þriðjudagur, desember 28, 2010

Amma og Afi koma
Krakkarnir eru búnir að telja niður dagana þar til Amma og Afi koma í heimsókn frá því þeir voru 60. Árni Kristinn er líka harðákveðinn í að um leið og amma og afi koma, þá séu ekki nema 2 dagar til jóla. Það var því mikil eftirvænting þegar við fórum út á flugvöll að ná í þau. Krakkarnir fengu frí í skólanum og svo lögðum við í hann. Við fundum út að fluginu hafði seinkað um nokkrar mínútur og fórum því upp á þak að sjá þegar flugvélin kæmi inn til lendingar. Svo sáum við að ein vélin fór að réttu hliði eftir lendingu og hlupum niður til að taka á móti þeim og urðu þá miklir fagnaðarfundir. Við keyrðum svo til Lyttelton þar sem Svava og Sólný Inga biðu og Amma og afi fengu að sjá nýjasta barnabarnið. Flugið gekk mjög vel hjá þeim og það var ekkert mál fyrir þau að halda sér vakandi fram til 9 um kvöldið. Þau vöknuðu náttúrulega snemma næsta morgun þegar Birna Líf og Árni Kristinn smeygðu sér upp í til þeirra í fyrsta af mörgum skiptum næstu vikurnar.

Fyrstu dagarnir
Fyrsta vikan heima með Sólnýju Ingu gekk nokkuð vel, hún er dugleg að drekka og verður fljót að losna við þessa smá nýburagulu sem hún er með. Krakkarnir eru þvílíkt montnir af litlu systur sinni og vilja taka hana með í skólann fyrir ,,news''. Svefninn hefur verið allt í lagi, hún vaknar á 2-3 tíma fresti til að drekka á nóttunni. Henni finnst gott að fara í bað en er ekki eins ánægð að koma úr baðinu, enn betra virðist henni þó finnast að fara í sturtu með manni. Eitt einstakt við Sólnýju er að hún hefur frá degi eitt virst vera að syngja, þegar hún andar frá sér, þá kemur sönglandi hljóð. Ósköp sætt. Fólk hefur sagt að hún líkist mér, Hilmari, en það var eins með hin börnin og hefur svo lagast.
Birna Líf er ósköp móðurleg við hana og vill allt fyrir hana gera, hún er dugleg að syngja fyrir hana og hefur komist að því að Edelweiss lagið er uppáhaldið hennar.
Árni Kristinn vill alltaf hjálpa við bleyjuskiptin, enda búin að æfa sig á dúkku, og finnst það ekkert mál. Okkur hefur nú tekist að einskorða það við pissubleyjur en hann vill ólmur skipta á öllum bleyjum!

laugardagur, nóvember 27, 2010

Lítil Stelpa fædd
Klukkan 14:23 þann 27. nóvember 2010 fæddist lítil stelpa. Hún vóg 3765 grömm og var 51 cm að lengd. Fæðingin gekk áfallalaust og hún kom heim 3 tíma gömul. Þær eru báðar hetjur hún og Svava. Krakkarnir voru í pössun hjá Maríu en eru mjög spennt að fá að hitta hana.
Í morgun þegar við vöktum krakkana til að láta þau vita að við værum að fara á spítalann þá var mjög gaman að fylgjast með þeim. Birna Líf var með augun rétt hálfopin en þegar hún heyrði fréttirnar þá hélt ég að að augnlokin myndu rifna af og hún skaust fram úr rúminu alveg að farast úr spenningi. Ég tók svo Árna Kristinn fram úr rúminu og hann byrjaði að segja.....push, push, push lágt í byrjun og svo hærra og hærra og á endanum öskraði hann push og svo baby is here, alveg eins og í bók sem hann hefur lesið.
Eftir að stelpan fæddist svo hringdi ég í Maríu og fékk að tala við Birnu Líf sem var yfir sig spennt en var ekki hissa á því að þetta væri stelpa, enda hafi hana dreymt það fyrir. Árni Kristinn sagðist alveg vita að það væri fædd stelpa en hann hefði nóg að gera og hvort ég gæti ekki hætt að trufla hann.
En þetta var yndislegur dagur og litla stúlkan, Sólný Inga, stendur sig eins og hetja og við erum himinlifandi að vera kominn heim með litlu prinsessuna.

