þriðjudagur, júní 05, 2007

Birna Líf 5 áraLitla barnið okkar er komið í skóla.....hún er orðinn 5 ára. Loksins, loksins, hún er búin að vera að bíða eftir þessu í 2 ár eða svo. Þegar hún vaknaði á afmælisdaginn þá sagði hún við mig ,,sjáðu pabbi, hvað fæturnir á mér eru orðnir langir. Nú er ég orðinn 5 ára og ég get farið sjálf á monkey bars" (handsala sig hangandi eftir klifurgrindinni). Hún var samt orðinn svolítið ringluð með þetta hringl á afmælisdeginum sínum þar sem hún er búin að fara í 2 skipti í heimsókn í skólann sinn, afmælisveisla var haldin á leikskólanum á föstudaginn og svo héldum við upp á afmælið hennar í gær. Hún vaknaði klukkan rúmlega 7 um morguninn og við báðum hana að vera í rúminu sínu á meðan við undirbyggjum morgunmatinn. Hún fékk svo vöfflur með rjóma og sultu og var ósköp sæl með það. Í afmælisgjöf fékk hún frá okkur þvílíkan prinsessukjól, enda hefur það verið það eina sem við höfum fengið upp úr henni að hún vilji í afmælisgjöf sama hverju öðru við stungum upp á.....ég vil fá gulan kjól!


Hún hjálpaði svo við að klára að skreyta afmæliskökuna sína og svo héldum við upp á afmælið á stað sem heitir cheeky monkeys og vakti það enga smálukku hjá krökkunum. Allir fengu búninga til að klæða sig í og á staðnum var sjóræningjaskip með fjársjóð í lestinni, hoppukastali, prinsessukastali og á efri hæðinni var krakkadiskótek með sápukúluvél. Þetta lukkaðist alveg fjarskalega vel og Birna Líf og Árni Kristinn voru hæstánægð með partýið.....og við líka þar sem það var ekkert uppvask eða tiltekt, híhí.


Að lokum ein smásaga frá 2. heimsókn Birnu Lífar í skólann sinn. Í frímínútunum hitti hún vinkonu sína Sammy, sem hafði verið með henni á leikskólanum. Þær léku sér saman og svo ákváðu þær að það væri best að Birna Líf kæmi bara með henni í skólastofu. Það varð því uppi fótur og fit þegar Birna Líf skilaði sér ekki í skólastofuna eftir frímínútur en þær skildu ósköp lítið í þessu upphlaupi. Birna Líf ætlar þó framvegis að vera í sinni skólastofu....


Maraþonið.....búið

Jæja þá er loksins öllum þessum hlaupum lokið.....a.m.k. í bili. Undirbúningurinn fyrir maraþonið hefur verið löppunum á okkur Svövu erfiður og Svava hefur átt við hnjávandamál að stríða og ökklarnir hafa verið að stríða mér. Það er líklega að einhverju leyti tengt því að við höfum mest verið að hlaupa í hæðunum hér í kringum Lyttelton. Við fengum hins vegar góð ráð frá Svani hvernig ætti að teipa hnén á Svövu og svo var hún líka með hitahlífar á báðum hnjám í hlaupinu. Þetta virkaði nógu vel til að hún náði að klára hálfmaraþonið (þrátt fyrir engin hlaup s.l. 4 vikur) og var á tæpum 2.28 klst. Ég var búinn að hvíla s.l. 2 vikur vegna slæmsku í ökklunum sem voru næstum orðnir fínir í hlaupinu. Ég náði að klára mitt fyrsta maraþon....jibbbííiii á tæpum 5 klst...uhummm. Fyrri helmingurinn var í lagi á 2:07 en seinni helmingurinn, og þá sér í lagi síðustu 5-10 km voru orðnir ansi hægir og ég er ekki frá því að þetta sé það langsársaukafyllsta sem ég hef gert sjálfviljugur fram að þessu. Þegar ég var að koma í mark þá kom Birna Líf hlaupandi á móti mér og við hlupum svo saman yfir marklínuna hönd í hönd.
Þessir fyrstu dagar eftir hlaupið eru hálfkindugir og ég er ansi hræddur um að þið mynduð öll brosa út í annað ef þið myndið sjá hvernig við berum okkur.....við getum eiginlega bara gengið á jafnsléttu þessa dagana og þá mjög hægt og að ætla að beygja sig eftir einhverju eða að hlaupa á eftir börnunum okkar, djísus maður.
Ég reyni að setja inn mynd við fyrsta tækifæri af atburðinum.

Árni KristinnNú er Árni Kristinn rúmlega 1 og hálfs árs gamall og farinn að taka sér ýmislegt fyrir hendur. Honum líkar mjög vel á leikskólanum og sendir öllum fóstrunum fingurkoss þegar hann kveður þær í lok dagsins. Það er almennt talað um að hann sé mikill matmaður og ekki laust við að gæti mikillar óþreyju hjá honum við matarborðið þegar verið er að setja á diskinn hjá honum og er hann þá eins og ekta Ítali baðandi út öllum öngum til að koma okkur í skilning um að það liggi á þessu. Svo tekur hann til við að skófla þessu upp í sig og þegar við ætlum að fara að stinga fyrsta bitanum upp í okkur þá kemur diskurinn fljúgandi í átt til okkar.....ég vil fá ábót takk. Svo þegar hann er aðeins að mettast þá tekur hann upp á því að fara að skála við okkur svona 20-30 sinnum það sem eftir lifir borðhalds. Hann lyftir þá glasinu upp og setur það ofan kollinn á sér og segir ,,kál" og Birna Líf er alltaf til í að skála við hann.

Hann er alltaf að tala meira og meira og er það ýmist á ensku eða íslensku sem orðin koma út úr honum. Honum finnst fátt skemmtilegra en að fara á leikvöllinn og við þurfum að fylgja honum fast eftir þar sem hann er ægilegur ofurhugi, enda vill hann alltaf fara á eftir systir sinni í öll tækin og virðist álíta að fyrst hún geti eitthvað, þá get ég það líka!

Eitt af því skemmtilegasta sem hann veit er að gefa hænunum, þegar ég spyr hvort hann vilji gefa ga-ga þá endasendist hann eftir stígvélunum sínum og við löbbum svo með matarafgangana okkar út í búr og hann er alltaf jafnægilega spenntur að sjá fiðurféið.