laugardagur, nóvember 18, 2006

Búin að borða


Árni Kristinn var að borða um daginn upp úr djúpumdisk og þegar hann var búin fannst honum eina vitið að skella disknum á höfuðið og var afskaplega ánægður með þennan nýja hatt









Leikskóli og labb


Jæja, þá er Árni Kristinn byrjaður á leikskóla. Hann er á sama leikskóla og systir sín og þau virðast bæði vera ákaflega ánægð þar. Sama dag og Árni Kristinn byrjaði á leikskólanum ákvað hann líka að byrja að ganga og það með stæl þannig að núna á fimmta degi vill hann helst hlaupa....og á það því til að skella beint fram fyrir sig í ærslaganginum. Birna Líf vill líka hjálpa mikið til þegar hann er að labba (enda telur hún að heiðurinn sé fyrst og fremst hennar) með tilheyrandi áhrifum á jafnvægið hjá honum. Hann hefur sennilega ákveðið að fyrst hin smábörnin geta gengið þá geti hann það sko líka.

Halta hænan okkar er öll að koma til. Hún er laus við spelkuna og farin að dóla sér niður alla þrjá pallana fyrir ofan hús niður til okkar til að minna okkur á að það eigi nú að fóðra þær reglulega. Emma, Hera og Hirtirnir þeirra komu í kaffi til okkar í síðustu viku og vildu þá endilega fá að sjá þessa frægu hænu og að þeirra viti þá fannst þeim göngulag hennar minna sig á ,,hermannagang" með fótinn svolítið stífan fram og beint út í loftið.......hún fór þó ekki í pottinn.

Æfingarnar ganga vel hjá okkur og er keppnin næstu helgi. Svava gaf mér kajakinn sem er á einni af myndunum fyrir neðan sem fyrirfram afmælisgjöf (ekki nema 5 mánuði fyrir tímann) og reyni ég að vera duglegur að róa á honum. Birna Líf er mjög spennt fyrir þessu og talar mikið um að ég verði að hlaupa hraðar, svo ég geti orðið fyrstur....svona eins og hún

föstudagur, nóvember 03, 2006

Einbeittur á svipinn við myndlistina

Að lita og teikna


Birna Lif tók að sér að kenna bróður sínum að lita og teikna í dag. Það gekk furðu vel Árni Kristinn borðaði mun minna af vaxlitunum í þetta skiptið og teiknaði sína fyrstu mynd. Birna Líf var rosalega stolt af bróður sínum og kallaði á mig (Svövu) ,,mamma mamma hann er búin að teikna sjáðu hvað hann er duglegur" og mátti varla á milli sjá hvor var stoltari af myndinni, hún eða Árni Kristinn.





Hrekkjavöku kanínan

Á Hrekkjarvöku


Birna Líf kom mjög spennt heim af leikskólanum fyrir tveimur dögum og sagði okkur að í dag væri drauga og vondu kalla kvöld. Hún ákvað að klæða sig í víkinga-drauga-sjóræningja búning og festi á sig kanínu sem var að sjálfsögðu vond. Síðan komu krakkar og hringdu bjöllunni, klædd í skrímslabúning Birnu Lif til mikillar ánægju. Árni Kristinn var hins vegar ekki eins ánægður með þessi skrímsli á tröppunum og fór bara að sofa.

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Ýmislegt brallað á leikskólanum

Birna Líf á afskaplega góða vinkonu á leikskólanum sem heitir Sophie og bralla þær ýmislegt saman. Núna á mánudaginn voru þær í hárgreiðsluleik og Sophie vildi endilega klippa Birnu Líf (eftir að hafa klippt sjálfa sig fyrst) og stytti hún því aðra fléttuna hennar Birnu Lífar um eina 5cm. Þetta olli vitanlega miklu fjaðrafoki á leikskólanum og var haldinn fundur með öllum börnunum þar sem ákveðið var að fleiri fengju ekki jólaklippinguna sína á leikskólanum. Birna Líf var svo sem ósköp sæl með þetta allt saman og Svava klippti hana hér heima um kvöldið með góðum árangri.

Annars tók Árni Kristinn 4 skref áðan og virðist sem hann sé alveg að fara að gleyma sér nóg til að fara að labba. Annars stóð hann úti á miðju stofugólfi fyrr í dag og hoppaði jafnfætis með ágætis jafnvægi.