föstudagur, september 10, 2010

Áramót





Við ákváðum að eyða áramótunum á Waihi Beach með Kelvin, Wendy, Damon og Jared. Foreldrar Wendy eiga sumarbústað þar og þau buðu okkur að tjalda í garðinum hjá þeim yfir áramótin. Við keyrðum því alla leið frá Hawera til Waihi Beach á gamlársdag. Þetta tók náttúrulega allan daginn en krakkarnir stóðu sig furðuvel í þessari langferð eftir bugðóttum vegunum. Læt kort af leiðinni fylgja með til gamans.
Við Svava fórum svo á áramótatónleika með Dave Dobbyn, sem er einskonar Bubbi Nýja Sjálands, og voru það frábærir tónleikar. Á nýjársmorgun eru svo alltaf strandkeppni í boði strandvarðafélagsins á staðnum (Pabbi Wendyar hefur verið yfir því um árabil). Það er keppt í öllum aldursflokkum krakka og svo flokkum feðra/mæðra/ömmu/afa. Það er hlaupið á ströndinni og reynt að ná í annað hvort appelsínu eða kókoshnetu. Þetta var mjög gaman og yfirvegað hjá krökkunum. Ég tók að sjálfsögðu þátt í pabbahlaupinu og keppnisandinn þar var eins og á landsleik milli All Blacks og Wallabees. Ég reyndi að ná smáforskoti á 2 rumi sem voru sitt hvorum megin við mig og skutlaði mér á fyrstu kókoshnetuna, en fékk olnboga frá vinstri og svo hné frá hægri og kuðlaðist upp í sandinum. Ég spratt náttúrulega á fætur og stökk á einn pabbann sem lá yfir kókoshnetu sem hann hafði náð, ég náði að bora höndunum undir hann og ætlaði að fara að rífa hana af honum......en einhverra hluta vegna þá náði skynsemin yfirhöndum og ég fattaði aftur að þetta var víst allt í gamni gert......krakkarnir voru hins vegar sárir yfir þeirrri illu meðferð sem ég fékk. Birna Líf og Árni Kristinn kepptu að sjálfsögðu í sínum hópum í hlaupinu og Birna Líf tók líka þátt í keppni að hlaupa út fyrir bauju í sjónum og þótti mjög gaman. Við eyddum svo öllum deginum á ströndinni og þetta var tvímælalaust einn sá allra skemmtilegasti nýársdagur sem við höfum upplifað.

Engin ummæli: