fimmtudagur, september 02, 2010

Jól 2009





Þá erum við kominn til Hawera þar sem við ætlum að halda upp á jólin þetta árið. Þetta er 10 þúsund manna bær sem hefur byggst upp í kringum kúabú og mjólkuriðnað og svo er gasvinnsla ekki langt fyrir utan ströndina líka. Við erum á góðu móteli og hinum megin við götuna er leikvöllur og sundlaugin þar sem við vorum daglegir gestir. Jólamaturinn var svolítið öðruvísi þetta árið þar sem ekki var hægt að ná í hangikjöt eða annan matarkost sem við erum vanari, en við fengum rosagóða nautasteik hjá slátraranum sem við elduðum með gómsætu meðlæti. Svava gerði Waldorfsalat, við brúnuðum kartöflur og á endanum varð þetta hin mesta veislumáltíð. Við tókum með okkur lítið gerfijólatré sem krakkarnir skreyttu samviskusamlega, en það var ótrúlegt hvað hægt var að koma miklu skrauti fyrir á þessu litla tré, sem á endanum sást lítið í þegar búið var að raða pökkunum í kringum það. Við notuðum líka tækifærið og bökuðum annan skammt af ,,vondu kökunum" og krakkarnir hjálpuðu mikið til við það. Annars er það nú alltaf þannig að það skiptir ekki máli hvar maður er þegar haldið er upp á jólin, heldur hverjum maður er með og við höfðum það mjög fínt á jólamótelinu okkar.

Engin ummæli: