisbane og gekk það líka ljómandi vel þannig að nú er ég frjáls maður....eða þannig. Klára svo verknámið í byrjun desember 2009 og verð þá orðinn sérfræðingur í Bráðalækningum ofan á Almennu Lyflækningarnar. Læt fylgja með eina mynd fyrir skriflega prófið þegar lítill tími var til raksturs.......

Sól og sumar
Við komum tilbaka beint í hitabylgju. Hitinn var hátt í 40 stigin fyrstu 10 dagana. Það er ósköp notalegt að hafa smáhita en þetta var nú einum of. Það var varla að við svæfum á nóttunni heldur þar sem hitinn féll ósköp lítið. Það var notalegt að taka fram garðúðarann og hlaupa nokkrum sinnum í gegnum kalda gusuna. Krakkarnir voru frekar leiðir, sakna allra vina og vandamanna á Íslandi og svo tók heldur betur á við að koma sólarhringnum á rétt ról aftur. Set líka inn eina mynd af Birnu Líf þar sem hún er búin að missa eina tönnina til.....hún varð eftir í epli.

laugardagur, maí 23, 2009

Kominn tilbaka til LytteltonJæja, eftir viðburðarríka ferð til Íslands erum við kominn aftur til Lyttelton. Það voru ekki nema 35 gráður daginn sem við lentum, hefði svo sem mátt vera aðeins nær 20 gráðum, svona til að leyfa okkur að aðlagast. Ferðin til Íslands var frábær, gaman að hitta alla vini og ættingja sem við höfum ekki séð í langan tíma. Við náðum að gera ansi margt, þótt það hafi farið lítið fyrir þeim lærdómi sem hafði verið planaður, en það er bara réttur tími til að bretta upp ermarnar og fara að læra á fullu. Sérfræðiprófið mitt er 17. feb og svo fer Svava nú á fullt að klára Mastersritgerðinni sína. Læt fylgja með fallega mynd af sólsetri daginn eftir að við komum til baka og jólamynd sem var tekinn af okkur í Ballantynes rétt fyrir brottför til Íslands.

Áramótagleði

Áramótagleðin var haldin heima hjá Birnu og Kidda og var fjölmennt í veislunni. Þetta voru fyrstu áramótin sem Árni Kristinn sér flugelda, og þau fyrstu frá því Birna Líf var 2ja ára. Birna Líf var alveg hugfanginn af herlegheitunum, en Árna Kristni stóð ekki alveg á sama, sérstaklega ekki um stærstu og háværustu sprengjurnar. Okkur Svövu þótti þetta náttúrulega alveg frábært enda ekki verið í svona áramótastemmningu í mörg ár. Svanur átti líka stórleik með risabombunum frá Flubbunum, enda ekki von á öðru. Það er allavega enginn hætta á öðru en bumbubúinn hjá Ásdísi hafi tekið eftir hljóðbylgjunum frá sprengiríi pabbans. Ég mátti til með að láta eina mynd af Birnu og Ásdísi fylgja með, hún er bara e-ð svo kómísk þessi mynd.

Jólaboð

Það hefur ekki verið eins mikið að gera hjá okkur í jólaboðunum frá því við fluttum til Nýja Sjálands. Við fórum í heljarinnar skötuveislu á Þorláksmessu hjá Ásdísi og Svani í nýja húsinu þeirra og þetta er alveg örugglega besta leiðin til að komast í alvörujólastemmningu. Það jafnast ekkert á á við góða skötulykt. Upphaflega stóð nú til að sjóða skötuna í bílskúrnum en vegna tæknilegra örðugleika voru pottarnir færðir upp á span helluborðið til að klára gjörninginn. Á aðfangadag fórum við í messu í Langholtskirkju og svo aðfangadagsmatur al a Birna, en það er sennilega hvergi hægt að fá betri rjúpur eldaðar en þar. Svo vorum við að opna pakka fram eftir kvöldi, þ.e.a.s. aðallega krakkarnir. Á jóladag fórum við svo í risaveislu hjá Steina í Grindavík og fengum þar hangiketið, svínahamborgarahrygg og tilheyrandi góðgæti. Veisla 2 á jóladag var svo hjá Siggu þar sem frábær gæsasteik bættist á listann og svo annan í jólum fórum við í veislu til Svavars og Kristbjargar. Það er óhætt að segja að eftir það hafi verið kominn tími til að leggjast á meltuna.