þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Hrekkjavaka
Birna Líf er búin að bíða eftir hrekkjavöku í eitt ár og loksins rann upp dagurinn. Birna Líf var klædd í nornabúninginn sinn og Árni Kristinn í Jack Sparrow sjóræningjabúninginn sinn og svo var gengið á milli húsa og æpt á húsráðendur (í orðsins fyllstu hvað Árna Kristinn varðar) ,,Trick or Treat". Afraksturinn nægir í þó nokkra laugardaga :)
Sumir húseigendur leggja mikið í hrekkjavöku hér ytra og skreyta allt heima hjá sér og eru með tilbúna nammipoka o.s.frv. Á einum staðnum var búið að stilla upp galdrakústi og við hliðina var skilti sem stóð á ,,broom parking". Það var líka búið að skreyta með köngulóarvef og graskerjum. Innandyra voru svo 2 eldri nornir til að taka á móti gestum og hafði sú eldri tekið út úr sér fölskurnar í tilefni dagsins og Birna Líf var sannfærð um þær væru alvörunornir en hefðu ekki gert okkur mein þar sem Birna Líf væri klædd í nornaföt og væri því í nornareglunni!

Hanmer Springs


Það var ein þriggja daga helgi í október, Labour weekend, og skelltum við okkur til Hanmer Springs. Það viðraði nú ekkert sérlega vel á okkur til að byrja með og var slydda um morguninn þegar við vöknuðum. Verandi sannir Íslendingar (og af því við höfðum pakkað lopapeysunum) þá létum við það ekki stoppa okkur og fórum á lítinn dýrabúgarð þar sem hægt var að kaupa lamadýr fyrir 500 dollara, rolluunga á 50 dollara og barnahænur fyrir 10 dollara stykkið. Mér fannst þetta alveg lygilegt verð per kg en Svövu fannst það ekki alveg við hæfi....enda vill hún kaupa geit. Krökkunum fannst þetta mjög gaman, þ.e.a.s. þegar Árni Kristinn var búinn að jafna sig á ákafa dýrana þegar þau voru með e-ð matarkyns handa þeim. Seinni partinn var veðrið búið að skána mikið og við skelltum okkur í heitu pottana og svo í hjólaferð fyrir kvöldmatinn.

KrakkamyndirVið fórum í gönguferð með Birnu Líf og Árna Kristinn um Lyttelton fyrir skemmstu og þau fengu að taka myndir að eigin vali á myndavélina. Hér er hluti af afrakstrinum

Bátsferð
Krakkarnir eru búnir að vera að biðja um að fara í bátsferð í svolítinn tíma þannig að við ákváðum að rölta okkur niður á bryggju og tókum ferjuna yfir til Diamon Harbour með þau og nestiskörfuna. Þau voru reyndar bæði búin að vera eitthvað slöpp og því ekki í neinu svakastuði í upphafi en öll veikindi gleymdust samstundis þegar þau fundu blett til að hlaupa á og tré til að klifra í.
Veðrið er farið að leika við okkur og hitinn gjarnan í kringum 20 stigin sem er ósköp notalegt.