föstudagur, nóvember 26, 2010

Meðganga

Það er allt tilbúið hérna hjá okkur fyrir barnið en það fer greinilega ljómandi vel um það hjá mömmu sinni og neitar ennþá að koma út. Við fylgjum náttúrulega öllum góðum ráðleggingum til að reyna að koma hlutunum af stað, m.a. hoppa á trampólíni og fara í fjallgöngur daglega eins og má sjá á myndunum en það hefur ekki virkað hingað til. Í dag á Svava afmæli og við vöktum hana með afmælissöngnum og vorum með súkkulaðiköku, vöfflur og fleira finerí með því. Krakkarnir voru mjög spenntir og hjálpuðu við að baka kökuna. Það gekk heldur illa að stjórna þeim og ég rétt snéri mér við til að ná í þeytarann og þá voru þau búin að brjóta eggin ofan í hveitið og byrjuð að drullumalla því saman brosandi út að eyrum. Á endanum varð samt til hin gómsætasta súkkulaðiterta. Í morgun stóð Árni Kristinn sig líka mjög vel að þeyta sykurinn...saman við sykurinn og út um allt, en á endanum urðu nú líka til vöfflur. Við vorum að vonast eftir tvöföldum afmælisdegi....það eru enn eftir 15 tímar þannig að við sjáum hvað setur.

Nokkrar nóvember myndir

Það er búið að vera alveg indælt veður í nóvember hjá okkur og nóg um að vera í skólanum hjá krökkunum og svo er líka Halloween nýbúið hérna og við gengum að sjálfsögðu í hús að sníkja nammi. Við vorum frekar snemma á ferðinni þannig að krakkarnir voru ekki lengi að fylla pokana sína....þetta var svo mikið að það á eftir að duga sem laugardagsnammi út árið sennilega! Krakkarnir eru uppátækjasöm að vanda og það nýjasta hjá Birnu Líf er að mála Árna Kristinn, um daginn málaði hún hann eins og Avatar Ang, úr einum uppáhaldsteiknimyndaþættinum þeirra og svo í gær þegar þau voru úti á palli að mála þá skreytti hún hann aftur þegar pappírinn var uppurinn.

sunnudagur, október 03, 2010

Greymouth Október 2010Það er skólafrí og við fórum í nokkra á Vesturströndina þar sem ég tek líka nokkrar aukavaktir. Krakkarnir eru búnir að vera dugleg að æfa sig á hjólunum sínum og Árni Kristinn er alveg laus við hjálpardekkin.....enda er hann orðinn svo stór strákur og minnir okkur reglulega á að það sé langt frá því hann var í leikskóla. Við höfum farið á ströndina hérna og svo fórum við í bíltúr í gær til Punakaiki eða pönnukökukletta sem eru norður af Greymouth. Það er best að fara þangað þegar það er stórstraumur og helst slæmt veður líka þannig að öldurnar fari undir klettana og spýtast upp í gegnum holur í berginu, en við erum því miður alltaf svo heppin með veður í hina áttina!

