fimmtudagur, október 19, 2006

Hrakfarir risahænunnar

hæ hæ

Fyrir þá sem ekki vita þá fylgdu núverandi leiguhúsnæði ýmsar kvaðir.....ein þeirra var að sjá um 3 hænur eigendanna á meðan þeir eru í burtu. Okkur var reyndar sagt að ef við fengjum yfirþyrmandi leið á þeim þá mættum við alveg setja þær í pottinn. Nú, eins og fyrr segir þá eru hænurnar þrjár, tvær í eðlilegri stærð og svo eitt risaflykki sem er á stærð við kalkún.

Birna Líf hefur tekið að sér yfirumsjón með hænunum og gefur þeim daglega og tekur eggin frá þeim. Á mánudagskvöldið þegar við fórum að kíkja á hænurnar þá hafði stóra hænan e-rn veginn náð að festa vinstri fótinn í vírnetinu í nokkurri hæð og hékk þar bjargarlaus. Ég náði að losa hana eftir góða stund ( reyndi fyrst með Árna Kristinn í fanginu en honum leist ekkert á það ) og setti hana á jörðina og hún dró fótinn bara á eftir sér.

Næsta dag hringdi ég heim úr vinnunni og spurði Svövu hvernig sjúklingurinn hefði það og Svava sagði mér að því miður væri hænan örugglega fótbrotinn og hún kæmist vart spönn frá rassi. Ég bauðst þá til að binda enda á þjáningar greysins eftir vinnu en Svava vildi ekki heyra á það minnst. Við hlytum að geta spelkað hana eða lappað upp á hana með e-u móti. Á endanum ákváðum við að ég myndi reyna að komast að því hvernig væri best að ,,róa" hana stundarkorn á meðan við kæmum á hana spelkunni. Ég ræddi málið við svæfingalækninn sem ég var að vinna með en hann hafði aðeins svæft hunda og ketti en aldrei hænur. Hann átti hins vegar gamla flösku af Ether sem mér væri frjálst að fá...ásamt öðru sem ég gæti fundið á skrifstofunni hans, sem er eins og safn, alveg troðfullt af úr sér gengnum gripum. Á netinu komst ég að því að Ether svæfing væri mjög hentug fyrir hænur og þær jafnvel sæktust í slíkan sælusvefn.

Við útbjuggum því afskaplega frumlegan svæfingakassa fyrir hænuna sem dugði þó ekki betur en svo að hún varð bara rétt aðeins dösuð. Við gripum því til þess ráðs að gera þetta á þann máta sem það var notað við svæfingar á mönnum fyrir hundrað árum eða svo og létum etherinn dropa ofan í grisju fyrir vitum hænunnar. Hún sofnaði þá værum svefni á meðan Svava setti spelku og umbúðir á. Sjúklingurinn var svo færður aftur upp í búr og færður matur í ,,rúmið" og virðist núna 2 dögum síðar heldur vera að braggast og aðeins farinn að stíga í spelkuna.......svo er bara að bíða og sjá.

Það má kannski nefna það að svæfingalæknunum á spítalanum finnst þetta svo spennandi að ég er spurður á hverjum morgni fregna af sjúklingnum. Einnig hafa menn mismunandi skoðanir á málunum og telja jafnvel að aflimun hefði verið skynsamlegri kostur í stöðunni. Verið getur að ég neyðist til að halda fyrirlestur um herlegheitin.

Einn svæfingalæknirinn sagði þá mér ágæta sögu af dýralækni sem hafði svæft kanarífugl. Eigandinn kom með hann til að fjarlægja ofvöxt á goggnum. Dýralæknirinn svæfði fuglinn með ethervættri grisju og greip svo rafmagnshitara til að brenna burtu ofvöxtinn. Það vildi þá ekki betur til en að hár hvellur gall við og aumingja dýralæknirinn stóð með nokkrar fjaðrir í hendinni og neyddist vandræðalega til að útskýra fyrir eigandandum hvað gerst hefði þar sem hann hafði engann kanarífugl í sömu litum til að láta í staðinn.

Með kveðju frá dýraklínikinni í Lyttelton.

Engin ummæli: