miðvikudagur, apríl 18, 2007

Birnirnir þrír og Brooke Fraser

Nú er farið að hausta hjá okkur og daginn tekinn að stytta. Sem betur fer erum við með hitapumpu og kamínu til að halda hita á okkur í nýja húsinu.
Það er allt gott að frétta af okkur, nóg að gera hjá Svövu í skólanum og mér í vinnunni. Birna Líf getur ekki beðið eftir að byrja í nýja skólanum og núna eru innan við 2 mánuðir þar til hún verður loksins ,,skólastelpa" eins og hún er búin að vera að bíða eftir í langan, langan tíma.
Helgin var þokkalega viðburðarrík hjá okkur, sérstaklega sunnudagurinn. Við fórum í s.k. ,,cushion" theatre á barnaleikritið um birnina þrjá og Gullbrá.....,,the true story" Allir komu sem sagt með púða með sér til að sitja á þar sem allt fer fram í einum litlum sal. Við sátum því á fremsta bekk eða púða á meðan á leikritinu stóð. Árna Kristni fannst þetta mjög áhugavert og sat ósköp stilltur í um hálftíma en nennti síðan ekki meiru. Birna Líf var hins vegar alveg hugfangin af þessu og fékk eiginhandaráritanir frá litla birni og Gullbrá eftir sýninguna. Þetta var mjög gaman og fullt af tækifærum til að standa upp og teygja úr sér og dansa með leikurunum.
Um Kvöldið fórum við Svava svo á tónleika með Brooke Fraser, sem er NýSjálensk stórgóð söngkona. Tónleikarnir voru mjög skemmtilegir og höldum við töluvert (meira) upp á þessa tónlistarkonu eftir tónleikana. Hún er greinilega mjög góð alhliða tónlistarkonu og syngur alveg ótrúlega vel. Hér er linkur á heimasíðuna hennar http://www.brookefraser.com/ fyrir áhugasama. Biðjum að heilsa í bili og setjum inn nýjar myndir á næstu dögum.

sunnudagur, apríl 08, 2007

Páskar 2007



Undanfarna daga höfum við verið að undirbúa páskana. Birna Líf er mjög spennt og leggur heilmikið á sig til þess að allt verði til búið fyrir páskana svo að Páskakanína komi nú örugglega til okkar með páskaegg. Húsið er allt skeytt með gulum blöðrum og svo settum við hvítaseríu í grein sem stendur inni í stofu skreytt með gulum slaufum. Í gærkveldi settum við svo disk með tómat og vínberjum út fyrir kanínuna (áttum ekki gulrótt) og svo var beðið með mikilli eftirvæntingu. Birna Líf vakti mig samviskusamlega kl 6:30 í morgun til þess að við gætu athugað hvort kanína hefði komið , en því miður urðum við að bíða eftir Hilmar sem var á næturvakt og kom ekki heim fyrr en 9:30. En sem betur fer hafði kanínan vit á að koma inn með nokkur pínulítil egg, sem var þó svolítil sárabót. En loksins þegar Hilmar kom æddum við út í garð að leita. Kanínan hafði hugvitsamlega merkt egginn með mynd af okkur (sem hún hafði líklega fundið á bloggsíðunni okkar :) og voru gríðaleg fagnaðarlæti. Það er nokkuð öruggt að ef einhver var ekki vaknaður í Lyttelton áður en við fórum út í garð þá var hann það nú.

Í kvöld ætlum við að hafa dádýrasteik , grillað ala Hilmar og Ingó ætlar að kíkja til okkar í mat.

Að lokum óskum við öllum gleðilegra páska

laugardagur, mars 31, 2007

Afmælispistill



Ég verð að segja fyrir minn part að þá er alltaf jafngaman að eiga afmæli og sú tilfinning að aldurinn sé að færast yfir er ákaflega lítið truflandi. 36 ára afmælisdagurinn minn byrjaði með því að Birna Líf kom klukkan kortér í 7 um morguninn, hristi mömmu sína og sagði: ,,á ekki pabbi afmæli í dag?". Jú jú sagði Svava við því. ,,Komdu þá fram úr að útbúa morgunmat mamma" sagði sú stutta þá. Hálftíma síðar var svo náð í mig og á borðinu var dýrindismorgunmatur með himneskri djöflatertu að auki. Eftir þennan ljúfa morgunmat tygjuðu þau Svava, Birna Líf og Árni Kristinn í háskólann og leikskólann en ég var eftir heima. Veðrið var eins og best var á kosið, 25 gráður og sól þannig að ég skellti mér út að hlaupa langa hlaup vikunnar sem voru 2:15 klst sem var drjúg æfing í þessum hita.

Um kvöldið eldaði Svava svo frábæra Ribeye nautasteik að það var eins og maður væri kominn á Argentínu steikhús nema útsýnið út um eldhúsgluggann okkar var miklu betra.

í morgun komu svo Þorbjörg og Heiðar í heimsókn og við kíktum á markaðinn, fengum okkur organic bananaís, lékum okkur svolítið á leikvellinum og skutluðum síðan Svövu og Þorbjörgu 18 km út úr Lyttelton og þær eru að hlaupa til baka þegar þessi pistill er skrifaður. Æfingarnar þyngjast smám saman eftir því sem að nær dregur maraþoninu og erum við núna að hlaupa um 6 klst á viku.

Bílakaupin og gosbrunnurinn

Okkur langaði rétt aðeins að deila með ykkur þeirri skemmtilegu lífsreynslu að kaupa bíl á alvöruuppboði. Við fórum morguninn fyrir uppboðið og skoðuðum alla þá bíla og prufukeyrðum sem okkur leist vel á. Uppboðið var fyrir svokallaða ,,budget cars" sem þýðir að þeir voru allir fyrir neðan 6000 dollara (300þús kr ca)
Við ákváðum að það væru þrír sem kæmu til greina: Masda Demio, lítil Toyota og svo Nissan March. Allt sparneytnir smábílar sem eru innfluttir notaðir frá Japan. Það var ágætt að keyra þá alla og við ákváðum að mæta um kvöldið og sjá hvað sæti. Verðbilið sem þeir voru á var gefið upp frá 3700-5700 dolllarar. Við settum okkur þak í 4200 dollurum og ákváðum að bjóða ekki hærra en það. Svo mættum við um 18:00 með krakka sem voru orðnir þreyttir og nenntu ekki mikið að standa í svona vitleysu, vildu bara fara að fá kvöldmat. Fyrsti bíllinn sem við ætluðum að bjóða í var númer 19 þannig að við höfðum líka smátíma til að stúdera hvernig þetta færi fram........það var líka eins gott að við höfðum smátíma. Uppboðshaldarinn reyndist vera fær um að segja 500 orð á mínútu og helst að það þyrfti að spila það aftur á hálfum hraða til að ná því sem var að gerast. Það var alltaf byrjað tiltölulega ofarlega í verði fyrir hvern bíl og svo lækkuðu þeir verðið (niður að óþekktu marki) þar til farið var að bjóða í. Það var nokkrum sinnum sem þeir voru búnir að ná lágmarki án þess að neinn gerði sér grein fyrir og þá var sá bíll einfaldlega ekki seldur þetta sinnið og enginn fékk tækifæri til að bjóða. Það var því frekar stressandi að ná að tímasetja fyrsta boðið sitt þar sem þeirra lágmark var án þess að missa samt af bílnum.
Svo kom að fyrsta bílnum sem við ætluðum að bjóða í. Þeir byrjuðu að setja verðið í 4700 dollurum og lækkuðu sig í smáskömmtum þar til þeir voru komnir í 3500 og taldi ég að lágmarkinu væri náð þar og var fyrstur til að bjóða. Það bauð svo einhver náungi á móti mér en ég fékk hann á endanum á 4000 dollara (190 þús kr) sem við teljum vera kostakjör. Masda Demio 1997, 5 dyra, sjálfskiptur og sparneytinn innanbæjarbíll sem var aðeins búið að keyra 61 þús km.
Jæja þetta var nú sú saga. Önnur saga er sú að Svava fór með krakkana niður í bæ einn góðviðrisdaginn til að kaupa ís. Birna Líf var að leika sér að labba uppi á kantinum á einum gosbrunninum. Það fór ekki betur en svo að hún rann til og datt á bólakaf í gosbrunninn með tilheyrandi látum......hún jafnaði sig samt fljótt og var aðallega spennt að segja mér frá hrakningum sínum seinna um daginn.

fimmtudagur, mars 29, 2007

frúin hlær í betri bíl, frá.......