Þorrablót
Laugardaginn 25 sept héldum við veglegt Þorrablót. Allir Íslendingarnir í Christchurch lögðu sig fram í að útbúa sem mest af þorramat. Það sem var á boðstólum var m.a. Svið, rúgbrauð, síld, skata, hákarl, harðfiskur, blóðmör, lifrarpylsa, hangilæri, flatkökur með hangikjöti, uppstúfur, rófustappa, kæfa, kleinur, ástarpungar, graflax og svo að sjálfsögðu allt brennivínið sem var til á lager hjá hverjum og einum. Ein hjúkkan á Bráðamóttökunni, Nikki, bauðst til að hýsa herlegheitin og húsið hennar var alveg tilvalið fyrir veisluna. Stærsta herbergið var tæmt og við settum upp borð og bekki svo hægt væri að koma 50 boðsgestum fyrir um kvöldið.
Veislan byrjaði nokkuð fjörlega, en um áttaleytið um kvöldið, þegar fólk var byrjað að týnast inn komu 2 ansi snarpir jarðskjálftar (þeir voru í kringum 4 og greinilegt að maður finnur mun meira fyrir þeim á sléttunni en í Lyttelton) svona til að hrista fólk aðeins saman. Borðhaldið hófst um 9 leytið um kveldið og flestir Kiwiarnir létu sig nú hafa að smakka flest. Enginn komst undan því að fá hákarl og brennivín en sennilega sniðgengu margir sviðahausana.
Allir höfðu klætt sig upp í víkingabúninga og söngheftin sem Ásdís útbjó fyrir fyrsta þorrablótið sem var haldið 2006 voru dregin fram og hver söng með sínu nefi og Hera leiddi sönginn og spilaði undir á gítar. Þegar við vorum búin að syngja, drekka og borða vel þá var skorað á fólk af öðru þjóðerni að toppa íslenska sönginn. Stuttu eftir það heyrðist hávært spil af sekkjapípum og Roddy Campbell (einn af læknunum á BMT) gekk inn og spilaði skoskt þjóðlag af mikilli snilld. Hann leyfði svo öllum af prófa pípurnar líka og gekk mönnum misvel að koma út svo mikið sem einum tóni. Það var helst að Heiðar gæti spilað svolítið. Við yfirgáfum svo teitið um miðnætti en fréttum að eftir að við fórum hafi víkingapartýið breyst í potta- og sundpartý fram eftir nóttu og allir skemmtu sér gríðarvel.

miðvikudagur, september 22, 2010

SláturÞað er dúndurgangur í undirbúningi fyrir árstíðavillt Þorrablót hér í Christchurch. Það er búið að skipta verkum á meðal Íslendingana hér úti og það sem er m.a. í burðarliðnum er kæst Skata, síld, hákarl, harðfiskur, kleinur, ástarpungar, lifrarkæfa, flatkökur, pönnukökur, hangiket, uppstúfur, rófustappa, svið og í gær komum við svo öll saman heima hjá Maríu og Berg og tókum slátur! Flestir voru held ég að þreyta frumraun sína í að sauma keppina en það gekk allt framar vonum og voru teknir 30 lifrarpylsukeppir og 10 blóðmör og búið að smakka fyrstu suðu og bragðast alveg hreint ljómandi.

Kórtónleikar

Við fórum á kórtónleika hjá Birnu Líf á þriðjudaginn sem var mjög skemmtilegt. Birna Líf er í kór í Christchurch School of Music sem er til húsa í gamalli og fallegri byggingu. Við getum ekki alveg sagt að okkur finnist við vera algerlega óhult þegar við erum þarna inni og tókum nú eftir óþægilega mörgum sprungum þegar við vorum á leiðinni út aftur. En tónleikarnir voru mjög skemmtilegir og Birna Líf hefur greinilega mjög gaman af því að vera í þessu kórstússi. Læt fylgja með eitt video af tónleikunum.

sunnudagur, september 19, 2010

Afmælisveisla Árna Kristins

Við héldum upp á afmælið hans Árna Kristins í blíðskaparveðri í dag. Allir vinir hans komu og var aldeilis mikið fjör. Við leigðum hoppukastala fyrir daginn sem passaði í garðinn hjá okkur með herkjum (þurfti aðeins að grisja trjágreinarnar). Svava bakaði þvílíka snilldar súkkulaðiköku sem Árni Kristinn hafði valið sér úr afmæliskökubókinni okkar. Kastalinn kom til okkar klukkan 11 um morguninn og má segja að krakkarnir hafi verið að hoppa í honum stöðugt fram til 1600 þegar hann var tekinn niður. Smáhlé til að borða og blása á kertin. Árni Kristinn fékk fullt af Ben 10 dóti, m.a. Ben 10 úr sem er með ljósi og hann er með uppi í rúmi eins og er að lýsa upp í loftið, ekki ólíklegt að héðan í fra verði ekki hægt að fara nokkuð án þess að vita hvar úrið er. Eina vandamálið við þennan hoppukastala var það að þegar foreldrarnir komu aftur að ná í krakkana sína þá gekk vægast sagt erfiðlega að ná þeim út í bíl. Árni Kristinn virtist í það minnsta afskaplega lukkulegur með daginn.

