miðvikudagur, október 04, 2006

Íslandsferð júlí-sept 2006

Jæja þá erum við komin aftur til Nýja Sjálands eftir verulega skemmtilega ferð til Íslands. Það svoleiðis rigndi yfir okkur skömmunum vegna pistlaleysis okkar á þessu bloggi (sem var ánægjulegt að vissu leyti þar sem við vitum þó að fylgst er grannt með okkur :)

Svava og krakkarnir fóru heim í lok júlí og á Svava heiður skilin fyrir að leggja í slíka ferð yfir hnöttinn ein með 4 ára og eins árs....börnin höguðu sér víst eins og best verður á kosið en aumingja Svava svaf ekki dúr í 48 tíma og var ansi nálægt því að verða ,,klikk" eins og Birna Líf myndi orða það.

Svava vann í ágúst á Eir til að rifja upp gömul handtök við hjúkrun og Amma og Afi nutu þess að þeytast í kringum barnabörnin. Árni Kristinn var fljótur að sjá að hægt væri að fá þetta fólk til að snúast í kringum sig og byrjaði flesta morgna á að kalla hátt afaaa. Birna Líf þurfti ekkert að sjá þetta út þar sem hún vissi mætavel af þessum möguleika og hafði gaman af fjöldamörgum sund- og leikvallarferðum með afa og ömmu. Annars hafði blessunin orðið fyrir því óhappi að ristarbrotna í dýragarðinum með pabba sínum rétt fyrir brottför til Íslands og var því í plastgifsi á heimleiðinni en hafði vit á því að dýfa því beint í baðkarið við komuna heim og losnaði við það í snatri þannig. Gifsið hafði f.o.f. verið fyrir verkjastillingu og um þetta leyti var hún orðin verkjalaus og hljóp um án þess hvort eð er.

Svava var dugleg að þeytast með börnin um og fór nokkrum sinnum í heimsókn til Ömmu í Grindó og fannst krökkunum sérlega gaman að hitta hana og leika við frændsystkini sín, þau Angelu Björgu, Kjartan Árna og Æsu Maríu.

Ég kom svo loksins á klakann í byrjun september eftir að hafa látið mér leiðast sem grasekkill á Nýja Sjálandi og var óendanlega feginn að hitta aftur Svövu og Börnin sem virtust ekki hafa gleymt mér og ég heyrði óminn frá Birnu Líf að kalla ,,Pabbi" alla leið inn í fríhöfn.

Þessar tæpu þrjár vikur sem ég var á Íslandi voru vægast sagt annasamar og skemmtilegar. Við vorum svo heppin að komast í brúðkaup Hjalta Más og Rutar, barnaafmæli hjá Viktori Erni, þrítugsafmæli hjá Grace Mágkonu minni, áttræðisafmæli Svavars nafna og afa Svövu auk þess að halda veglegt barnaafmæli í Logafoldinni þar sem Árni Kristinn var eins árs 17 sept. skv. Nýsjálensku tímabelti en 16. sept skv. því íslenska sem áttræðisafmælisbarnið Svavar telur ótvírætt vera það rétta í stöðunni enda eigi þeir afmæli sama dag!

Við skelltum okkur svo að sjálfsögðu í hringferð líka, stoppuðum í nokkra daga á Djúpavogi og ég fékk náðarsamlegast að skjóta Hreinkú upp á Lónsheiðinni sem Kristinn hafði leyfi á. Það ku hafa verið gert í þeim tilgangi ,,að viðhalda blóðþorsta mínum." Við stoppuðum svo á Egilsstöðum og fórum í sund og einnig komum við við í Kirkjugarðinum á Akureyri og settum blóm á leiði föður míns. Birna Líf varð hins vegar eftir hjá ömmu og afa á Egilsstöðum til að komast í veiðiá.

Við flugum svo aftur til baka til Nýja Sjálands 21 september og komum þangað seint að kveldi 23. september. Við erum rétt núna að verða búin að snúa yfir á rétt tímabelti þar sem það var ekki óalgeng sjón á heimilinu að allir sætu við morgunverðarborðið klukkan hálfsjö að morgni, búið að útbúa bakkelsi etc fyrir þann tíma.

Jæja lífið er að færast í sinn vanagang, ég er farinn að vinna aftur, Birna Líf er byrjuð á leikskólanum og búið að panta pláss fyrir Árna Kristinn. Svava er svo að klára að ganga frá því að sækja um hjúkrunarleyfi hér og er að kynna sér möguleika á mastersnámi við Háskólann.

bless í bili

Engin ummæli: