laugardagur, september 22, 2007
Afmæli á ströndinni
Afmælisveislan hans Árna Kristins var haldin í dag....við ákváðum vegna vegna veðurs að flytja afmælið niður á strönd og tókum með okkur öll veisluföngin ásamt kajökum niður á strönd. Fólk notaði mismunandi aðferðir við að komast í veisluna og hjólaði Shannon þangað á meðan Mikki og Ingó hlupu yfir fjallið frá Taylors Mistake. Árni Kristinn og Birna Líf voru alveg ljómandi ánægð með að halda veisluna á ströndinni og busluðu og léku sér í fjörunni. Árni Kristinn fékk margar skemmtilegar gjafir er greinilega búinn að læra að það er e-ð skemmtilegt falið innan í gjafapappírnum. Veislugestir voru einnig mjög ánægðir með staðarvalið og skiptust á að gæða sér á yndislegu súkkkulaðikökunum hennar Svövu og stunda sjóbað eða skella sér í stutta kajakferð.
Kajaknámskeið
Við Svava erum búin að vera á kajaknámskeiði í þessari viku. Þetta byrjaði allt í rólegheitum í lítilli sundlaug þar sem okkur var kennt að fara í og úr þessum litlu flúðakajökum. Svava var hrikalega stressuð fyrir námskeiðið, sér í lagi partinn þar sem við erum að æfa okkur í að vera á hvolfi! Nefið á henni fylltist líka strax af vatni og hún var næstum búin að gera pottþétta eskimóaveltu án nokkurrar kennslu um leið og henni var snúið á kaf í fyrsta skiptið. Þetta gekk samt allt að óskum og næsta skref var að fara í grunnæfingar á kyrru vatni. Þar var okkur sagt að róa beina línu í átt að leiðbeinandum sem var gjörsamlega ómögulegt til að byrja með á þessum kajökum. Í hvert skipti sem við rákum árina niður þá snerist kajakinn á punktinum nánast......en eftir smástund vorum við búin að ná tökum á þessu og gátum tekið öll áratökin með góðum árangri. Seinni dagurinn fór svo í að æfa okkur í meiri straumi sem var mjög skemmtilegt og nú bíðum við spennt (og kannski aðeins stressuð) eftir seinni part námskeiðsins sem verður tveggja daga kajak ferð niður Hurunui ána!
þriðjudagur, september 18, 2007
Árni Kristinn 2 ára
Þá er litla barnið okkar hann Árni Kristinn orðinn 2ja ára gamall. Við ætlum að halda upp á afmælið hans á laugardaginn kemur með smá kaffiboði. Hann fékk samt ísköku og pakka í tilefni dagsins og fylgja með nokkrar myndir. Birna Líf var ekki alveg á því að hann væri í ,,alvörunni" orðinn 2ja ári heldur væri þetta í plati þar sem hann gæti ekki talað enn. Það var mjög erfitt að útskýra þetta fyrir henni, þar sem hún virðist hafa verið alveg viss um að daginn sem hann yrði 2ja ára væri hann orðinn fulltalandi. Viss vonbrigði þar.
Árni Kristinn þýtur nú um allann pallinn á nýja hjólinu sínu sem hann skilur ekki við sig og þarf að leggja því við hliðina á rúminu hans á kvöldin þegar hann fer að sofa.
fimmtudagur, september 13, 2007
Brakandi blíða
Við erum svo heppin að koma frá Íslandi og þar af leiðandi njótum við 3-4 mánaða aukasumars hér á Nýja Sjálandi miðað við innfædda. Þeir segja að það sé rétt svo komið vor núna, en hitinn í dag fór yfir 20 stig og samkvæmt okkar kokkabókum er það sumar og ekkert annað.
Sibbi er ekki illa haldinn af flugþreytu og skellti sér í hjólatúr í dag til að njóta útsýnisins yfir Lyttelton flóann. Á morgun er svo planið að fara með honum í fjallahjólatúr um port hills og kannski smákajak á eftir......humm, ekki mikill tími til að fara að innrétta útihúsið sitt svo hann fá svolítið næði þar. Annars var hann græjaður upp í dag með hjólabol ásamt hlaupa og inniskóm.
miðvikudagur, september 12, 2007
Sibbinn kominn
Sibbi mætti á svæðið á þessum líka dásemdardegi. Við fórum öll út á flugvöll í morgun að ná í kappann og bjuggumst við þessum venjulega töfum og svo langþreyttum, farangurslausum ferðalangi....en viti menn. Í þetta sinn komst farangurinn á leiðarenda og Sibbi kominn í gegnum tollinn á mettíma. Ferðalagið gekk rosavel hjá honum og mikil kátína hjá Birnu Líf og Árna Kristni að knúsa hann, það skemmdi nú ekki að fá m&m að gjöf frá honum líka.
Við fórum svo með hann til Lyttelton og fengum okkur vel útilátinn hádegismat sem við borðuðum úti á palli í góða veðrinu. Eftir það þurfti svo að finna e-r ráð til að halda honum vakandi fram á kvöldmat og var kastað upp ,,krónu" á milli fjallahjólatúrs eða kajaktúrs.
Úr varð að ég og Sibbi skelltum okkur í kajakferð á meðan Svava lá yfir námsbókunum. Sibbi stóð sig mjög vel og þurfti ekkert að skella sér til sunds í þessari ferð og vildi endilega fara aftur á morgun og þá helst svolítið lengra. Það verður líka enginn miskunn í æfingum fyrir hann þar sem við erum búin að lofa honum í þriggja manna lið fyrir næstu Tuatara keppni!
Við röltum svo öll niður í bæ seinni partinn og keyptum ferskan fisk sem við pönnusteiktum og fengum okkur gott Nýsjálenskt hvítvín með.
Eftir kvöldmat fóru svo Sibbi, Birna Líf og Árni Kristinn í rúmið og það er nánast öruggt að sá fyrstnefndi var fyrstur í draumaheima.
fimmtudagur, september 06, 2007
Pistlahrúga
Nú er víst kominn tími til að bretta upp ermarnar og skrifa nokkra pistla, áður en skömmunum fer að rigna yfir okkur af fullri alvöru. Við höfum tekið okkur góða pásu í kringum Íslandsferðina og kominn tími til að uppfæra þessa blessaða bloggsíðu okkar. Ég hef því sett inn nokkra pistla ef þið viljið "skrolla" niður þá getiði lesið þá í réttri tímaröð.
Heyskapur
Nú er daginn tekinn að lengja verulega og orðið bjart bæði á leið í og úr vinnu. Undanfarna viku var veðrið mjög gott og fór hitinn yfir 20 gráðurnar. Það var því orðið tímabært að taka svolítið á því í garðinum og létu Árni Kristinn og Birna Líf svo sannarlega ekki sitt eftir liggja eins og sést á myndunum.
Birna Líf er mjög ánægð í skólanum sínum og segist eiga rosalega marga vini. Henni fer mikið fram í að læra stafina og lesum við með henni á hverju kveldi. Það sem henni finnst þó enn skemmtilegra er frádráttur og samlagning og vill því miklu frekar eyða tíma í það en lesturinn. Hún er áfram að læra á píanóið og er farinn að nota báðar hendur og spila tóna......það versta er að þetta er að verða of erfitt fyrir mig! Ég verð víst bara að æfa mig í launi.
Árni Kristinn hefur verið duglegur að ná sér í vetrarpestirnar og þurft að vera svolítið heima við vegna þess. Annars braggast hann vel og er mjög áhugasamur um það sem Birna Líf er að læra. Hann syngur abcd..lagið fullum hálsi en byrjar að spóla einhvers staðar á milli d og e, en heldur þó laginu allt til enda. Árni Kristinn hefur yfirumsjón með hænunum okkar og sér til þess að við gleymum ekki að gefa þeim á hverjum degi. Hænurnar virðast vera farnar að venjast nýju eigendunum og verða aðgangsharðari með hverjum deginum. Þær eru þó ekki farnar að gogga í útidyrnar ennþá, en þess er sennilega ekki langt að bíða....reyndar verður Sibbi í gistihýsinu og líklegast að þær goggi bara í dyrnar hjá honum í næstu viku.
Æfingaplön og græjur
Skipulagið fyrir Coast to coast var ákveðið fyrir skemmstu. Við boðuðum til fundar heima hjá okkur ásamt nokkrum af Íslendingunum hérna úti til að skipuleggja hvað keppnum við ætluðum að taka þátt í og að útbúa æfingaáætlun fyrir okkur fram að keppninni. Ég, Svava og Mikael ætlum að taka þátt í keppninni en Ingó, Shannon, Einar og Carolyn ætla að reyna að æfa svolítið með okkur og hvetja okkur til dáða. Það sem er mest aðkallandi er að kaupa kajak fyrir Svövu og svo þurfum við öll að klára kajaknámskeið og fá útgefið "Grade II Kayak Certificate" til að fá að taka þátt í keppninni. Fyrir utan kajakinn fyrir Svövu þá erum við búin að kaupa allar aðrar græjur...s.s. götuhjól og fjallahjól. Þau eru svo dýr að þau fá að vera inni í svefnherbergi hjá okkur þar til við erum búin að útbúa læsta geymslu undir húsinu.....ekki uppi í rúmi samt. Núna á undirbúningstímabilinu þá þurfum við að æfa 6-10 tíma á viku en þegar nær dregur verða erfiðustu vikurnar með 17 tíma í æfingar sem verður náttúrulega ekkert mál að skipuleggja með 2 börn, fulla vinnu og háskólanám. Við erum búin að vera einbeita okkur að hjólamennskunni síðustu vikur en þurfum að fara að kajaka á fullu. Svo förum við einu sinni í viku til Carolyn í Pilates æfingar og förum þá og hlaupum í stórgrýtinu við fjöruborðið í Sumner í leiðinni en það á að vera besta æfingin fyrir fjallahlaupið.
