miðvikudagur, september 12, 2007

Sibbinn kominn



Sibbi mætti á svæðið á þessum líka dásemdardegi. Við fórum öll út á flugvöll í morgun að ná í kappann og bjuggumst við þessum venjulega töfum og svo langþreyttum, farangurslausum ferðalangi....en viti menn. Í þetta sinn komst farangurinn á leiðarenda og Sibbi kominn í gegnum tollinn á mettíma. Ferðalagið gekk rosavel hjá honum og mikil kátína hjá Birnu Líf og Árna Kristni að knúsa hann, það skemmdi nú ekki að fá m&m að gjöf frá honum líka.

Við fórum svo með hann til Lyttelton og fengum okkur vel útilátinn hádegismat sem við borðuðum úti á palli í góða veðrinu. Eftir það þurfti svo að finna e-r ráð til að halda honum vakandi fram á kvöldmat og var kastað upp ,,krónu" á milli fjallahjólatúrs eða kajaktúrs.

Úr varð að ég og Sibbi skelltum okkur í kajakferð á meðan Svava lá yfir námsbókunum. Sibbi stóð sig mjög vel og þurfti ekkert að skella sér til sunds í þessari ferð og vildi endilega fara aftur á morgun og þá helst svolítið lengra. Það verður líka enginn miskunn í æfingum fyrir hann þar sem við erum búin að lofa honum í þriggja manna lið fyrir næstu Tuatara keppni!

Við röltum svo öll niður í bæ seinni partinn og keyptum ferskan fisk sem við pönnusteiktum og fengum okkur gott Nýsjálenskt hvítvín með.

Eftir kvöldmat fóru svo Sibbi, Birna Líf og Árni Kristinn í rúmið og það er nánast öruggt að sá fyrstnefndi var fyrstur í draumaheima.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ji hvað þetta hljómar vel, ekki laust við smá öfund frá systurinni á klakanum... hér er úrkoman að slá öll met og rok með í kaupbæti!!

Kveðja,
Ásdís syst

Þorbjörg sagði...

Hæbbs,

Hlýtur að vera gott að vera búin að fá litla bróðir ;)

Sjáumst nú fljótlega en vildi bara kvitta svo þið haldið áfram að blogga...
Þorbjörg

Hilmar Kjartansson sagði...

jamm, flott að vera búinn að fá hann hingað út. Í dag er annar dýrðardagur og hann var pyndaður til að hjóla upp í Evans pass og til baka sem er fín æfing að byrja á.....hann var samt e-ð að kvarta undan hnakknum!

Nafnlaus sagði...

oh, þið virðist hafa það gott. Æðislegt útsýnið frá pallinum. Gangi þér vel með lærdóminn Svava!

kveðja
Óla