Skólastelpan

sæl öll

Það er ekki ofsögum sagt að Birna Líf sé að springa úr spenningi þessa dagana. Hún fékk bréf frá Ilam skóla þar sem umsókn hennar um skólavist var samþykkt. Hún situr löngum stundum og les bréfið (eða þannig) og veltir fyrir sér hvað hún þarf að hafa með sér í skólann og hvort við þurfum ekki að fara að kaupa handa henni skólabúning. Hún á að koma í tvær heimsóknir í skólann í maí og byrjar svo formlega í skólanum 5. júní þegar hún á afmæli. Þetta er afskaplega ánægjulegt þar sem Ilam skóli og barnheimilið sem þau Birna Líf og Árni Kristinn eru á eru við hliðina á háskólanum.
Svava er að drukkna í vinnu þessa dagana og er að rifja upp óendanlega mikla stærðfræði og algebru fyrir kúrsana sem hún er í . Gaman að takast á við ný verkefni þar, en krakkarnir eru svona að átta sig á að mamma er ekki alltaf til staðar fyrir þau út af skólanum og þurfa á mikilli athygli að halda þessa dagana.
Hilmar er búinn að taka byssuleyfið hérna úti og í gærkvöldi kom maður í heimsókn til að ganga úr skugga að ég væri ekki of persónuleikaraskaður til að meðhöndla skotvopn. Svava var spurð í þaula út í hvern mann ég hefði að geyma, hvort ég hefði nokkuð fengið alvarleg höfuðhögg og svo framvegis. Mjög áhugavert kerfi.
Við erum búin að setja inn fullt af nýjum myndum, sbr. linkinn hér til hliðar, á myndasíðuna okkar.

sunnudagur, mars 18, 2007

My daddy



Krakkarnir eru búnir að vera veikir með ælupest í síðustu viku og voru því mestmegnis heima við. Þau eru búin að jafna sig vel aftur og una sér afskaplega vel í nýja húsinu okkar og njóta þess að leika sér fáklædd úti í garði og á pallinum í góða veðrinu sem hér hefur verið sl. vikur. Það hefur oft á tíðum eiginlega verið of heitt....upp í 35 gráður yfir daginn. Birna Líf er farin að ókyrrast á leikskólanum og segist vilja fara að byrja í skóla....hún vill vera skólastelpa og skilur ekki hvað hún þarf að bíða lengi eftir þessu. Við eigum að fá svar í næstu viku hvort hún komist inn í Ilam skóla sem er við hliðina á háskólanum og barnaheimilinu.

Árni Kristinn er ánægður á leikskólanum og er svona farinn að babla aðeins meira. Það er þó ýmist á ensku eða íslensku og er t.d. mjög vinsælt hjá honum núna að segja ,,my daddy" þegar hann sér mig og það er náttúrulega alger bræðingur fyrir stoltan pabba. Þeim systkininum semur oftast nær fjarska vel saman en það getur valdið vandræðum þegar þau vilja bæði leika sér að sama hlutnum og þá er tekist hressilega á. Birna Líf er samt ofsalega þolinmóð gagnvart litlu jarðýtunni og passar alltaf upp á að hann sé ekki skilinn útundan.

Veiði......skoðunarferðin



Partur af trikkinu við að fá Birnu og Kidda út í þetta sinn var að lofa Kidda veiðiferð. Kiddi tók því með sér öll gögn sem til þurfti að fá ferðamannaskotleyfi á Nýja Sjálandi. Við fórum því fljótlega í að redda því....fórum á löggustöðina og hittum þar fyrir náunga sem var afskaplega mikið um munað að láta Kidda fá skotvopnaleyfi. Þetta var sennilega í fyrsta sinn sem hann afgreiðis slíkt gögn frá Íslandi en það var varla að hann liti á þau, bara stimplað. Til að ganga úr skugga að ekki væri um stórhættulegan fjöldamorðingja að ræða þurfti Kiddi að svara 10 fjölvalsspurningum áður en leyfið væri afgreitt. Við vorum búnir að stautast í gegnum fyrstu 2 þegar hann hafði ekki þolinmæði í meira, reif af honum spurningablaðið og sagði að þetta væri alveg örugglega allt í lagi. Næsta skref var að útvega veiðileyfi og sjaldan höfum við hitt starfsfólk sem var jafnumhugað um að við kæmumst á veiðar og veiddum helst sem mest. Við ákváðum því að keyra suður að Lake Ohau þjóðgarðinum þar sem veiðivon var á Himalaya fjallageitur og Red Deer. Með okkur var Ingó sem á bæði haglara og riffil og er búinn að fara áður á veiði hér á Nýja Sjálandi. Við komum á gististað rétt fyrir miðnætti, fengum okkur örlítið viskí og beint í bólið þar sem við þurftum að vakna klukkan 5:30 um morguninn. Við keyrðum inn í dalmynni þar sem heitir North og South temple basin. Upp af dölunum gnæfðu tignarlegir tindar upp í 2500 metra hæð, með snjóbráð í toppunum. Fljótlega komum við auga á 3 red deer sem við hugðumst ná, en því miður fengu þau sennilega veður af okkur áður en við komumst í skotfæri og voru horfin inn í skóginn þegar við komum yfir lítinn háls. Við héldum því áfram upp en sáum ekki fleiri dýr en nutum þess að borða hádegismat í 1500 metra hæð með stórkostlegt útsýni til allra átta. Eftir að hafa gengið niður keyrðum við svo til Mt. Cook village og fengum okkur kaffibolla og kleinu (eða þannig) með frábært útsýni yfir Mt. Cook. Eftir það héldum við heim og komum aftur til Lyttelton seint um kvöldið á laugardegi.

Við vorum ekki alveg tilbúnir að gefast upp á veiðinni og fórum eldsnemma á mánudagsmorgni niður að Lake Ellesmere að sitja fyrir Kanadagæsum.....falleg sólarupprás, engar gæsir en náðum einni paradísarönd sem bragðaðist frábærlega A-La-Birna seinna í vikunni. Því miður snérist Kajakinn minn upp á toppnum á leiðinni til baka í sömu andrá og við fórum fram hjá umferðarskilti sem barðist utan í hann.......hann er því í viðgerð núna, blessað greyið.

Tímabær pistill



Lífið er að falla í nýtt jafnvægi....talsvert hefur breyst á síðastliðnum mánuði. Fyrir utan að flytja inn í nýja húsið okkar þá er Svava núna byrjuð á fullu í skólanum og er á milljón að reyna að rifja upp og læra nýja algebru. Birna og Kiddi voru hjá okkur í 2 vikur á voru krakkarnir á meðan í fríi á leikskólanum við mikla kátínu. Birnu Líf og Árna Kristni þótti fátt skemmtilegra en að ryðjast inn í herbergið þeirra snemma á morgnana og vekja þau með látum og hoppa upp í rúm til þeirra við gagnkvæma ánægju ömmu og afa. Lífinu var tekið með mikilli ró í þessari heimsókn þeirra....farið í göngutúra um umhverfið, húsið endurskipulagt, góður matur og góð vín. Sunnudaginn eftir að þau komu þá var hér mikil götuhátíð þar sem aðalgötunni var lokað og upp voru settir sölustallar, vínsmökkun, fjöllistamenn, hljómsveitir o.s.frv. Veðrið var upp á hið besta og nutum við öll dagsins út í ystu æsar. Allt of fljótt var svo komið að brottför þeirra en sem betur fer erum við öll að fara í heimsókn til Íslands eftir örfáa mánuði og börnin geta farið að hlakka til þess að láta ömmur, afa og annað skyldfólk spilla sér tímabundið!

fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Amma og afi loksins komin



Þá eru Kristinn og Birna lent og hlutirnir gerast með hefbundnum hætti þegar þau koma...töskulaus eins og fyrri daginn. Flugfélaginu tókst að týna fyrir þeim töskunum annað árið í röð en sem betur fer kom þó allt í leitirnar enda allt veiðidótið hans Kidda í töskunni.

Birna Líf og Árni Kristinn hafa himinn höndum tekið að fá þau í heimsókn enda foreldrarnir langt frá því að vera eins dugleg að eltast við dyntina í þeim og Amma og Afi. Veðrið er búið að vera dásamlegt frá því að þau komu með sól og hita á bilinu 20-30 stig. Við rétt náðum að flytja inn í nýja húsið áður en þau komu með því að vera að mála myrkrana á milli, en það hafðist þó með mikilli hjálp frá vinum okkar hér úti og hafa þau öll mikla þökk fyrir. Að venju hafa síðan Birna og Kiddi ekki setið auðum höndum heldur er búið að standsetja allt húsið að nýju frá því þau komu hingað með gardínum, nýjum ljósum og húsgögnum.

Á morgun ætlum við Kiddi að fara með Ingó á veiðar í leit að fjallageitum í suðurölpunum og svo eftir helgi komumst við vonandi á Kanadagæs við Lake Ellesmere sem er ekki langt frá Lyttelton. Svava ætlar að vera eftir í Lyttelton og fara með Birnu á markaðinn, ströndina o.s.frv.

Látum þetta nægja í bili en bloggum fljótlega aftur...enda komin með nettengingu í nýja húsinu.

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Nýja Húsið

Hæ öll

Við höfum ekki haft mikinn tíma til að blogga undanfarið. Vorum að fá húsið afhent á föstudaginn, búin að kaupa húsgögn og erum að fara að mála og laga til á morgun. Stefnum að því að flytja inn næsta miðvikudag og vera búin að koma okkur vel fyrir vonandi áður en Kiddi og Birna koma til okkar þann 18. febrúar.

Það er allt gott að frétta, við höfum það gott og veðrið er búið að vera dásamlegt. Svava var að komast að því að hún þarf að taka fleiri áfanga en hún hafði búist við á fyrstu önninni og varð að kaupa haug af nýjum stærðfræðibókum sem hún þarf að renna yfir á næstu 2 vikum....

Það er enn verið að bíða eftir varahlutum í myndavélina okkar en eigum að fá hana í næstu viku eins og bílinn okkar en það er verið að gera við hann eftir að það var bakkað inn í hliðina á honum þegar ég var nýbúinn að keyra Þór, Suzanne og Willum út á flugvöll.

Bless í bili og setjum vonandi inn nýjar myndir af húsinu okkar þegar myndavélin kemur úr viðgerð.

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Beðið eftir húsinu okkar

Það er ýmislegt á döfinni hjá okkur þessa daganna.
Árni Kristinn er að læra ýmislegt gagnlegt á leikskólunum þessa daganna. Það sem ber helst að nefna er að 1) Ganga aftur á baka og 2) kasta sér í gólfið í frekju köstum, voða sætt. Það er greinilegt að menntunni er að skila sér til hans.

Þessa dagana erum við á kafi í húsatímaritum, skoða í húsgagnaverlanir og velja málingu fyrir nýja húsið okkar. Við erum öll orðin rosalega spennt.

Frá þjálfunarmálum er fyrst að segja að um þessar mundir er í hverri viku 5 km hlaupa keppni í Hagley-Park sem öllum er frjálst að taka þátt í og er mjög skemmtilegt. Við tókum þátt í síðustu viku með krakkanna í kerrum . Birnu Líf finnst þetta rosalega gaman og hitar upp með okkur. Hún vill endilega hlaupa með okkur og keppa eins og foreldrar sínir. Hún fékkst hins vegar loksins á að sitja í kerrunni og ég ýtti henni á undan mér. Að launum fékk hún svo grillaða pylsu, en það er boðið upp á pylsu fyrir alla þátttakendur.
Annars erum við að skoða Maraþon hlaupaprógröm. Erum að hlaupa eða hjóla ca 4- 5 sinnum í viku en þurfum að fara að finna okkur prógram sem við getum fylgt eftir.

Gestirnir okkar Þór Fannar, Suzanne og Willum Stefán eru núna farin til Sydney á leið sinni heim til Abu Dabí. Það var mjög gaman að hafa þau og hlökkum til að hitta þau einhvern daginn í Hollandi.

Myndavélin okkar er enn biluð. Setjum inn eitthvað að myndunum frá Suzanne og Þór Fannari.

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Myndavélaböðlarnir



Það er ekki einleikið með okkur og stafrænar myndavélar. Að vísu hefur Hilmar ekki fengið að taka vélina aftur með á kajak en Birnu Líf og Willum Stefán tókst sennilega að koma fyrir sandkorni á linsuna þegar ég var að taka mynd af þeim á ströndinni. Vélin er í viðgerð og beðið eftir varahlut frá Japan....úps. Við verðum bara að vona að máltækið ,,allt er þegar þrennt er" gangi eftir.....annars er þetta svo sem ekki alslæmt þar sem við fáum reglulegt upgrade á stafrænu myndavélunum okkar með þessu móti.

Birna Líf og Árni Kristinn eru byrjuð aftur á leikskólanum sem þýðir að viku seinna eru allir náttúrulega kvefaðir og með hálsbólgu. Veðrið er farið að batna loksins og í gær var 30 stiga hiti og mollulegt. Vegna óhappsins hennar Svövu í jólakökubakstrinum þá sleppum við ,,multisport" keppninni sem við ætluðum að taka þátt í um miðjan febrúar og förum bara að æfa okkur fyrir fullt maraþon í byrjun júní. Fórum í gær og létum mæla fæturnar í bak og fyrir með göngumælingum o.s.frv. og keyptum svo þægilegustu skó sem við bæði höfum nokkurn tímann verið í.

Nú eru leigjendurnir í húsinu okkar fluttir út og ættum við því að fá lyklana vonandi í lok þessarar viku eða byrjun næstu og getum því farið að dunda okkur við að flytja, mála og þess háttar þannig að allt verði klárt þegar að Kiddi og Birna koma til okkar um miðjan febrúar.

sunnudagur, janúar 14, 2007

Sumarfrí



Nei við erum ekki hætt að blogga.....en eins og aðrir bloggverjar förum við líka í sumarfrí. Við fengum gesti (Þór Fannar, Suzanne og Willum Stefán) á milli jóla og nýárs sem verða hjá okkur út janúar. Strax eftir áramót átti Hilmar 2 vikna sumarfrí og ákváðum við því að skella okkur í ferðalag um suðureyna. Ákveðið var að fylgja veðrinu sem var frekar erfitt þar sem hér hefur verið rigningarsamt í meira lagi undanfarið en skv. spánni átti að vera einna skárst á vestur-ströndinni og tókum við því stefnuna þangað. Við keyrðum að fallegu vatni sem heitir Lake Brunner og gistum þar í 2 nætur, dunduðum okkur við veiði (krakkarnir með spýtu niðri við vatn) og skiptumst á að fara út á kajaknum. Þaðan héldum við áfram niður á vesturströndina, stoppuðum við pönnukökuklettana (mikil vonbrigði fyrir krakkana þegar þeir áttuðu sig á að þeir væru í raun óætir!).

Næsti viðkomustaður var Murchison sem er inni í landi mitt á milli Nelson og vesturstrandarinnar. Aksturleiðin þangað var eftir Buller ánni sem á köflum var mjög tilkomumikil að sjá með gljúfrum og þvílíku. Við fórum í þotubáts ferð upp og niður ána og gengum yfir lengstu hengibrú á Nýja Sjálandi. Minnistæðast var þó að í ljós kom að við erum að ferðast með harðsvíruðum glæpamönnum. Þór og Suzanne fóru í hjólatúr þar en glögg lögreglukona á vakt tók eftir því að þau voru: Hjálmlaus. Þeim var hótað sektum en sluppu með skrekkin í þetta sinn og fengu ,,gönguleyfi", þ.e. þau máttu teyma fararskjótana heim.

Áfram var haldið í átt til Nelson og Abel Tasman þjóðgarðarins sem er annálaður fyrir smaragðsgrænan sjó og hreinar hvítar strendur. Fyrri nóttina gistum við hjá Dieter í treedimensions. Hann er þjóðverji sem rekur lífrænan búgarð með 700 mismunandi ávöxtum, býflugum, bambusskóg, lamadýrum etc. etc. Við nutum lífsins þar, röltum um svæðið og smökkuðum á exótískum ávöxtum. Aumingja Birna Líf lenti í því að vera að lykta af fallegu blómi sem því miður þyrst býfluga hafði tekið sér bólfestu í. Býflugan hélt að verið væri að ráðast á sig og svaraði fyrir sig með því að stinga Birnu Líf í kinnina. Hún bólgnaði svolítið upp en það var hjaðnað næsta dag. http://www.treedimensions.co.nz/

