miðvikudagur, febrúar 27, 2008

Coast to Coast

Janúar mánuður var fljótur að líða hjá okkur við æfingar fyrir Coast to Coast keppnina. Síðustu 10 dagar fyrir keppni voru þó meira og minna hvíld og farið að gæta óþreyju í fótunum á okkur að fara að gera e-ð. Birna og Kiddi komu til okkar á mánudeginum fyrir keppnina og við fórum svo út úr bænum á miðvikudeginum upp í Arthurs pass og gistum þar í sumarhúsi sem nágrannar okkar eiga og voru svo vinalegir að lána okkur. Miðvikudagurinn fór í það að fara yfir allan búnaðinn fyrir keppnina, orkufæði, sölt, vökva o.s.frv.

Á fimmtudeginum keyrðum við svo öll niður til Kumara á Vesturströndinni þar sem skráningin fór fram og fengum þar keppnispakkann ásamt kippu af speights bjór (fínn vökvi fyrir keppnina, a.m.k. fyrir aðstoðarfólkið). Um kvöldið keyrðum við svo til baka til Arthurs Pass til að fara snemma í háttinn, enda þurftum við að vakna hálffjögur um nóttina. Við Svava gistum í tjaldi úti í garði en Birna, Kiddi, krakkarnir og aðstoðarmennirnir (Eggi, Einar og Mikki) gistu í húsinu. Við fengum forvitna gesti í heimsókn um leið og við komum í bústaðinn, en tvo Kea páfagauka bar að garði......við vorum því fljót að ákveða að skella hjólunum inn í geymslu enda þeir þekktir fyrir að finnast gúmmídekk ágætis afþreying.

Dagur 1: Við vöknuðum klukkan hálfjögur, borðuðum og lögðum svo af stað á vesturströndina. Við vorum skilin eftir við Kumara racecourse og þaðan hjóluðum við af stað korter í sex niður að hjólastöndunum (4.2 km) og gengum svo 3 km niður á ströndina. Þar dýfðum við fingri og fæti í sjóinn og vorum að lokum ræst af stað klukkan 7 að morgni. Fyrst er hlaupið 3 km og þá tekur við 55 km hjólatúr með smáhækkun (240 m) og gekk það bara mjög vel. Við bjuggumst við að þessi fyrsti kafli (hlaup og hjól) tæki okkur um 2.5 til 3 tíma og vorum við 2:20. Þar tekur við fyrsta skipting, við losum okkar við hjóladótið og fáum hlaupabakpokum með aukafötum og skyndihjálparpakkanum. Þarna hefst svo fjallahlaupið, ef hlaup skyldi kalla. Þetta eru 33 km upp eftir árfarvegi með stígum sums staðar og þarf að vaða ána á um 30 stöðum. Hækkunin er tæpir þúsund metrar. Við vorum mjög ánægð með tímann upp að Goat pass þar sem hækkuninni lýkur en eftir það voru hnéin á mér til trafala og við fórum hægt yfir og kláruðum fjallahlaupið á 7.5 klst. Þar lauk degi eitt og við vorum býsna glöð með árangurinn. Næsta dag þurftu Eggi, Mikki og Einar að fara með kajakan í skoðun niður við Waimakariri ána klukkan 5 um morguninn en Kiddi skutlaði okkur með hjólin að Klondyke Corner þar sem dagur 2 byrjar. Klukkan að verða átta vorum við svo ræst af stað í 15 km hjól sem endaði með 800 m hlaupi með hjólin niður að ánni. Þar tók við 67 km kajakferð niður í gegnum Waimakariri gilið. Kajakferðin gekk vel og Svava velti ekki neitt en ég velti einu sinni eftir að við vorum komin í gegnum allar erfiðu flúðirnar, augnabliksaðgátsleysi í náttúruskoðun! Var í raun bara hressandi. Eggi og Kiddi tóku á móti okkur þar og síðasti leggurinn tók við sem var 70 km hjólatúr. Við skiptumst á að vera á undan og kljúfa vindinn og hvíldum svo fyrir aftan á milli. Við höfðum áætlað að vera 3 tíma þennan síðasta kafla, en vorum miklu sprækari en við gerðum ráð fyrir og komum í mark eftir 2:20......sem þýddi það að aðstoðarmennirnir og allt stuðningsliðið var í kaffi heima hjá sér í rólegheitunum. Sem betur fer var kunningi minn frá spítalanum þarna og við gátum hringt heim til að fá e-rn til að ná í okkur. Annars vorum við bara alvarlega að íhuga að hjóla bara heim ;)

Sem sagt þá náðum við að klára alla þessa leið á 2 dögum og vorum samferða allan tímann. Við erum hrikalega ánægð með árangurinn og viljum líka þakka öllum þeim sem hafa hjálpað okkur svona mikið til að ná þessum árangri..............nú vitum við eiginlega ekki hvað við eigum af okkur að gera, humm....ætli við finnum ekki e-ð út úr því.