mánudagur, maí 05, 2008

Að ferðast í húsbíl






Það er mjög algengur ferðamáti hér á Nýja Sjálandi að ferðast í húsbíl. Okkur langaði til að prófa þennan ferðamáta og leigðum því húsbíl yfir helgina. Veðurspáin var góð á vesturströndinni og tókum við því stefnuna þangað og ákváðum að skoða nyrsta hlutann af henni þar sem við höfum ekki komið þangað áður. Við lögðum af stað seint á föstudegi og keyrðum yfir Lewis Pass í átt að Westport. Það snjóaði á okkur í fjöllunum og ekki hægt annað en stoppa til að leyfa krökkunum að leika sér. Ef veðrið heldur áfram með þessu móti þá stefnir allt í góðan skíðavetur. Við gistum um nóttina á stað sem heitir Reefton og er annar gamall gullgrafarabær. Bærinn er samt helst þekktur fyrir að vera fyrst bær Nýja Sjálands sem er lýstur upp með rafmagni og gerðist það 1888. Birna Líf og Árni Kristinn fengu að sofa saman í efri kojunum fyrir ofan bílstjórasætið og var það ekkert smásport.....tók reyndar smátíma fyrir þau að sofna, Árni Kristinn þurfti mikið að prófa að slökkva og kveikja ljósin þarna upp við litla kátínu stóru systur.
Næstu dag ókum við svo til Westport og skoðuðum okkur um við Cape Foulwind. Þar er mikill fjöldi af loðselum sem við skoðuðum og voru þó nokkrir kópar á spena þegar við gengum þar um. Við löbbuðum svo eftir strandlengjunni að vitanum við Cape foulwind og svo aftur til baka. Birna Líf og Árni Kristinn stóðu sig með mikilli prýði og gengu sennilega um 5 km þennan dag. Þetta er afskaplega falleg strandlengja þarna og væri ekki amalegt að eiga sumarhús á þessu svæði. Við héldum svo áfram niður til Greymouth þar sem við gistum á Holiday Park með stórum leikvelli og góðri aðstöðu. Næsta dag héldum við svo heim aftur með nokkrum stoppum m.a. við fallegt vatn til að fá okkur hádegismat.
Okkur fannst þetta mjög þægilegur ferðamáti og krakkarnir höfðu mjög gaman af þessu. Þau sátu aftur í bílnum og höfðu gott útsýni út um stóra glugga og því var ekkert vandamál með bílveiki í þessari ferð. Öll aðstaða var til fyrirmyndar og þægilegt að geta eldað allan mat í bílnum og þurfa aldrei að stoppa á veitingastöðum eða á klósettum fyrir krakkana, þar sem þetta er allt til staðar í bílnum. Það er hins vegar ókostur að þurfa alltaf að tengja bílinn í rafmagn til að geta hitað hann, og þar af leiðandi þarf alltaf að borga fyrir orkustöð á gististöðum fyrir bílinn. Við eigum örugglega eftir að leigja svona bíl aftur e-rn tímann seinna en við myndum aldrei kaupa svona, enda alltof dýrt og ópraktískt til þess.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Haehae,

Aedislegar myndir og gaman ad lesa um ferdir ykkar! Kvedja Suzanne, Thor og Willum Stefan

Eggert Vébjörnsson sagði...

Já þetta er örugglega nokkuð skemmtilegur ferðamáti.
Fannst ykkur Westport ekki vera einhvernveginn eins og bær úr villta vestrinu eins og maður hefði ímyndað sér hann?
:) Svona frekar óspennandi pleis fannst mér.

Unknown sagði...

Thid erud nu ekkert sma kruttleg. Takk fyrir ad blogga!
Kær kvedja, Ola

Nafnlaus sagði...

Gaman ad lesa allar ferdasögurnar... frabaer hugmynd hja ykkur ad leigja husbil! Eitthvad svo skemmtilega gamaldags og geggjad... verd ad profa einhvern timann!

Knus og kossar ***
Kristbjörg fraenka

Nafnlaus sagði...

Wow ! Amazing blog to follow I would suggest to follow my all friends and family to follow his blog . Vivacious Blog - Full life and energy. Keep Posting, jasmine bridal Christian Louboutin Pumps Hot Sale