mánudagur, maí 05, 2008

Ferðalag til Hokitika



Við ákváðum að skella okkur í ferðalag yfir á vesturströndina um miðjan apríl. Við pökkuðum því skyndi á laugarsdagsmorgni og lögðum í hann. Það hafði snöggkólnað með skarpri sunnanátt á föstudeginum og því snjóað niður á láglendi sem er óvanalegt svona snemma hausts hér á Nýja Sjálandi. Það bauð hins vegar upp á skemmtilegt stopp á leiðinni þar sem við gátum notað tækifærið og búið til snjókalla. Það var ansi skondið að fylgjast með Árna Kristni þar sem hann er ekki beint vanur snjó og var því ægilega hissa á því að sér yrði svona kalt á höndunum. Við gistum svo í Hokitika í heimagistingu hjá indælli konu. Það var alveg stórmerkilegt að skoða sig um í húsinu hennar....eiginlega eins og að vera kominn heim til mömmu í Grindó. Myndir, styttur og annað punt var í mörgum tilvikum ekki svipað, heldur nákvæmlega eins og dót sem mamma á. Það fór vel um okkur og fengum við vel útilátinn morgunmat eins og við var að búast. Eftir það fórum við í göngutúr á ströndina og söfnuðum fallegum steinum og héldum svo af stað til að skoða ,,Shantytown" sem er gamall gullgrafarabær á vesturströndinni sem þeir hafa varðveitt í upprunalegri mynd frá gullæðinu sem ríkti hér seint á 18 öld. Það var margt skemmtilegt að skoða þar og fengum við m.a. að prófa pönnurnar til að finna gull og fengum svo afraksturinn í lítil glös (að sjálfsögðu fundum við smágullsalla). Hápunkturinn fyrir krakkana var þó að fá að fara í eimreiðina og skemmtu þau sér hið besta og vildu helst ekki fara úr lestinni.

Engin ummæli: