fimmtudagur, desember 27, 2007

Hurunui áin

Seinni partur Grade 2 kayak námskeiðsins var alveg frábær. Við fórum með hópnum út úr Christchurch til að æfa okkur á Hurunui ánni. Við slógum upp tjaldbúðum og svo var okkur dempt út í ána að æfa okkur í að fara inn og út úr straumi, ,,ferrygliding" og svo smáflúðaferð líka. Þetta var alveg ótrúlega erftit til að byrja með og við ætluðum varla að komast frá einum bakka til annars en tókum sem betur fer nokkuð hröðum framförum. Okkur tókst báðum að velta þennan daginn og þegar Svava velti fyrst þá fattaði hún ekki að rífa sig úr bátnum og var fyrir vikið nánast búin að fara óplanaða eskimóaveltu ;) en eftir sjokkið við að velta einu sinni þá var ekkert mál lengur. Ég ákvað eftir mína aðra veltu að ég gæti svo sem prófað eskimóaveltuna sem við vorum búin að vera að æfa í sundlauginni. Ég var ennþá í miðjum flúðum....stillti mér upp og viti menn, haldiði að báturinn hafi bara ekki snúist við. Ég var ekkert smáhissa.
Um kvöldið elduðu þeir Len og Caleb fyrir okkur veislumat(Burritos) og var spjallað og drukkið smáviskí fram eftir kvöldi.
Dagur 2 fór svo í að æfa sig meira í heldur erfiðari straumi og í lokin fór Caleb með mig og Mark niður gljúfrið sem var æsispennandi. Mér tókst að velta tvisvar á leiðinni niður eftir en eskimóaveltan stóð fyrir sínu, nema eftir síðustu veltuna var ég orðinn svo þreyttur og var ennþá í flúðum þegar ég kom upp þannig að ég valt strax aftur og þurfti að synda að bakkanum. Þetta var ótrúlega skemmtileg helgi fyrir okkur, en við hefðum aldrei getað þetta nema fyrir það hvað Sibbi var hjálplegur að passa fyrir okkur.

Engin ummæli: