mánudagur, maí 05, 2008

Að ferðast í húsbíl






Það er mjög algengur ferðamáti hér á Nýja Sjálandi að ferðast í húsbíl. Okkur langaði til að prófa þennan ferðamáta og leigðum því húsbíl yfir helgina. Veðurspáin var góð á vesturströndinni og tókum við því stefnuna þangað og ákváðum að skoða nyrsta hlutann af henni þar sem við höfum ekki komið þangað áður. Við lögðum af stað seint á föstudegi og keyrðum yfir Lewis Pass í átt að Westport. Það snjóaði á okkur í fjöllunum og ekki hægt annað en stoppa til að leyfa krökkunum að leika sér. Ef veðrið heldur áfram með þessu móti þá stefnir allt í góðan skíðavetur. Við gistum um nóttina á stað sem heitir Reefton og er annar gamall gullgrafarabær. Bærinn er samt helst þekktur fyrir að vera fyrst bær Nýja Sjálands sem er lýstur upp með rafmagni og gerðist það 1888. Birna Líf og Árni Kristinn fengu að sofa saman í efri kojunum fyrir ofan bílstjórasætið og var það ekkert smásport.....tók reyndar smátíma fyrir þau að sofna, Árni Kristinn þurfti mikið að prófa að slökkva og kveikja ljósin þarna upp við litla kátínu stóru systur.
Næstu dag ókum við svo til Westport og skoðuðum okkur um við Cape Foulwind. Þar er mikill fjöldi af loðselum sem við skoðuðum og voru þó nokkrir kópar á spena þegar við gengum þar um. Við löbbuðum svo eftir strandlengjunni að vitanum við Cape foulwind og svo aftur til baka. Birna Líf og Árni Kristinn stóðu sig með mikilli prýði og gengu sennilega um 5 km þennan dag. Þetta er afskaplega falleg strandlengja þarna og væri ekki amalegt að eiga sumarhús á þessu svæði. Við héldum svo áfram niður til Greymouth þar sem við gistum á Holiday Park með stórum leikvelli og góðri aðstöðu. Næsta dag héldum við svo heim aftur með nokkrum stoppum m.a. við fallegt vatn til að fá okkur hádegismat.
Okkur fannst þetta mjög þægilegur ferðamáti og krakkarnir höfðu mjög gaman af þessu. Þau sátu aftur í bílnum og höfðu gott útsýni út um stóra glugga og því var ekkert vandamál með bílveiki í þessari ferð. Öll aðstaða var til fyrirmyndar og þægilegt að geta eldað allan mat í bílnum og þurfa aldrei að stoppa á veitingastöðum eða á klósettum fyrir krakkana, þar sem þetta er allt til staðar í bílnum. Það er hins vegar ókostur að þurfa alltaf að tengja bílinn í rafmagn til að geta hitað hann, og þar af leiðandi þarf alltaf að borga fyrir orkustöð á gististöðum fyrir bílinn. Við eigum örugglega eftir að leigja svona bíl aftur e-rn tímann seinna en við myndum aldrei kaupa svona, enda alltof dýrt og ópraktískt til þess.

Pizzaofninn taka tvö



Það er búið að standa til í langan tíma að búa til nýjan pizzaofn eins og við Svanur gerðum fyrir alllöngu síðan þegar við bjuggum á Rata street og héldum bestu pizzupartý í Christchurch. Undanfarna mánuði hefur farið fram mikil garðvinna sem var nauðsynlegur undanfari þess að geta gert ofninn. Að lokum gátum við Sibbi hafist handa. Í grunninn notuðum við gamalt timbur úr lestarteinum sem við grófum upp úr garðinum. Ofan á það hlóðum við svo múrsteinum sem við grófum upp úr garðinum og fengum nokkra gefins að auki. Þegar grunnurinn var kominn þá útbjuggum við sandmót af innri byrði ofnsins og blönduðum svo leir undan húsinu við sand og hlóðum í kring. Þetta var látið þorna í 2 daga og svo settum við Einar ytra leirlagið á íblandað hálmi til styrkingar. Síðan þá hefur eiginlega ekki viðrað nógu vel þannig að lítil þornun hefur verið í gangi. Í dag er hins vegar sól og blíða og ég vonast til að geta tekið sandinn innan úr og geta kveikt upp til að klára að þurrka ofninn.....ætti að vera tilbúið í pizzugerð næstu helgi. Set inn nýjar myndir þegar allt er klárt.

Ferðalag til Hokitika



Við ákváðum að skella okkur í ferðalag yfir á vesturströndina um miðjan apríl. Við pökkuðum því skyndi á laugarsdagsmorgni og lögðum í hann. Það hafði snöggkólnað með skarpri sunnanátt á föstudeginum og því snjóað niður á láglendi sem er óvanalegt svona snemma hausts hér á Nýja Sjálandi. Það bauð hins vegar upp á skemmtilegt stopp á leiðinni þar sem við gátum notað tækifærið og búið til snjókalla. Það var ansi skondið að fylgjast með Árna Kristni þar sem hann er ekki beint vanur snjó og var því ægilega hissa á því að sér yrði svona kalt á höndunum. Við gistum svo í Hokitika í heimagistingu hjá indælli konu. Það var alveg stórmerkilegt að skoða sig um í húsinu hennar....eiginlega eins og að vera kominn heim til mömmu í Grindó. Myndir, styttur og annað punt var í mörgum tilvikum ekki svipað, heldur nákvæmlega eins og dót sem mamma á. Það fór vel um okkur og fengum við vel útilátinn morgunmat eins og við var að búast. Eftir það fórum við í göngutúr á ströndina og söfnuðum fallegum steinum og héldum svo af stað til að skoða ,,Shantytown" sem er gamall gullgrafarabær á vesturströndinni sem þeir hafa varðveitt í upprunalegri mynd frá gullæðinu sem ríkti hér seint á 18 öld. Það var margt skemmtilegt að skoða þar og fengum við m.a. að prófa pönnurnar til að finna gull og fengum svo afraksturinn í lítil glös (að sjálfsögðu fundum við smágullsalla). Hápunkturinn fyrir krakkana var þó að fá að fara í eimreiðina og skemmtu þau sér hið besta og vildu helst ekki fara úr lestinni.

Yoga og Kung Fu



Mátti til með að setja inn myndir af hópnum í æfingum eftir göngu dagsins

Milford Track





Við áttum alltaf eftir að setja inn pistil um Milford Track og hér kemur hann því!
Tveimur dögum eftir Coast to Coast var lagt af stað í stórskemmtilegt ferðalag. Hingað var kominn þvílíkt fríður hópur af íslensku göngufólki alas hinir Sáru og Súru fætur. Fyrir rúmum þremur árum þegar við Svava ákváðum að flytja til Nýja Sjálands hafði okkur verið uppálagt að skipuleggja gönguferð hér fyrir gönguhópinn okkar. Nokkuð sem okkar grunaði eiginlega aldrei að það yrði að raunveruleika.....en viti menn fólk í þessum gönguhóp er ekki að mikla hlutina fyrir sér og ákvað að stytta harðan vetur á norðurhveli til að fara í gönguferð eins langt í burtu og hægt er. Á mánudeginum (eftir mikið fum og fát við að skipta fólki niður á bíla) var lagt af stað til Hokitika á vesturströndinni. Ég beið fram eftir degi í Christchurch þar sem vinir okkar Kila og Melo voru að koma í ferðina frá Ástralíu. Það byrjaði ekki gæfulega fyrir okkar þar sem við lentum í hinu mesta óveðri yfir fjallgarðinn þar sem grjótskriður, aurskriður og snjókoma um mitt sumar lagði sitt til að reyna að stöðva okkur, en yfir á vesturströndina komumst við þrátt fyrir að bílar á eftir okkur hafi ekki verið eins heppnir þar sem veginum var lokað fyrir umferð stuttu síðar. Við hittum því hópinn í Hokitika og héldum svo áfram daginn eftir niður vesturströndina. Það var stoppað þann daginn til að fara með hópinn í Kajakferð og svo haldið áfram og útsýnið til Franz Josef og Fox jöklana þar sem þeir ryðjast niður úr fjöllunum niður í regnskóginn var alveg magnað. Þetta virkar eiginlega óraunverulegt að sjá skriðjökla enda niður í regnskóg...ekki alveg það sem við erum vön frá Íslandi. Næstu nótt gistum við í Haast og svo var ekið til Queenstown næsta dag. Í Queenstown hitti Svava okkur og Kelvin vinur okkar kom frá Auckland og var þannig saman kominn þriðjungur af gamla Encounter hópnum sem ferðaðist saman í gegnum Afríku árið 2000!
Á fimmtudeginum var svo tekin rúta árla morguns frá Queenstown til Te Anau Downs og svo ferja að upphafi göngunnar. Næstu 4 daga gengum við svo Milford Track gönguna sem snemma á síðustu öld var lýst sem ,,finest walk in the world" í bresku blaði og hefur þessi gönguleið sennilega haldið sessi sem ein af topp tíu gönguleiðum jarðar. Það er skemmst frá því að segja að þessa ganga býður upp á magnaða fjölbreytni, tröllslegt landslag, forna skóga, fallegar ár og eina af hæstu fossum heims að ónefndum óteljandi sandflugum. Við vorum búin að vara gönguhópinn við þessari óværu en það var ekki fyrr en eftir fyrsta daginn að við vorum tekin trúanleg og eftir það var ekki hægt að þekkja gönguhópinn sára og súra fætur frá hóp hryðjuverkamanna enda rétt stóð nefbroddurinn framundan klæðum sumra göngumanna. Í lok hvers dags var boðið upp á yoga og Kung Fu æfingar a la Kila og Melo sem vakti mikla lukku. Það var erfitt að velja myndir til að setja með þessum pistli en ég ákvað að lokum að senda inn myndir af öllum þeim æðislega fallegu og köldu baðstöðum sem gangan bauð upp á. Sennilega var þetta einhver sú mikilfenglegasta sturta sem völ er á í heimunum að baða sig undir 580m háum Sutherland fossum.