þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Hrekkjavaka
Birna Líf er búin að bíða eftir hrekkjavöku í eitt ár og loksins rann upp dagurinn. Birna Líf var klædd í nornabúninginn sinn og Árni Kristinn í Jack Sparrow sjóræningjabúninginn sinn og svo var gengið á milli húsa og æpt á húsráðendur (í orðsins fyllstu hvað Árna Kristinn varðar) ,,Trick or Treat". Afraksturinn nægir í þó nokkra laugardaga :)
Sumir húseigendur leggja mikið í hrekkjavöku hér ytra og skreyta allt heima hjá sér og eru með tilbúna nammipoka o.s.frv. Á einum staðnum var búið að stilla upp galdrakústi og við hliðina var skilti sem stóð á ,,broom parking". Það var líka búið að skreyta með köngulóarvef og graskerjum. Innandyra voru svo 2 eldri nornir til að taka á móti gestum og hafði sú eldri tekið út úr sér fölskurnar í tilefni dagsins og Birna Líf var sannfærð um þær væru alvörunornir en hefðu ekki gert okkur mein þar sem Birna Líf væri klædd í nornaföt og væri því í nornareglunni!

Hanmer Springs


Það var ein þriggja daga helgi í október, Labour weekend, og skelltum við okkur til Hanmer Springs. Það viðraði nú ekkert sérlega vel á okkur til að byrja með og var slydda um morguninn þegar við vöknuðum. Verandi sannir Íslendingar (og af því við höfðum pakkað lopapeysunum) þá létum við það ekki stoppa okkur og fórum á lítinn dýrabúgarð þar sem hægt var að kaupa lamadýr fyrir 500 dollara, rolluunga á 50 dollara og barnahænur fyrir 10 dollara stykkið. Mér fannst þetta alveg lygilegt verð per kg en Svövu fannst það ekki alveg við hæfi....enda vill hún kaupa geit. Krökkunum fannst þetta mjög gaman, þ.e.a.s. þegar Árni Kristinn var búinn að jafna sig á ákafa dýrana þegar þau voru með e-ð matarkyns handa þeim. Seinni partinn var veðrið búið að skána mikið og við skelltum okkur í heitu pottana og svo í hjólaferð fyrir kvöldmatinn.

KrakkamyndirVið fórum í gönguferð með Birnu Líf og Árna Kristinn um Lyttelton fyrir skemmstu og þau fengu að taka myndir að eigin vali á myndavélina. Hér er hluti af afrakstrinum

Bátsferð
Krakkarnir eru búnir að vera að biðja um að fara í bátsferð í svolítinn tíma þannig að við ákváðum að rölta okkur niður á bryggju og tókum ferjuna yfir til Diamon Harbour með þau og nestiskörfuna. Þau voru reyndar bæði búin að vera eitthvað slöpp og því ekki í neinu svakastuði í upphafi en öll veikindi gleymdust samstundis þegar þau fundu blett til að hlaupa á og tré til að klifra í.
Veðrið er farið að leika við okkur og hitinn gjarnan í kringum 20 stigin sem er ósköp notalegt.

fimmtudagur, september 25, 2008

Árni Kristinn 3ja ára

Árni Kristinn varð 3ja ára þann 16 og 17 september síðastliðinn. Hann hefur ekki verið neitt upprifinn yfir þessu afmælisstandi á meðan Birna Líf er búin að vera að skipuleggja þetta afmæli frá því hún var 6 ára. Við vöktum hann með afmælissöngi og hann opnaði pakkana sína þegar hann var búinn að átta sig á því að þetta væri kannski ekki svo slæmt þetta afmælisstand. það var haldið upp á afmælið hans á Íslandi með afmælisköku hjá Ásdísi og Svani og að sjálfsögðu bein útsending á skype á milli þessara tveggja afmælisveislna. Árni Kristinn fékk nýtt hjól frá okkur
Svövu (hann kallar það Motorbike) og svo var Tommi Togvagn þemað í hinum gjöfunum. Sunnudaginn á eftir var svo haldinn afmælisveislan og komu vinir hans af leikskólanum og var því að sjálfsögðu mikið líf í tuskunum fram eftir degi og fékk afmælisbarnið meira af Tomma Togvagnsdóti í afmælisgjöf.
Á 3ja ára afmælisdaginn var svo gert það sama og hjá Birnu Líf þegar hún varð 3ja ára......snuðin hans voru límd upp í loft með hans samþykki. Það var samt ekki laust við smá eftirsjá þegar hann fór í rúmið um kvöldið.
Þetta var samt ekki það eina sem var sambærilegt við 3ja ára afmælið hennar Birnu Lífar, hann fékk hjól eins og hún og þegar ég kom út á pall þá mætti mér Þorbjörg (sennilega að leysa Ásdísi af) á nýja hjólinu hans Árna Kristins!

miðvikudagur, september 24, 2008

Snjóstormur og diskótekFyrsta skiptið frá því við fluttum til Lyttelton setti niður snjó á láglendi. Krakkarnir nánast rifnuðu úr spenningi og voru handviss að nú væru jól. Þau voru því drifinn í kuldagallan og skelltu sér út að leika sér í snjónum á meðan það varði.
Ég læt fylgja með myndir þar sem Birna Líf var á diskóteki með vinkonum sínum og var hún alveg í essinu sínu þar. Annars kom það upp á að kanínan hennar Birnu Lífar dó í svæfingu og var mikil sorg hjá okkur og mikil umræða um lífið og tilveruna og á endanum voru allir sáttir við að ,,afi sjóræningi" myndi líklegast taka á móti henni með stórri gulrót. Hún var svo jörðuð með viðhöfn í garðinum okkar og svo fékk Birna Líf nýja kanínu til að halda kanínunni hans Árna Kristins félagsskap og var hún mjallahvít eins og sú fyrri og fékk sama nafnið: snjór

Ýmislegt


Við vorum að finna stórskemmtilegan nýjan garð í Christchurch sem heitir Bottle lake forest park, og fórum með krakkana þangað að æfa sig á hjólunum. Birna Líf er núna búin að ná því að hjóla án hjálpardekkja og Þegar hún var að horfa á ólympíuleikana um daginn og komst að því að Ísland hafi aldrei unnið gull....Þá sagðist hún bara verða að fara þangað og keppa fyrir Ísland til að vinna gull. Hún ætlaði að vinna gullverðlaunin í einhverri hjólagrein. Hún sagði svo að það væri bara eitt vandamál við þetta plan: ,,Ég veit ekki hvar þessir ólympíleikar eru"
Árni Kristinn æfði sig á gamla hjólinu hennar Birnu Lífar og stóð sig mjög vel. Hjálpardekkin eru nefnilega ekki alveg upp á það besta, þau bognuðu eftir hjólaferð Ásdísar fyrir allnokkru og hafa aldrei náð sér alveg. það er því ansi myndarleg slagsíða á Árni Kristni þegar hann er að hjóla en þetta hefst nú allt saman.
Árni Kristinn er núna byrjaður í tónlistarskólanum og er duglegur að æfa sig að syngja (enda syngur drengurinn eins og engill). Honum finnst það rosagaman þar sem hann er fríi fyrir hádegi á miðvikudögum á leikskólanum og fer í sund og svo tónlistarskólann á eftir.
Birna Líf er mjög dugleg að spila á píanóið og er ákveðinn í að halda tónleika niðri í bæ í Lyttelton fyrir jólin til að safna pening fyrir flugi til Íslands! Við keyptum fyrir hana píanóbók með jólalögum og hún er núna að æfa Rúdolf hinn rauðnefjaða fyrir tónleikana.

Gönguferð

Við fórum svo heim aftur í gegnum Haast skarðið og upp vesturströndina til að skoða Frans Jósef jökulinn. Í einu matarstoppinu okkar hittum við ungan mann sem er búinn að vera að hjóla um suðureyjuna sl. 3 mánuði og átti enn eftir u.þ.b. mánuð. Hann er Nýsjálendingur sem er á milli starfa og ákvað að nota tækifærið og ferðast loksins e-ð um landið sitt.
Helgina eftir að við komum heim skelltum við okkur út á Codley Head sem er rétt hjá Lyttelton. Þar niðri við sjóinn eru minjar frá því í seinni heimstyrjöldinni. Það eru húsarústir og svo nokkur skotbyrgi sem eru í mynni Lyttelton Harbour. það er töluverð ganga að komast þarna niður og svo þarf að ganga í gegnum göng á endanum. Það var búið að rigna töluvert mikið dagana á undan þannig að stígurinn og göngin voru eitt leðjusvað. Krakkarnir höfðu rosagaman af þessu brölti og þegar við komum loks upp í bíl aftur þurfti að taka þau nánast úr hverri spjör svo það yrði ekki leðja út um allan bíl.

Wanaka - vetrarfrí

Það er víst löngu kominn tími á framhald á pistlunum.....við erum búin að vera í vetrarhýði en nú er hitinn að komast yfir 20 stigin og sól skín í heiði þannig að ég ætla að hrúga þeim inn í dag!

