fimmtudagur, september 06, 2007

Aftur í veturinn

Eftir að hafa upplifað besta sumar í manna minnum á Íslandi þá erum við komin aftur í veturinn á Nýja Sjálandi. Það er ósköp notalegt að vera komin aftur til baka en við söknum allra á Íslandi og Birna Líf og Árni Kristinn spyrja oft eftir ömmu og afa, ömmu í Grindó o.s.frv. Við Birna Líf ferðuðumst saman út, en Árni Kristinn og Svava fóru út 2 vikum á undan okkur. Ferðalagið gekk framar öllum vonum enda Birna Líf sérlega skemmtilegur ferðafélagi. Við stoppuðum í 12 tíma í Singopore og skráðum okkur inn á transit hótelið þar og náðum góðum svefni og eftir það skelltum við okkur í sund og fengum okkur svo Pizzu eftir það. Við vorum því alveg endurnærð fyrir síðasta flugið til Nýja Sjálands og urðum ekki einu sinni pirruð þrátt fyrir að farangurinn hafi orðið eftir í Singapore, enda fengum við hann 2 dögum seinna afhentan heim án nokkurra vandamála. Veturinn hér er búinn að vera mjög mildur og ekkert snjóað á láglendi í Christchurch þó það hafi nokkrum sinnum fest smásnjó í kollin á Mt. Herbert (1000 m) hérna hinum megin við fjörðinn. Það er helst að maður sé meðvitaður um veturinn vegna skammdegisins og svo eru náttúrulega húsin hérna með eindæmum köld og það fer töluverð vinna í að kynda, sækja eldivið og fara með rafmagnsofn á milli herbergja. Ég lét svo verða af því að kaupa rafmagnsteppi í rúmið í lok vetrar og fékk fullt af prikum í kladdann hjá Svövu, enda var ég að byrja á næturvöktum.

1 ummæli:

Disa sagði...

Það er nauðsinlegt að hafa annað hvort, mann eða rafmagnsteppi.....