þriðjudagur, desember 28, 2010

Amma og Afi koma




Krakkarnir eru búnir að telja niður dagana þar til Amma og Afi koma í heimsókn frá því þeir voru 60. Árni Kristinn er líka harðákveðinn í að um leið og amma og afi koma, þá séu ekki nema 2 dagar til jóla. Það var því mikil eftirvænting þegar við fórum út á flugvöll að ná í þau. Krakkarnir fengu frí í skólanum og svo lögðum við í hann. Við fundum út að fluginu hafði seinkað um nokkrar mínútur og fórum því upp á þak að sjá þegar flugvélin kæmi inn til lendingar. Svo sáum við að ein vélin fór að réttu hliði eftir lendingu og hlupum niður til að taka á móti þeim og urðu þá miklir fagnaðarfundir. Við keyrðum svo til Lyttelton þar sem Svava og Sólný Inga biðu og Amma og afi fengu að sjá nýjasta barnabarnið. Flugið gekk mjög vel hjá þeim og það var ekkert mál fyrir þau að halda sér vakandi fram til 9 um kvöldið. Þau vöknuðu náttúrulega snemma næsta morgun þegar Birna Líf og Árni Kristinn smeygðu sér upp í til þeirra í fyrsta af mörgum skiptum næstu vikurnar.

Fyrstu dagarnir




Fyrsta vikan heima með Sólnýju Ingu gekk nokkuð vel, hún er dugleg að drekka og verður fljót að losna við þessa smá nýburagulu sem hún er með. Krakkarnir eru þvílíkt montnir af litlu systur sinni og vilja taka hana með í skólann fyrir ,,news''. Svefninn hefur verið allt í lagi, hún vaknar á 2-3 tíma fresti til að drekka á nóttunni. Henni finnst gott að fara í bað en er ekki eins ánægð að koma úr baðinu, enn betra virðist henni þó finnast að fara í sturtu með manni. Eitt einstakt við Sólnýju er að hún hefur frá degi eitt virst vera að syngja, þegar hún andar frá sér, þá kemur sönglandi hljóð. Ósköp sætt. Fólk hefur sagt að hún líkist mér, Hilmari, en það var eins með hin börnin og hefur svo lagast.
Birna Líf er ósköp móðurleg við hana og vill allt fyrir hana gera, hún er dugleg að syngja fyrir hana og hefur komist að því að Edelweiss lagið er uppáhaldið hennar.
Árni Kristinn vill alltaf hjálpa við bleyjuskiptin, enda búin að æfa sig á dúkku, og finnst það ekkert mál. Okkur hefur nú tekist að einskorða það við pissubleyjur en hann vill ólmur skipta á öllum bleyjum!