þriðjudagur, ágúst 17, 2010

Jólaplön 2009




Mér var boðinn vinna áfram í Christchurch en hún byrjar ekki fyrr en um miðjan janúar, þannig að við ákváðum að fara í ferðalag um Norður-eyjuna og ég myndi taka nokkrar aukavaktir í leiðinni á litlum spítala í bæ sem heitir Hawera og við komum til með að eyða jólunum þar. Ég vinn svo nokkrar vaktir í röð og svo höfum við tíma til að ferðast á milli og ætlum m.a. að heimsækja Kelvin vin okkar og eyða áramótunum með honum á Waihi Ströndinni. Krakkarnir fengu róló-dót í gjöf frá systkinum mínum í Grindavík og við ákváðum að þau fengju þá gjöf áður en við lögðum af stað, þar sem við komum ekki til baka fyrr en um miðjan janúar aftur. Eins og myndirnar sýna þá voru þau ekki lítið ánægð með þessa gjöf. Áður en við lögðum í hann var svo fullt af jólastússi í leikskólum og skólum og Sandy og Ilda komu í heimsókn til okkar með Margot og Zara til að kveðja okkur áður en þau leggja í hann í sitt ævintýri til Suður-Afríku.

Desember 2009




Ég kláraði útlegðina í Dunedin í byrjun desember og Svava og krakkarnir komu að ná í mig til að vera viss um ég myndi skila mér. Það var nóg að gera í lok Nóvember hjá okkur í Dunedin að ganga frá öllu í leiguhúsnæðinu sem ég bjó í með Mikka og Rosie. Rosie hafði náð að klára prófin og var að bíða eftir að meðgöngunni lyki...1.desember fæddist svo Finnbogi litli og þá var allt klárt fyrir þau Mikka og Rosie til að flytja aftur til Christchurch líka. Þau eru búin að finna sér hús til að leigja í Christchurch en fá það ekki afhent strax og búa því hjá okkur í Lyttelton til að byrja með. Veðrið leikur við okkur, enda að koma hásumar og krakkarnir njóta þess að leika sér í garðinum og hafa yfirumsjón með dýrunum.
Þessir 6 mánuðir í Dunedin voru síðustu 6 mánuðirnir í minni þjálfun og í upphafi desember var ég því búinn að fá skráningu sem sérfræðingur í Bráðalækningum hér á Nýja Sjálandi og hef sótt um stöðu sem sérfræðingur á bráðamóttökunni í Christchurch og fer í viðtal seinna í mánuðinum.

Afmæli Svövu og vitnisburður MS ritgerðar





Það er svo gaman hvað krakkarnir eru alltaf spennt fyrir því að gera mikið úr öllum hátíðisdögum. Það voru tveir stórir dagar hjá Svövu þennan Nóvember mánuð. Hún fékk til baka vitnisburðinn fyrir Ms Ritgerðina sína sem var að sjálfsögðu mjög góður...ég vissi það alltaf en Svava hafði e-ar efasemdir. Við héldum upp á þennan áfanga með veislumáltíð og Svava opnaði m.a. pakka frá mömmu sinni og pabba, sem í leyndist hin heilaga ,,Helga". Matreiðslubók sem Svava var búin að vera bíða eftir að fá frá því hún giftist mér. Loksins erum við komin með allar upplýsingar um hvernig á að búa til þorramat og svo hefðbundinn íslenskan heimamat. Seinna í mánuðinum átti Svava svo afmæli og krakkarnir útbjuggu pakka fyrir mömmu sína og hjálpuðu við að baka súkkulaðikökur í skordýramótinu okkar.

Framkvæmdir í garðinum Nóv 2009



Við ákváðum að nota afgangstimbrið frá gamla pallinum til að smíða hús í garðinum fyrir krakkana að leika sér í. Þau tóku mikinn þátt í að bæði smíða húsið og svo hjálpuðust allir að við að mála það, og kom Maddie, vinkona Birnu Lífar úr næsta húsi og Hugo vinur Árna Kristins til að taka til hendinni líka.

Sögupersónu-dagur í skólanum Nóv 2009




Það er árlega haldinn dagur í skólanum hjá Birnu Lif þar sem allir koma klæddir eins og uppáhalds sögupersóna í skólann. Birna Líf klæddi sig í Línu Langsokk búninginn sinn og Árni Kristinn vildi taka þátt líka og klæddi sig í riddarabúninginn sinn. Birna Líf vann verðlaun fyrir sinn búning og var tekinn mynd af henni sem birtist svo í bæjarblaðinu. Svo set ég inn eina mynd af þeim þar sem þau eru kominn í kokkabúningana sína.

mánudagur, ágúst 16, 2010

Hallowen Okt 2009





Eins og venjulega þá er mikið fjör á Halloween hér í Lyttelton. Mikill fjöldi krakka klæða sig í búninga og berja á dyr. Í einni götu fyrir ofan okkar er gömul kona sem klæðir sig upp í nornabúning og yngstu krakkarnir eru svolítið smeykir við að heimsækja hana. Í þetta sinn kom Hugo vinur hans Árna Kristins með að sníkja nammi og uppskeran var ekki rýr í ár. Í kvöldmatinn var svo Halloween Pizza. Læt lík fylgja með eina mynd af Birnu Líf og Árna Kristni þar sem þau höfðu hlutverka...eða a.m.k. fataskipti. Og svo tók Svava þátt í sinni fyrstu þríþrautarkeppni og hafði rosalega gaman af því.

Skólafrí sept-okt 2009






Ég var að vinna seinni helming ársins niðri í Dunedin. Ég átti inni frí sem ég gat tekið í skólafríi krakkana og komu þau því að heimsækja mig til Dunedin og við fórum svo í ferðalag um syðsta part suðureyjarinnar ásamt Magnúsi, Þórhildi og krökkum og svo Mikka og Rosie líka. Við fórum fyrst suður til ,,The Catlins" sem er veðurbarinn suðaustur hluti eyjarinnar. Það var mjög skemmtilegt að vera fyrstu dagan í sumarbústað í góðum félagsskap, sem var ekki verra þar sem rokið vantaði ekki. það var magnað að keyra eftir þessari strandlengju sem er með mikið af ósnertum upprunalegum skóg Nýja Sjálands, sér í lagi nærri ströndinni þar sem tréin nánast uxu á ská með ríkjandi vindátt. Á einum stað er hægt að skoða steingerðar leifar af skóg þar sem skógarrjóðrið hafði endað á hafsbotni undir þrýsting og leifarnar steingerfst.
Eftir Catlins þá keyrðum við til Invercargill og svo þaðan áfram til Te Anau. Þar eyddum við nokkrum dögum í rólegheitum og fórum m.a. á kajak með krakkana og í hellaskoðun í helli sem hafði í einni hvelfingunni þúsundir glóorma. Við keyrðum svo áfram til Dunedin aftur og skoðuðum okkur um þar og sáum þar sæljón, skoðuðum sædýrasafnið svo e-ð sé nefnt.

Birna Líf útskrifast úr ,,junior programmi" sept 09


Birna Líf er búin að vera í tónlistarskóla frá því hún var 3ja ára. Fyrst í Beebopper og svo í píanókennslu. Henni hefur gengið mjög vel og er núna að útskrifast úr junior yfir í ,,intermediate" prógrammið í skólanum. Sem betur fer heldur Svava enn í við hana, en ég er löngu búinn að missa af henni en get huggað mig við að ég fæ annað tækifæri til að útskrifast úr ,,junior" þegar kemur að Árna Kristna eftir 2 ár!