Árni Kristinn 5 ára

Árni Kristinn er orðinn 5 ára og að byrja í skóla. Hann og Birna Líf eru búin að hlakka mikið til afmælisdagsins af því að þá löbbum við öll niður brekkuna og í skólann. Árni Kristinn var búinn að fara í eina skólaheimsókn, en hinar 2 sem hann átti að fara í féllu niður þar sem skólinn var lokaður eftir jarðskjálftann. Það var búið að baka súkkulaðiköku og skreyta allt í eldhúsinu og svo vöktum við Árna Kristinn með afmælissöngnum. Það var því veislu morgunmatur með súkkulaðiköku fyrir fyrsta skóladaginn....ekki amalegt það. Hann fékk svo fullt af pökkum, m.a. Spidermanbúning, legodót og fjarstýrðan bíl. Hann er ekki lítið montinn með að vera orðinn skólastrákur og sagði við mömmu sína.....,,þú verður að kaupa handa mér ný föt" þar sem hann vill ekki lengur vera í fötum með merkimiða sem segja 4ra ára.
Það gekk bara vel fyrsta skóladaginn og hann var lukkulegur með daginn. Hann var bara stutt fyrsta daginn og fór líka í Montessori leikskólann þar sem hann var kvaddur með pompi og prakt. Afmælisveislan verður svo haldinn á sunnudaginn kemur.

föstudagur, september 10, 2010

Jarðskjálfti í Christchurch


Laugardaginn Þann 4 september 2010 voum við fjölskyldan vakin við óþyrmilegan jarðskjálfta sem reyndist vera 7.1 á Richter. Ég hafði verið búin að vera með krakkana ein frá því á þriðjudeginum því Hilmar hafði farið til Melbourne á ráðstefnu og hafði ákveðið að fluga tilbaka um leið og henni lauk en var því ekki komin heim fyrr en um hálf tvö aðfara nótt laugardagsins. Hilmar var því aðeins búin að vera heima í 3 klst þegar kl 04:35 við hrukkum upp við snarppan hristing. Ég hentist fram úr rúminu eins og hægt er komin 7 mánuði á leið, og flýtti mér eins hratt og hægt var á eftir Hilmari sem hafði stokkið fram úr og inn í svefnherbergi krakkanna.Það var algert niðamyrkur þar sem rafmagnið var farið og því engin götuljós eða ljós í húsinu og hristingurinn gerði það að verkum að erfitt var að feta sig áfram í myrkrinu. Hilmar stóð hjá krökkunum sem sváfu í kojunum og reyndi að róa þau. Á meðan ég stóð í dyragættinni og beið eftir að Hilmar kæmist með þau til mín í dyragættina. Allt í kringum okkur hristist og skalf og innan úr eldhúsi mátti heyra þegar glös og diskar hrundu í gólfið og brotnuðu, bókahillur hristust og úr þeim allt sem dottið gat. Loks koms kom stutt pása eftir að því virtist endalausann tíma og Hilmar gat lyft krökkunum úr kojunum og komið með þau inn í dyragættina. Strax á eftir þá byrjuðu eftirskjálftarnir sem voru töluvert sterkir og við stóðum eins og negld í dyragættinni og reyndum eftir fremsta megni að vera róleg og vonuðum að húsið okkar, sem stendur upp fjallshlíð færi ekki af stað niður hlíðina. Eftir um það bil 20 mínutur ákvaðum við að við værum best sett fram í anddyri þar sem ekkert gat hrunið á okkur þar. Nú hefði komið sér vel að vera búin að útbúa einhverskonar neyðarpakka með luktum, batteríum og útvarpi , en það var nú eitt af því sem við vorum alltaf að fresta og gerðist aldrei. En ljós vildum við fá og Hilmar klæddi sig í skó, til þess að skera sig ekki á glerbrotum við að leita að vasaljósi eða kertum. Svo heppilega vildi til að Árni Kristinn hafði verið að leika sér með vasaljós í rúminu sínu um kvöldið áður þegar hann var að fara að sofa og fann Hilmar vasaljósið eftir stutta leit í rúminu hans. Ljósið var töluvert dauft en nothæft samt og Hilmar fór inn í eldhús að leita að kertum og eldspýtum.. Eftir stutta leit inn í eldhúsi fann hann eldspýtur og kerti og var mikil léttir að geta séð í kring um sig. Ég gat teygt mig inn í herbergið til krakkanna í úlpurnar þeirra og klæddi þau í til þess að halda á þeim hita því þau voru auðvitað hrædd og skulfu af kulda, þreytu og hræðslu. Þegar búið var að finna kertin gátum við farið að leita að vasaljósum og líta betur í kring um okkur. Fljótlega fundum við höfuðljós og gátum þá farið að skoða í kring um okkur en enn var töluvert um eftirskjálfta þannig að við fórum ekki langt. Ég bjó um krakkanna í dyragættinni með sængum og koddum úr rumunum þeirra á meðan við Hilmar skipulögðum hvað við ættum að gera næst. Við ákváðum að finna öll útivistafötin okkar og útbúa matarkassa og safna vatni ef hægt væri til þess að búa okkur undir það versta. Fyrst ákváðum við að best væri að athuga með nágrannana okkar sem eru eldri hjón á níræðisaldri og vera viss um að allt væri í lagi hjá þeim. Hilmar mætti síðan Sam , nágranna okkar sem býr fyrir ofan okkur í hlíðinni en hann var einmitt að koma og athuga með okkur af því hann hélt að Hilmar væri enn í burtu, en það er gott að vita til þess að eiga svona góða nágranna. Annað sem var merkilegt er að skömmu eftir að stóra skjálftanum lauk var töluverð umferð upp í fjall því fólk var hrætt um að nú myndi fylgja Tsunami, sem var ekki.

En semsagt í dyragættunum og anddyrinu hímdum við í nokkrar klst og þar sem engin gat sofnað aftur ákváðum við að byrja bara daginn og fengum okkur morgunumat á gólfinu í anddyrinu. Eftir skjálftann reyndum við að hafa samband heim til Íslands en náðum ekki í gegn en fengum txt frá Michelle í USA sem hafði þá strax heyrt af jarðskjálftanum. Hún gat svo haft samband heim til Íslands fyrir okkur í gegnum Ásdísi. En við vorum ekki enn búin að útvega okkur batteri í útvarpstæki og um kl 07 ákváðum við að athuga hvort einhver væri búin að opna niður í Lyttelton bænum. Hilmar fór niður í bæ og var þegar komin röð þar sem fólk var að kaupa upp allt sem hægt var til þess að byrgja sig upp, sér í lagi brauð, mjólk og batterý. Hilmar fékk sem betur fer batterí í útvarpið og við fengum fréttir af hamförunum og gátum heyrt tilkynningar frá almannavörnum.

Um kl átta ákváðum við að eftirskjálftarnir hefðu minnkað nógu mikið til þess að við gætum fært okkur inn í stofu og lagt krakkana í stofusófana. Við fórum yfir það með krökkunum hvað ætti að gera ef annar skjálfti kæmi, þá ættu þau að hlaupa fram í anddyri eða undir stofuborðið. En Árni Kristinn var alls ekki tilbúin að samþykkja að stóri skjáfltinn hefði verið jarðskjálfti af því að eins og hann sagði ,, við fórum ekki einu sinni undir borð eins og kennarinn minn sagði að ætti að gera'' og fyrst að við fórum ekki undir borð var enginn jarðskjálfti. En krakkarnir höfðu næg tækifæri á að henda sér undir borð það sem eftir lifði dags þar sem skjálftarnir héldu áfram að koma. Við fengum svo aftur rafmagn um kaffileytið sem var mikil léttir. Við vorum þó vel sett með kamínu til að hita húsið og gas til að sjóða vatn. Við fórum vel út úr þessum skjálfta en margir hér í Christchurch hafa misst hús og innbú. Miðbær Christchurch hefur farið einna verst út úr skjálftanum og er stór hluti af húsunum þar í rúst eða svo illa farin að rífa þarf þau af öryggisástæðum. Kaiapoi er annað hverfi sem hefur farið illa út úr skjálftanum og stóran hluta heimila þar þarf að rífa. Flest húsin hér í Lyttelton hafa farið vel út úr skjálftanum. Einna helst er um að ræða að skorsteinar hafi losnað eða hrunið og sögulegar gamlar byggingar í miðbænum hafa skemmst . Næstu tveir sólahringar hafa síðan verið litaðir af reglulegum eftirskjálftum stórum og smáum og vakið okkur nokkrum sinnum hverja nótt. Á þriðjudagsmorgni kom svo töluvert snarpur skjálfti 5,1 sem átti upptök sín hér rétt fyrir utan Lyttelton. Þetta hristi upp í fólki þar sem flestir voru farnir að vona að þessu færi að ljúka. Nú eru liðnir sex dagar og síðasta nóttin var sú fyrsta sem við sváfum án þess að vakna upp við jarðskjálfta. Við erum nú farin að vona að þessu sé að ljúka. Krakkarnir eiga að fara í skólann á mánudaginn þannig að lífið er nú smám saman að komast í samt lag.

Steggjapartí

Febrúar 2010, Mikki og Rosie eru að fara að giftast og því fylgir að sjálfsögðu steggjapartý fyrir Mikka. Ég, Bergur, Einar, Stulli, Jón Magnús og Oddur höfðum skipulagt skemmtilegan dag, við höfðum leigt skútu sem fór með okkur út frá Lyttelton Höfninni, vorum með nóg af bjór og skipperinn gaf okkur svo góðan rommsopa líka. Mikki fékk að reyna sig í koddaslag við okkur alla....og endaði jafnoft í sjónum. Eftir koddaslaginn, snorkluðum við eftir Paua skeljum sem voru grillaðir með hvítlaukssmjöri um borð í skútunni og runnu ljúft niður í fransbrauðs-samloku. Eftir bátssiglinguna eyddum við svo nóttinni í sumarhúsi í Purau þar sem eitt af því síðasta sem við gerðum var að vaða langt út í sjó í tunglskininu. Mjög skemmtileg og vel lukkuð steggjun.

Rækjuveiðar
Eitt af því merkilegra sem við gerðum á Norður-eynni í þessu ferðalagi var að stoppa við norðurenda Taupo vatns. Þar eru þeir með rækjueldi á risarækju. Þegar við vorum að keyra fram hjá þá sáum við skilti sem auglýsti veiðileyfi á rækjunum.....þetta urðum við að sjá. Við fengum leigðar 4 bambus-stangir með smá girni á endanum og litlum öngli. Svo fengum við niðurskorið uxahjarta sem beitu. Svo hófst veiðin, við vorum með nesti og nutum þess að sitja í góða veðrinu og biðum þess að það yrði bitið á.....sem gerðist eftir nokkra bið. Fyrst ná rækjurnar sér í beituna og svo sér maður girnið færast þegar rækja er að fara með bitann ,,heim''. Þar stoppar hún og þá á að lyfta stönginni varlega upp og voilla.....risarækja á endanum, spriklandi af öllum lífs og sálarkröftum. Árna Kristni leist nú ekki á blikuna og skaust í burtu í hendingskasti og kom svo aftur eftir smástund að skoða rækjuna þegar hún var komin í örugga fjarlægð í fötunni. Við veiddum á endanum 4 rækjur.....kostnaður var 50 dollarar eða 12.50 per rækju, en þær voru þó ágætar á bragðið

Rotorua
Eftir frábær áramót með Kelvin og fjölskyldu þá keyrðum við aftur tilbaka til Hawera með viðkomu á hverasvæðinu Rotorua. Það fyrsta sem við fundum þegar við keyrðum inn á svæðið var að sjálfsögðu hveralyktin......svolítið eins og að vera kominn heim til Íslands aftur. Þegar við spurðum krakkana hvort þau fyndu ekki góðu lyktina þá héldu þau reyndar að einhver hefði bara leyst vind! Við fórum og skoðuðum Maori þorp sem hafði grafist eftir gos, svipað og Pompei á Ítalíu, það var mjög áhugavert að skoða sig um þar. Eftir það fórum við um stórt hverasvæði sem var mjög flott, mismunandi lit vötn og ýmisskonar setlagsmyndanir. Það var merkilegt að sjá hvað Nýsjálendingar eru búnir að skipuleggja þjónustuna vel í kringum hverasvæðin með gangstígum og öryggisgirðingum. Eflaust gætu Íslendingar lært mikið af þeim í þessum efnum, en við vorum samt sammála um að það væri meira gaman að skoða þetta heima á Íslandi og þurfa ekki að vera að borga morð fjár fyrir að skoða svona náttúrugersemar

Ein mynd fyrir Sibba


Við sáum þessa mynd á leiðinni til Waihi beach og urðum að setja hana á netið fyrir Sibba sem er mikill Chuck Norris aðdáandi.

Áramót

Við ákváðum að eyða áramótunum á Waihi Beach með Kelvin, Wendy, Damon og Jared. Foreldrar Wendy eiga sumarbústað þar og þau buðu okkur að tjalda í garðinum hjá þeim yfir áramótin. Við keyrðum því alla leið frá Hawera til Waihi Beach á gamlársdag. Þetta tók náttúrulega allan daginn en krakkarnir stóðu sig furðuvel í þessari langferð eftir bugðóttum vegunum. Læt kort af leiðinni fylgja með til gamans.
Við Svava fórum svo á áramótatónleika með Dave Dobbyn, sem er einskonar Bubbi Nýja Sjálands, og voru það frábærir tónleikar. Á nýjársmorgun eru svo alltaf strandkeppni í boði strandvarðafélagsins á staðnum (Pabbi Wendyar hefur verið yfir því um árabil). Það er keppt í öllum aldursflokkum krakka og svo flokkum feðra/mæðra/ömmu/afa. Það er hlaupið á ströndinni og reynt að ná í annað hvort appelsínu eða kókoshnetu. Þetta var mjög gaman og yfirvegað hjá krökkunum. Ég tók að sjálfsögðu þátt í pabbahlaupinu og keppnisandinn þar var eins og á landsleik milli All Blacks og Wallabees. Ég reyndi að ná smáforskoti á 2 rumi sem voru sitt hvorum megin við mig og skutlaði mér á fyrstu kókoshnetuna, en fékk olnboga frá vinstri og svo hné frá hægri og kuðlaðist upp í sandinum. Ég spratt náttúrulega á fætur og stökk á einn pabbann sem lá yfir kókoshnetu sem hann hafði náð, ég náði að bora höndunum undir hann og ætlaði að fara að rífa hana af honum......en einhverra hluta vegna þá náði skynsemin yfirhöndum og ég fattaði aftur að þetta var víst allt í gamni gert......krakkarnir voru hins vegar sárir yfir þeirrri illu meðferð sem ég fékk. Birna Líf og Árni Kristinn kepptu að sjálfsögðu í sínum hópum í hlaupinu og Birna Líf tók líka þátt í keppni að hlaupa út fyrir bauju í sjónum og þótti mjög gaman. Við eyddum svo öllum deginum á ströndinni og þetta var tvímælalaust einn sá allra skemmtilegasti nýársdagur sem við höfum upplifað.

Tongariro National Park
Á milli jóla og nýárs fórum við til Tongariro National park þar sem er mikið af góðum gönguleiðum og eitt besta skíðasvæði þeirra hér á Norðureynni. Við fórum m.a. upp að skíðasvæðinu og gengum upp fjallið þar til krakkarnir komust í svolítinn snjóskafl til að leika sér...þeir urðu nú ekki stórir snjókarlarnir, kannski bara snjóálfar! Eftir fjallgöngun fórum við svo í 3 tíma göngu þar sem krakkarnir stóðu sig alveg eins og hetjur og við vörum akkúrat á uppgefnum göngutímum DOC. Læt nokkrar myndir fylgja með.