Seinni nóttina gistum við nær ströndinni og nutum dagsins á yndislegri strönd með nesti og kajak. Þaðan héldum við til Picton sem er Seyðisfjörður suðureynnar, en allar ferjusamgöngur yfir á norðureynna fara þar í gegn. Við gistum þar í 2 nætur, héldum upp á 4. ára afmæli Willums Stefáns, fórum í sædýrasafnið á staðnum þar sem m.a. var stór kolkrabbi, hákarlar, risahumrar og margt margt fleira. Eftir það var kominn tími til að halda heim enda þurfum við að fara að pakka bráðum til að flytja í nýja húsið.

Við erum búin að setja inn fullt af myndum úr ferðinni á www.svavahilmar.phanfare.com

miðvikudagur, desember 27, 2006

Jólabörnin


Gleðileg jól


Við viljum óska öllum vinum og vandamönnum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Við munum reyna að vera dugleg eftir sem áður að blogga á nýja árinu enda margt spennandi í vændum. Við flytjum inn í nýja húsið í febrúar, Svava byrjar í mastersnámi í biomedical engineering í háskólanum og margar spennandi fjölíþróttakeppnir eru í deiglunni...svona þegar Svava er búin að jafna sig í hendinni. Við stefnum að því að heimsækja klakann í júlí ef ég fæ frí í vinnunni og hittum þá vonandi sem flesta.


Jólin eru búin að vera dásamleg hérna hjá okkur. Við vorum með skötuveislu fyrir alla íslendinganna í Christchurch á Þorláksmessu og var hún mjög vel heppnuð. Við sáum um skötuna, hangikjöt, brennivín, jólaöl, harðfisk og laufabrauð. María og Bergur komu með heimabakað flatbrauð og Emma, Hera og Hirtirnir komu með rúgbrauð og heimagerðan eftirrétt.


Á aðfangadag vorum við með einn gest í mat...Ingó sem er í mastersnámi í verkfræði. Við vorum með risahumar í forrétt (ekki jafnstór og líflegur og sá sem við höfðum í fyrra). Í aðalrétt vorum við með dádýrshrygg sem Ingó og vinur hann veiddu og Ingó sá um að útbúa ris-ala-mand í eftirrétt.


Á jóladag fórum við svo í hangikjötsveislu til Maríu og Bergs og náðum að borða yfir okkur enn einn daginn í röð. Í gær, annan í jólum tókum við það svo bara rólega og fórum og spókuðum okkur í dýragarðinum með nesti og tilheyrandi.


Enn og aftur þá viljum við óska ykkur öllum gleðilegra jóla. Við höfum opnað myndasíðu með myndum og myndbandsbútum á www.svavahilmar.phanfare.com

fimmtudagur, desember 21, 2006

Útsýnið úr nýja húsinu


Í deiglunni

Sæl öll, ég er loks búinn að jafna mig eftir sjóvolkið þegar ég tapaði myndavélinni og því kominn tími á pistil. Krakkarnir eru komnir í jólafrí frá leikskólanum og ég er svo lukkulegur að fá vikufrí yfir jólin sem er meiri munaður en ég man nokkurn tímann eftir. Það er náttúrulega nóg að gera í jólaundirbúningnum hjá okkur og í gær vorum við að baka 3 síðustu smákökusortirnar fyrir jólin. Svava greyið var nú ekki heppnari en það að brjóta glasið sem hún var að nota til að skera út hringi í deigið fyrir hálfmánana og skarst glasið í vísifingur hægri handar hjá henni þannig að gera þurfti við taugina út í fingur. Henni líður bara ágætlega eftir aðgerðina en verður víst í spelku yfir jólin.
Af öðrum stórfréttum þá erum við búin að kaupa hús hér í Lyttelton, sjávarþorpinu sem við búum í. Þetta er 100 ára gamalt einbýlishús með fínum garði. Það er meira segja hæsnakofi sem hentar okkur alveg fullkomlega. Ég hef reyndar verið að heyra óskir um kanínur líka...en það verður bara að koma í ljós eftir að við flytjum inn. Ég veit ekki alveg hvar við eigum þá að koma fyrir geitinni og aligæsunum.