Aftur í veturinn
Eftir að hafa upplifað besta sumar í manna minnum á Íslandi þá erum við komin aftur í veturinn á Nýja Sjálandi. Það er ósköp notalegt að vera komin aftur til baka en við söknum allra á Íslandi og Birna Líf og Árni Kristinn spyrja oft eftir ömmu og afa, ömmu í Grindó o.s.frv. Við Birna Líf ferðuðumst saman út, en Árni Kristinn og Svava fóru út 2 vikum á undan okkur. Ferðalagið gekk framar öllum vonum enda Birna Líf sérlega skemmtilegur ferðafélagi. Við stoppuðum í 12 tíma í Singopore og skráðum okkur inn á transit hótelið þar og náðum góðum svefni og eftir það skelltum við okkur í sund og fengum okkur svo Pizzu eftir það. Við vorum því alveg endurnærð fyrir síðasta flugið til Nýja Sjálands og urðum ekki einu sinni pirruð þrátt fyrir að farangurinn hafi orðið eftir í Singapore, enda fengum við hann 2 dögum seinna afhentan heim án nokkurra vandamála. Veturinn hér er búinn að vera mjög mildur og ekkert snjóað á láglendi í Christchurch þó það hafi nokkrum sinnum fest smásnjó í kollin á Mt. Herbert (1000 m) hérna hinum megin við fjörðinn. Það er helst að maður sé meðvitaður um veturinn vegna skammdegisins og svo eru náttúrulega húsin hérna með eindæmum köld og það fer töluverð vinna í að kynda, sækja eldivið og fara með rafmagnsofn á milli herbergja. Ég lét svo verða af því að kaupa rafmagnsteppi í rúmið í lok vetrar og fékk fullt af prikum í kladdann hjá Svövu, enda var ég að byrja á næturvöktum.
Íslandsferð
"Þetta geri ég aldrei aftur" ;Svava Júlí 2006 um að ferðast alein með 2 börn frá Nýja Sjálandi til Íslands.
"þetta geri ég aldrei aftur" ; Svava í Júlí 2007 um að ferðast alein með 2 börn frá Nýja Sjálandi til íslands.
Já hún lét sig hafa það að fara aftur ein með börnin alla leið til Íslands. Það mun samt hafa verið þægilegra í þetta sinn þar sem þau gátu öll teygt úr sér og farið í bað á transit hótelinu í Singapore....en samt..úfff. Þau komust nú samt öll heilu og höldnu til Íslands og ég kom svo 2 vikum á eftir þeim. Það er skemmst frá því að segja að við vorum alveg afspyrnu heppin með veður, sól og blíða upp á hvern einasta dag. Birna Líf og Árni Kristinn nutu þess alveg í botn og fannst ekki amalegt að eyða öllum þessum tímum í sundlauginni í garðinum hjá Afa og Ömmu í blíðviðrinu. Við reyndum líka að fara eins mikið í Grindavík og hægt var og fengu frændsystkinin öll góðan tíma til að kynnast upp á nýtt og leika sér saman. Krökkunum fór mikið fram í íslenskunni og augljóst að Birna Líf greip ýmislegt á lofti hjá ömmu nöfnu og ekki óalgengt að heyra hana segja "almáttugur minn" eða "jæja gæskan". Árni Kristinn virtist grípa töluvert mikið af nýjum orðum en það sem er merkilegt samt er að þegar hann kom til baka á leikskólann hér úti þá var hann farinn að segja mun fleiri orð á ensku líka.
Rúsínan í pylsuendanum á Íslandsferðinni var svo brúðkaupið hjá Óska og Ragga sem ég og Birna Líf fórum í. Það var yndislegt að geta verið viðstaddur þennan stóra dag hjá litlu systur minn og mági mínum honum Ragga, en Raggi hafði áður unnið sér inn giftingarréttinn með glímukeppni við okkur bræður á Arnarhóli á steggjadeginum hans.
Að lokum langar okkur að þakka öllum kærlega fyrir frábærar móttökur á meðan á heimsókn okkar stóð og við hlökkum til að hitta ykkur sem fyrst aftur.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)