Við eyddum einni viku í góðu yfirlæti í Wanaka sem er alveg frábær staður til að vera á. Við stefnum á að koma hér aftur að sumarlagi til að kanna umhverfið nánar, en hér er endalaus útivist í boði með fjölmörgum fjalla- hjóla og hlaupastígum, kajak á vatninu, veiði o.s.frv.
Við skelltum okkur tvisvar á skíði á svæði sem heitir Cardrona. Fyrri daginn var lélegt skyggni, snjómugga og frost. Árni Kristinn var sennilega að uppgötva ískaldar tær í fyrsta skipti og vissi eiginlega ekkert hvað var í gangi, tómur sársauki í tánum. Eftir smá nudd og hlýrri sokka fékkst hann þó af stað á þotuna og svo á skíði. Seinni dagurinn var hins vegar alveg frábær, heiðskírt og ótrúlega fallegt útsýni. Birna Líf fór í skíðaskóla og stóð sig mjög vel. Árni Kristinn skíðaði hins vegar með okkur og fékk að leika sér á snjóþotunni. Við Svava skiptumst á meðan á að fara í stólalyftuna upp á topp til að leika okkur aðeins :)

sunnudagur, júlí 06, 2008

VetrarfríVið eigum núna vikufrí og skelltum okkur því í ferð niður til Wanaka á skíði í nokkra daga og ætlum svo að fara heim upp vesturströndina aftur. Við pökkuðum því öllu niður og lögðum í hann á laugardegi. Hér hefur hins vegar verið hið versta vetrarveður og því var Lindis skarð lokað og við urðum að gista í eina nótt í Oamarama þaðan sem myndirnar af krökkunum eru teknar. Við keyptum því keðjur á bílinn og lögðumst á bæn að skarðið yrði nú opnað næsta dag sem það og var. Við ókum svo eins og allir hinir kiwiarnir með keðjurnar áleiðis að skarðinu....það var smáföl á veginum og við biðum eftir að það færi að þæfast svolítið meira færðin....en við vorum byrjuð að fara niður aftur og vegurinn orðinn snjólaus þannig á endanum áttuðum við okkur á því að við værum komin í gegnum ófærðina og tókum keðjurnar aftur af.
Þegar krakkarnir voru að fara í rúmið í kvöld voru þau svolítið óróleg og við heyrðum allt í einu smágarg í Birnu Líf. Ég fór inn að athuga hvað væri í gangi og allt í einu tók Birna Líf eftir mér og snarbrá í rúminu, enda hafði hún verið undir koddanum. Árni Kristinn var líka úti á miðju gólfi með skíðagleraugun sem við vorum að kaupa á þau í dag. Birna Líf hafði sem sagt verið fulviss um að það væri tröll fyrir utan (enda erum við uppi í fjöllunum) og var því hrædd við myrkrið og Árni Kristinn var að reyna að hugga hana með því að setja á hana skíðagleraugun! Þannig að þegar ég skildi við þau í rúmunum sínum voru þau bæði hæstánægð að fara að sofa með skíðagleraugun sín sér.

föstudagur, júní 27, 2008

Gamlar myndirÉg var að fara í gegnum myndir á minniskubbnum og fann þessar tvær af Birnu Líf og Árna Kristni og gat ekki anna en sett þær hér inn á bloggið......er í hrikalegum ham í dag, margra mánaða skammtur af bloggi. Ég get farið í frí fram að jólum núna ;=)

Skrifstofan


Sibbi er núna að fara í lokaprófið á eftir, hann er búinn að sösla undir sig heila kennslustofu til að læra í sést á myndinni á ,,skrifstofunni sinni". Eftir prófið flýgur hann svo til Dunedin til að taka þátt í Tae Kwon do móti á morgunn...

Lyttelton street party


3ju vikuna í júní á hverju ári er haldið ,,Lyttelton Festival of Lights"

Þá skreytir fólk heimili sín með jólaljósunum, stóra grenitréið fyrir utan kirkjuna er skreytt með jólaljósum og á hverju kveldi eru viðburðir á veitinga- og skemmtistöðum Lyttelton. Lokakvöldið er grímuskrúðganga og svö götupartý með stöllum (m.a. jólaglögg til sölu), götulistafólki og hljómsveitarpalli sem lýkur svo með heljarinnar flugeldasýningu (kannski ekki á íslenskum mælikvarða).

