þriðjudagur, janúar 01, 2008

Jóla-loppapeysur


Áramótakveðja 2007-2008

Jóla- og áramótakveðjur frá Nýja Sjálandi
Þá er enn eitt árið liðið hjá okkur hér á Nýja Sjálandi. Það hefur verið viðburðarríkt ár hjá okkkur og það sem ber hæst er sennilega húsakaupin okkar í Lyttelton, en við fluttum inn í nýja húsið okkar i febrúar og hefur farið ofsalega vel um okkur hérna.
Svava byrjaði í mastersnámi í ,,bioengineering“ við Canterbury University þar sem hún er að gera verkefni um blóðflæði í heila og tengsl þess við súrefnisþurrð eða skort í ákveðnum svæðum heilans. Námið gengur vel og er mjög skemmtilegt og áhugavert og ráðgert er að verkefnið klárist öðru hvoru megin við næstu áramót.
Hilmar var á Gjörgæslunni fyrri part ársins en er nú kominn aftur ,,heim“ á bráðamóttökuna. Hann kláraði rannsóknarverkefnið sitt og og kynnti í Ástralíu í Nóvember, en það er eitt af því sem þarf að uppfylla áður en hægt er að taka sérfræðingspróf í bráðalækningum. Ef allt gengur að óskum þá ætti hann að geta tekið prófið eftir eitt og hálft ár og ætti svo um hálft ár eftir í verknámi eftir það.
Birna Líf varð 5 ára á árinu og settist því á skólabekk eins og gert er hér í landi. Hún er ánægð í skólanum og hefur eignast marga vini þar. Henni finnst sérlega gaman að reikna og teikna en gengur líka ágætlega að læra að lesa og skrifa. Hún hefur tekið miklum framförum í píanóskólanum og getur spilað mörg einföld lög. Hún er líka í fimleikum á laugardögum sem hún hefur mikið gaman af.
Árni Kristinn er orðinn 2ja ára og fer mikið fram. Orðaforðinn hraðstækkar um þessar mundir, bæði á íslensku og ensku. Hann virðist líka gera sér fulla grein fyrir því hvenær hann notar íslensk orð og hvenær hann á að tala ensku. Hann er búinn að eignast rosagóðan vin á leikskólanum sem heitir Misha og er frá Rússlandi og eru alltaf mikil fagnaðarlæti þegar þeir hittast á morgnana. Núna fyrir jólin er hann Árni Kristinn mikið bleyjulaus og gengur vel að venja hann við að pissa í koppinn.
Það hefur verið gestkvæmt hjá okkur á árinu og voru þeir Sibbi og Eggi báðir hjá okkur þessi jól. Þeir virðast njóta þess vel að vera hérna á Nýja Sjálandi (þótt þeir sakni Íslands mikið þegar þeir heyra allar þessar stormviðvaranir í desember). Það er indælt að hafa þá hérna hjá okkur og þeir hafa verið mjög hjálplegir að passa þegar við höfum þurft að taka langar æfingar fyrir Coast to coast keppnina okkar.
Við græjuðum okkur upp með hjólum og kajökum í ágúst og höfum síðan verið að reyna að fylgja ströngu æfingaprógrammi. Við tókum þátt í Tuatara keppninni í tæplega 30 stiga hita og sól. Það var mjög lærdómsríkt....fyrri dagurinn tók 7 tíma í fjallahlaupi, kajak og fjallahjóli. Seinni daginn kláruðum við ekki þar sem Hilmar fékk svo slæma sinadrætti en við erum búin að finna lausn á því vandamáli núna. Svava er búin að fara æfingaferð niður ánna sem við þurfum að fara niður í Coast to Coast og leist varla á blikuna þar sem áin var ansi úfin á köflum í gljúfrinu. Við höfum því ákveðið að vera samferða niður ána í keppninni. Í fyrradag fórum við svo æfingaferð í gegnum fjallahlaupið í coast to coast og tók það okkur 7 tíma með hlaupa-labba-klifra-vaða. Við fórum um 30 sinnum yfir ána, sem nær upp í mitti og er ansi straumþung á köflum. Líf og fjör.
Bestu jóla- og áramótakveðjur frá okkur á Nýja Sjálandi.