mánudagur, maí 05, 2008

Milford Track





Við áttum alltaf eftir að setja inn pistil um Milford Track og hér kemur hann því!
Tveimur dögum eftir Coast to Coast var lagt af stað í stórskemmtilegt ferðalag. Hingað var kominn þvílíkt fríður hópur af íslensku göngufólki alas hinir Sáru og Súru fætur. Fyrir rúmum þremur árum þegar við Svava ákváðum að flytja til Nýja Sjálands hafði okkur verið uppálagt að skipuleggja gönguferð hér fyrir gönguhópinn okkar. Nokkuð sem okkar grunaði eiginlega aldrei að það yrði að raunveruleika.....en viti menn fólk í þessum gönguhóp er ekki að mikla hlutina fyrir sér og ákvað að stytta harðan vetur á norðurhveli til að fara í gönguferð eins langt í burtu og hægt er. Á mánudeginum (eftir mikið fum og fát við að skipta fólki niður á bíla) var lagt af stað til Hokitika á vesturströndinni. Ég beið fram eftir degi í Christchurch þar sem vinir okkar Kila og Melo voru að koma í ferðina frá Ástralíu. Það byrjaði ekki gæfulega fyrir okkar þar sem við lentum í hinu mesta óveðri yfir fjallgarðinn þar sem grjótskriður, aurskriður og snjókoma um mitt sumar lagði sitt til að reyna að stöðva okkur, en yfir á vesturströndina komumst við þrátt fyrir að bílar á eftir okkur hafi ekki verið eins heppnir þar sem veginum var lokað fyrir umferð stuttu síðar. Við hittum því hópinn í Hokitika og héldum svo áfram daginn eftir niður vesturströndina. Það var stoppað þann daginn til að fara með hópinn í Kajakferð og svo haldið áfram og útsýnið til Franz Josef og Fox jöklana þar sem þeir ryðjast niður úr fjöllunum niður í regnskóginn var alveg magnað. Þetta virkar eiginlega óraunverulegt að sjá skriðjökla enda niður í regnskóg...ekki alveg það sem við erum vön frá Íslandi. Næstu nótt gistum við í Haast og svo var ekið til Queenstown næsta dag. Í Queenstown hitti Svava okkur og Kelvin vinur okkar kom frá Auckland og var þannig saman kominn þriðjungur af gamla Encounter hópnum sem ferðaðist saman í gegnum Afríku árið 2000!
Á fimmtudeginum var svo tekin rúta árla morguns frá Queenstown til Te Anau Downs og svo ferja að upphafi göngunnar. Næstu 4 daga gengum við svo Milford Track gönguna sem snemma á síðustu öld var lýst sem ,,finest walk in the world" í bresku blaði og hefur þessi gönguleið sennilega haldið sessi sem ein af topp tíu gönguleiðum jarðar. Það er skemmst frá því að segja að þessa ganga býður upp á magnaða fjölbreytni, tröllslegt landslag, forna skóga, fallegar ár og eina af hæstu fossum heims að ónefndum óteljandi sandflugum. Við vorum búin að vara gönguhópinn við þessari óværu en það var ekki fyrr en eftir fyrsta daginn að við vorum tekin trúanleg og eftir það var ekki hægt að þekkja gönguhópinn sára og súra fætur frá hóp hryðjuverkamanna enda rétt stóð nefbroddurinn framundan klæðum sumra göngumanna. Í lok hvers dags var boðið upp á yoga og Kung Fu æfingar a la Kila og Melo sem vakti mikla lukku. Það var erfitt að velja myndir til að setja með þessum pistli en ég ákvað að lokum að senda inn myndir af öllum þeim æðislega fallegu og köldu baðstöðum sem gangan bauð upp á. Sennilega var þetta einhver sú mikilfenglegasta sturta sem völ er á í heimunum að baða sig undir 580m háum Sutherland fossum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Possibly the most amazing blog that I read all year! wedding dresses. Christian Louboutin Boots