Við buðum því í Pizzaveislu heim til okkar til að halda kveðjuveislu fyrir Sibba í leiðinni, enda styttist óðfluga í að hann fari að skella sér aftur á skerið. Það var því fjölmennt hjá okkur og eftir að hafa bakað 20-30 pizzur í ofninum skelltum við okkur öll niður í bæ. Birna Líf og Árni Kristinn skemmtu sér alveg stórkostlega við að dansa og hlusta á tónlistina í bænum. Þau voru svo alveg agndofa yfir flugeldasýningunni sem fylgdi á eftir, sannkölluð partýljón bæði tvö.

Vetur genginn í garð


Veturinn minnti óneitanlega á sig núna í byrjun júní með óvanalegi snemmkominni snjókomu á láglendi. Krakkarnir voru ekki lítið spenntir, en Árni Kristinn er ennþá mjög hissa á því hvað honum verður kalt á höndunum eftir að meðhöndla snjó! Það er e.t.v vona á góðum skíðavetri hér í vetur. Við ætlum að fara í vikuferð til Wanaka og Queenstown í byrjun júlí og komumst þá vonandi öll svolítið á skíði. Lopapeysurnar sem við fengum öll í jólagjöf eru því að koma að veeeerulega góðum notum um þessar mundir og eins og venjulega fer ótrúlegur tími og fyrirhöfn í að halda húsinu heitu með kamínu, hitapumpu, einangrandi gluggatjöldum og ofnum.....ef það kólnar mikið meira þurfum við að kippa búfénaðinum inn líka (kanínum og hænum) til að halda á okkur hita.

Birna Líf 6 ára

Birna Líf varð 6 ára þann 5ta júní síðastliðinn. Hún fékk fullt af pökkum (Árni Kristinn fékk líka) á afmælisdaginn sinn sem var á fimmtudegi og svo héldum við afmælisveislu á stað sem heitir Lollypop Playland eins og Birna Líf var búin að biðja um sl. hálft ár eða svo. Þessi staður er með þó nokkur herbergi fyrir veislur og svo miðsvæðis er risastórt leiksvæði þar sem krakkarnir klifra og leika sér í fjölbreyttum leiktækjum. Það er skemmst frá því að segja að veislan var þvílíkt skemmtileg og þegar kom að lokum veislunnar vildi enginn fara....bara leika áfram. Þetta árið pantaði Birna Líf sundlaugarköku sem Svava bakaði og við skreyttum svo saman. Það besta að okkur Svövu mati var þó að eftir veisluna þá bara fer maður og einhver annar sér um að taka til eftri allt fjörið, alveg hreint ágætt. Birna Líf fékk heilmikið af fínum gjöfum og var yfir sig ánægð með daginn.

Týnt gæludýr


Ég held að myndin tali fyrir sig sjálf........höfum ekki ennþá komist að því hvort þetta sé brandari, allavegana var skólanum ekki lokað :)

miðvikudagur, júní 04, 2008

HálfmaraþoniðAð venju tókum við þátt í maraþonhlaupinu hér í Christchurch fyrstu helgina í júní. Það eru núna 2 ár síðan ég, Svava og Ásdís tókum þátt í hálfmaraþoninu og við Svava fengum í okkur ,,multisport" bakteríuna leiddi svo til Coast to Coast þáttökunar í ár.
Það er sennilega ómögulegt að búa með okkur án þess að hreinlega neyðast til að taka þátt í herlegheitunum en við töldum okkur þó vera mjög höfðingleg að leyfa Sibba að velja hvort hann hlypi hálf eða heilmaraþon!!
Það sem Sigurbjörn var langánægðastu með var heil vika af ,,carbo loading" þar sem hann var óspart hvattur til að fá sér meira að borða á hverju kvöldi....ekki það að hann hafi þurft mikla hvatningu. Á sunnudaginn hlupum við svo hálfmaraþonið, en Svava var fjarri góðu gamni í ár þar sem hún fór með krakkana í afmælisveislu til vinkonu Birnu Lífar. Í staðinn ætlar Svava að hlaupa hálfmaraþon í Dunedin í september.
Það gekk nokkuð vel í hlaupinu og hljóp ég á 2:03 og Sibbi stóð sig frábærlega og hljóp sitt fyrsta hálfmaraþon á 2:11.

þriðjudagur, júní 03, 2008

Dýragarðsferð

Ég fór með Birnu Líf og Árna Kristinn í dýragarðinn fyrir skemmstu og það er alltaf jafngaman fyrir okkur öll. Árna Kristni finnst alltaf mest gaman að fara í lestarferð þarna og skoða ljónin. Birna Líf er hins vegar spenntust fyrir því að fara að klifra á leikvellinum og gefa gíröffunum, kindunum og kálfunum að borða, en Árni Kristinn er svolítið smeykur við að nálgast kálfana of mikið.